Skip to main content

Best fyrir börnin: Hvernig má styðja við læsi heima?

Best fyrir börnin: Hvernig má styðja við læsi heima? - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
17. apríl 2018 12:00 til 13:15
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Fjallað verður um hvernig foreldrar geta á markvissan hátt skapað ríkulegt mál- og læsisumhverfi fyrir börnin sín og ýtt undir áhuga þeirra á lestri á fundi í röðinni Háskólinn og samfélagið - Best fyrir börnin. Erindið fer fram þriðjudaginn 17. apríl kl. 12-13.15 í Hátíðasal Háskóla Íslands.

Á fundinum ræða þær Freyja Birgisdóttir, dósent við Sálfræðideild Háskóla Íslands, Sigríður Ólafsdóttir, nýdoktor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Dröfn Rafnsdóttir, verkefnisstjóri hjá Miðju máls og læsis hjá Reykjavíkurborg, og Þóra Sæunn Úlfsdóttir, talmeinafræðingur og læsisrágjafi hjá Miðju máls og læsis, um árangursríkar leiðir til að auka lestur barna og ungmenna.

Við bindum öll miklar vonir við framtíð barnanna okkar og viljum að þau blómstri á þeirri lífsbraut sem þau velja sér. Ein mikilvægasta undirstaðan fyrir slíka velgengni er að ná tökum á læsi en það hefur lengi verið tengt við nám grunnskólabarna. Á síðustu áratugum hefur þó orðið mikil breyting þar á og flestir líta nú á þróun læsis sem samvinnuverkefni margra sem hefst löngu áður en börn byrja í skóla.

„Foreldrar eru fyrstu kennarar barnsins og hafa mestu áhrifin á líf þess og nám þótt kennarar og kennsluaðferðir skipti líka miklu máli. Lestrarnám er þar engin undantekning en stuðningur foreldra og læsismenning heimilisins hefur mikið að segja um hversu vel það gengur,“ segir Freyja sem hefur lagt áherslu á málþroska barna og læsi í rannsóknum sínum.

En í hverju eru þessi áhrif foreldra fólgin og hvernig geta þeir aukið líkurnar á að lestrarnám barna þeirra verði farsælt? „Við ætlum að fjalla um þessa spurningu og skoða hvernig foreldrar geta á markvissan hátt skapað ríkulegt mál- og læsisumhverfi fyrir börnin sín, ýtt undir áhuga þeirra á yndislestri og stutt við heimalestur. Við munum líka fjalla sérstaklega um hvers konar áskoranir og tækifæri felast í lestrarnámi tvítyngdra barna,“ segir Freyja.

Fundurinn er opinn öllum áhugasömum en streymt verður frá honum á Netinu.

Freyja Birgisdóttir lauk BA-prófi í sálfræði árið 1996 og doktorsprófið í þroskasálfræði frá Oxford-háskóla árið 2003. Hún hóf störf sem lektor við Menntavísindasvið árið 2006 þar sem hún m.a. stýrði námsbraut um málþroska og læsi. Hún starfar nú sem dósent við Sálfræðideild Háskóla Íslands frá árinu 2016 þar sem hún veitir nýrri námslínu um skóla og þroska forstöðu.

Dröfn Rafnsdóttir er með meistarapróf frá Háskóla Íslands í stjórnun menntastofnanna með áherslu á símenntun kennara. Hún starfar nú sem verkefnisstjóri Miðju máls og læsis. Miðja máls og læsis er ráðgjafateymi á vegum skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar sem sinnir ráðgjöf og fræðslu í skóla- og frístundastarfi borgarinnar og til foreldra um þætti er varða mál og læsi.

Þóra Sæunn Úlfsdóttir starfar einnig hjá Miðju máls og læsis. Hún lauk meistarasprófi í talmeinafræði árið 1986 og hefur viðhaldið starfsréttindaleyfi sínu sem talmeinafræðingur í Bandaríkjunum síðan. Hún stundaði framhaldsnám við Háskólann í Newcastle veturinn 2006-2007 með áherslu á málþroska- og málþroskaraskanir barna.

Sigríður Ólafsdóttir er með doktorspróf í menntunarfræðum frá Háskóla Íslands. Hún kenndi og hafði umsjón með móttökudeild Háteigsskóla fyrir börn af erlendum uppruna á árunum 2000-2007 og lauk doktorsprófi í menntunarfræðum árið 2015 frá Háskóla Íslands. Hún starfar nú sem nýdoktor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands en tekur við starfi lektors í málþroskafræðum, íslensku máli og læsi þann 1. júlí næstkomandi.

----
Háskólinn og samfélagið er heitið á nýrri fyrirlestraröð í boði rektors Háskóla Íslands. Viðfangsefni fyrirlestraraðarinnar verða af ýmsum toga en eiga það sameiginlegt að hafa verið áberandi í samfélagsumræðunni síðustu misseri.

Í fyrstu fræðslufundaröðinni, sem hófst 18. janúar, er velferð barna og ungmenna í brennidepli. Sú fundaröð hefur fengið nafnið „Best fyrir börnin“ og þar er fjallað um ótal þætti sem snerta velferð barna og ungmenna, s.s. andlega líðan, hreyfingu, svefn, læsi, mataræði og samskipti. Markmiðið með fundaröðinni er að dýpka sýn bæði almennings og fagfólks á vandamál og lausnir á mikilvægum samfélagslegum þáttum og styðja fjölskyldur og samfélag í því að tryggja velferð barna og ungmenna. Fyrirlestrarnir í þessari fundaröð verða alls sex og þetta er sá fjórði í röðinni.

Fjallað verður um hvernig foreldrar geta á markvissan hátt skapað ríkulegt mál- og læsisumhverfi fyrir börnin sín í fundaröðinn Best fyrir börnin þriðjudaginn 17. apríl kl. 12-13.15 í Hátíðasal Háskóla Íslands.

Best fyrir börnin: Hvernig má styðja við læsi heima?