Skip to main content

Uppeldis- og menntunarfræði - Aukagrein

Uppeldis- og menntunarfræði - Aukagrein

Menntavísindasvið

Uppeldis- og menntunarfræði

Aukagrein – 60 einingar

Í uppeldis- og menntunarfræði er fengist við spurningar sem tengjast þroska og uppeldi barna og unglinga, samskiptum fólks, sjálfsmyndum einstaklinga og hópa, fjölskyldum, skólum, kynferði og kyngervi, menningarlegum margbreytileika, menntun og starfsframa og þróun skólakerfa. Námið felur í sér fjölbreytta grunnmenntun sem undirbýr fólk til starfa á fjölmörgum sviðum uppeldis-, félags- og tómstundamála.

Skipulag náms

X

Uppeldishlutverkið: Áskoranir í nútímasamfélagi (UME102G)

Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist grunnþekkingu í því hvað felst í uppeldi barna og ungmenna. Hugmyndir um uppeldi verða skoðaðar í sögulegu og menningarlegu samhengi með því að rýna í gildi og viðmið samfélagsins og áhrif þeirra á uppeldi. Fjallað verður um samspil fjölskyldna og stofnana um uppeldi barna. Rætt verður um heillavænlegt uppeldi og umönnun barna frá fæðingu til 18 ára aldurs. Sérstaklega verður hugað að hlutverki foreldra, margbreytileika fjölskyldna og ólíkum þörfum þeirra. Ræddar eru áskoranir í uppeldi í nútímasamfélagi og þörf á fræðslu og stuðningi við uppalendur. Í námskeiðinu er lögð áhersla á ígrundun nemenda á persónulegri reynslu með það að markmiði að dýpka skilning þeirra á fræðunum.

X

Heimspeki og hugmyndasaga menntunar (UME304G)

Meginmarkmið námskeiðsins er að nemendur verði færir um að taka málefnalega afstöðu til hugmynda og aðferða í kennslu og uppeldi í fortíð og nútíð, og geti tekið þátt í gagnrýninni umræðu um skólamál og gert grein fyrir eigin hugmyndum um menntun og uppeldi.

Viðfangsefni:

Á námskeiðinu verður fjallað um uppeldis- og menntunarhugmyndir allt frá tímum Forn-Grikkja og fram á okkar daga. Áhersluatriði í kennslunni eru eftirfarandi:

1. Maðurinn: Skynsemi, skilningur og siðvit
Fjallað verður um mannskilning á ólíkum tímum. Hvernig hugmyndir hugsuða um eðli mannsins höfðu áhrif á hugmyndir hvers tíma um uppeldi og menntun.

2. Markmið menntunar
Fjallað verður um markmið menntunar og forsendur þessara markmiða á hverjum tíma s.s að tileinka sér dygð, að uppfylla hlutverk sitt í samfélaginu, verða meiri maður, að axla ábyrgð í samfélagi, að verða virkur þátttakandi í lýðræðissamfélagi, að tileinka sér sjálfstæða og gagnrýna hugsun.

3. Frelsi og lýðræði
Fjallað verður um áhrif hugmynda um frelsi og sjálfræði mannsins í lýðræðissamfélagi á hugmyndir um menntun. Sérstaklega verður hugað að áhrifamikilli hugmyndafræði í samtímanum sem lýtur að menntun til lýðræðis, borgaralegri menntun, skóla án aðgreiningar og jafnréttis til náms.

Meðal viðfangsefna námskeiðsins verða þekkingar-, stjórn-, og siðspeki Platons, hugmyndir Rousseau um frelsi og sjálfræði, hugmyndir Kants um skynsemi og upplýsingu og hugmyndir Wollstonecraft um jafnrétti. Einnig verður frelsishugtakið skoðað í ljósi kenninga E. Key, A.S. Neill og P. Freire. Fjallað verður ítarlega um kenningar John Dewey um menntun, gagnrýna hugsun og lýðræði.

