Skip to main content

Að horfast í augu við mannöldina: Menntun til jarðneskrar farsældar

Að horfast í augu við mannöldina: Menntun til jarðneskrar farsældar - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
10. nóvember 2023 15:00 til 16:00
Hvar 

Oddi

Oddi 101

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 10. nóvember heldur Iveta Silova, prófessor fyrirlesturinn Að horfast í augu við mannöldina: Menntun til jarðneskrar farsældar í Odda kl. 15.

Hið margþætta eðli loftslagskrísunnar og hversu djúp hún er kallar á alþjóðlegt og þverfræðilegt viðbragð þar sem fólk vinnur saman að því að umbreyta menntun og skapa nýja menningu sem miðar að sjálfbærari framtíð fyrir jörðina. Þessari áskorun verður ekki mætt með einberum tæknilegum lausnum, heldur krefst hún gagnrýninnar endurskoðunar á forsendum þekkingar, menntunar og félagslegra breytinga. Í fyrirlestrinum verður kafað í hlutverk og ábyrgð menntastofnana sem hlúa að gagnrýnu ímyndunarafli sem er nauðsynlegt ef takast á að umbreyta menningunni á þeirri mannöld sem runnin er upp. Hvernig getum við virkjað mátt vísinda, lista og ímyndunarafls til að bregðast við því neyðarástandi sem loftslagskrísan er? Hvernig getum við endurmótað tengsl menntunar og sjálfbærni þannig að okkur auðnist að flétta saman á áhrifaríkan hátt ólíka þekkingu um vistkerfin, brúa gapið á milli rannsókna og starfs, og setja jarðneska velferð í forgrunn? Og hvernig getum við hámarkað áhrif rannsókna okkar á starf og stefnumótun?

Að fyrirlestri loknum fara fram umræður þar sem Ólafur Páll Jónsson prófessor í heimspeki við Menntavísindasvið HÍ og Dóra Guðrún Guðmundsdóttir – Sviðsstjóri lýðheilsusviðs Landlæknisembættisins taka þátt.

Berglind Rós Magnúsdóttir professor við MVS, HÍ stýrir umræðum.

Iveta Silova er stödd hér á landi í boði Fulbright og Menntavísindasviðs. Hún er prófessor og varasviðsforseti við Mary Lou Fulton Teachers College við Arizona háskóla í Bandaríkjunum. Iveta starfar einnig sem vísindamaður við Arizona Global Futures Rannsóknarstofuna. Sérhæfing hennar í rannsóknum felst í að byggja þvermenningarlegan og þverfaglegan grunn að gagngerri enduruppbyggingu á hlutverki menntunar með hnattræna sjálfbærni að leiðarljósi. Nú á haustmisseri 2023 er hún Fulbright fræðimaður við Tampere háskóla í Finnlandi. Iveta er (associate) ritstjóri tímaritsins Education Policy Analysis Archives (í opnum aðgangi) og fyrrum forseti félags um samanburðar- og alþjóðlega menntunarfræði. Hún er á Íslandi í boði Fulbright og MVS Háskóla Íslands.

Verið öll velkomin.

 

Hið margþætta eðli loftslagskrísunnar og hversu djúp hún er kallar á alþjóðlegt og þverfræðilegt viðbragð þar sem fólk vinnur saman að því að umbreyta menntun og skapa nýja menningu sem miðar að sjálfbærari framtíð fyrir jörðina. Þessari áskorun verður ekki mætt með einberum tæknilegum lausnum, heldur krefst hún gagnrýninnar endurskoðunar á forsendum þekkingar, menntunar og félagslegra breytinga.

Að horfast í augu við mannöldina: Menntun til jarðneskrar farsældar