X

Þroskasálfræði: Allt æviskeiðið (ÞRS215G)

Fjallað er um þroska mannsins yfir allt æviskeiðið. Veigamestu kenningum um þroska verða gerð skil, m.a. kenningum um vitrænan þroska, tilfinningaþroska og þróun tilfinningatengsla, kenningum um félagsþroska, þróun sjálfsmyndar og siðferðisvitundar.

Áhersla er lögð á umfjöllun um áhrif uppeldis, félagslegra aðstæðna og menningar á þroska einstaklingsins. Þá verður einkennum hvers æviskeiðs gerð skil og fjallað um helstu breytingar sem eiga sér stað á hverju æviskeiði. 

Kennsla fer fram með fyrirlestrum/hljóðglærum sem verða aðgengilegar í Canvas og í umræðutímum.
Staðnemar sækja jafnan umræðutíma (í rauntíma) og fjarnemar svara yfirleitt umræðuspurningum skriflega á Canvas. Verkefnatímar miða að því að nemendur fái þjálfun í að ræða námsefnið á gagnrýninn hátt, mynda tengsl milli kenninga og vettvangs og efla sjálfstæð vinnubrögð og miðlun. 

X

Menntun og kyngervi (UME004M)

Markmið: Markmið námskeiðsins er að nemar kynnist hugmyndum, kenningum  og rannsóknum um uppeldi og menntun í ljósi kynjafræðilegra sjónarmiða og hugtaksins kyngervi (gender).

Viðfangsefni. Unnið verður með hugtökin, kyngervi, kynjun, kynímyndir, staðalmyndir, kvenfrelsi, félagsleg mismunun, kynhlutverk, kynjablinda, tvíhyggja og valdatengsl. Fjallað verður um hvernig hugmyndir um menntun kynjanna hafa þróast sögulega, rýnt í orðræðuna um drengi og stúlkur og staðreyndir og gagnrýni á menntun og kynferði á öllum skólastigum. Sjónarmið félagslegar mótunarhyggju og eðlishyggju verða notuð til að útskýra mismunandi hugmyndir um kynjamismunun. Athyglinni verður beint sérstaklega að nýjum rannsóknum á sviðinu og fræðilegri nálgun mismunandi fræðimanna. Að síðustu verður athyglinni beint að íslenska skólakerfinu, stöðu drengja og stúlkna, leiðtogum og stjórnendum, námskrám og stöðu lögbundinnar jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum. Lesnar verða nýjar íslenskar og erlendara rannsóknir á kyngervi og skólastarfi, t.d. rannsóknir á námsframmistöðu kynjanna, mismunandi hugmyndum stelpna og stráka um námsgreinar, námshæfni og námsval og hvernig skólar bregðast við kynjun skóla og samfélags.

Vinnulag
Námskeiðið er skipulagt sem staðnám, með möguleikum til fjarnáms ef þörf krefur. Námskeiðið byggist á fyrirlestrum, umræðum, málstofum, hópvinnu og verkefnavinnu.

X

Inngangur að uppeldis- og menntunarfræði (UME101G)

Gert er ráð fyrir að nemendur taki þetta námskeið á fyrsta ári. Fjallað verður um grunnhugtök og nokkur helstu viðfangsefni uppeldis- og menntunarfræði kynnt. Rætt verður um þróun hennar sem fræði- og starfsgreinar og um sérstöðu hennar og tengsl við aðrar greinar. Kynnt verður ágrip af sögu evrópskra uppeldishugmynda og fjallað um íslenska uppeldis- og skólasögu. Fjallað verður um aðstæður ungs fólks í nútímasamfélagi og ýmis deiluefni í mennta- og uppeldismálum. Gerð verður grein fyrir ólíkum sjónarhornum og hugmyndum um úrlausn.

Námskeiðið er opið staðnemum og fjarnemum. Ekki er mætingaskylda í námskeiðið en nemendur eindregið hvattir til að mæta í umræðutíma. Kennarar útbúa upptökur í hverri viku með umfjöllun og leiðsögn um lesefni og nemendur mæta vikulega í umræðutíma annað hvort á staðnum eða í gegnum fjarfundabúnað. Í þessu námskeiði er fyrirkomulag fyrir fjarnema Fjarnám með virkniskyldu í rauntíma.

X

Samskipti í uppeldis- og fræðslustarfi (UME201G)

Nemar kynnast helstu kenningum og rannsóknum um árangursríka samskiptahætti í uppeldis- og fræðslustörfum á vettvangi fjölskyldna, skóla og annarra stofnana. Fjallað er um vináttu, leik, samskiptahæfni barna og unglinga og áskoranir í samskiptum jafnt innan skóla sem utan. Nemendur kynna sér og vinna verkefni um innlend og erlend samskiptaverkefni sem miða að því að efla félags-, og samskiptahæfni barna og unglinga í fjölmenningarlegu nútímasamfélagi.

Vinnulag:
Kennsla fer fram með fyrirkomulagi vendikennslu sem felst í upptökum frá kennurunum og/eða fyrirlestrum í tímum og umræðum og hópavinnu í tímum. Í þessu námskeiði er fyrirkomulag fyrir fjarnema: Fjarnám með virkniskyldu í rauntíma.

X

Fjölskyldur í nútímasamfélagi (UME202G)

Í námskeiðinu verður fjallað um nýjar kenningar og rannsóknir varðandi fjölskyldur í nútímasamfélögum og fjölskyldan sett í sögulegt samhengi. Áhersla verður lögð á umfjöllun um margbreytileika fjölskyldna, ólíkar fjölskyldugerðir, fjölskyldur minnihlutahópa og aðstæður barna og foreldra í mismunandi fjölskyldugerðum. Þá verður fjallað um fjölskyldustefnu og tengsl fjölskyldulífs og atvinnulífs.

X

Unglingsárin: Áskoranir og tækifæri (UME404G)

Í námskeiðinu er fjallað um áhættuhegðun ungmenna og velferð þeirra. Fjallað er um ýmsa uppeldislega, félagslega og sálfræðilega þætti sem tengjast styrkleikum ungmenna og áskorunum sem þeim mæta. Rætt er um kenningar og rannsóknir á eftirfarandi sviðum í tengslum við unglingsárin: Líffræðilegar og félagslegar breytingar; margvíslegan sálfélagslegan þroska; sjálfsmynd; heilsu og líðan; forvarnir; vímuefnanotkun; skólagöngu; samskipti við fjölskyldu og vini; og framtíðarmarkmið.

Verkefni í námskeiðinu hafa að markmiði að auka þekkingu og skilning nemenda á forvörnum ýmiss konar bæði á og því hvernig megi best styðja ungmenni til sjálfseflingar, heilbrigðs lífstíls og lífsviðhorfa.

Í umræðutímum er lögð er áhersla á að nemendur geti skoðað viðfangsefni frá mörgum hliðum og rökrætt um álitamál.

ATH: Hægt er að taka námskeiðið í fjarnámi. Kennsluinnlegg eru almennt tekin upp og sett inn á námsumsjónarkerfið CANVAS fyrirfram en ef kennsla fer fram í rauntíma þá er hún tekin upp. Vikulega eru umræðutímar (90 mín.) þar sem nemendur geta valið milli þess að koma á staðinn eða vera með á netinu. Hið sama á við þegar ritgerðir eru kynntar einu sinni á önninni þá geta nemendur verið á staðnum eða með á netinu.

X

Félagsfræði uppeldis og menntunar (UME303G)

Viðfangsefni námskeiðsins er félagsfræði uppeldis og menntunar. Helstu kenningarlegu sjónarhorn verða kynnt til sögunnar og skoðuð í ljósi fjölbreyttra viðfangsefna og álitamála á sviði uppeldis og menntunar í gegnum tíðina. Má þar nefna hlutverk og tilgang menntunar, ólíkar áherslur í uppeldi, stofnun skóla og þróun skólakerfis, hlutverk fjölskyldu og samfélags, aðgengi að menntun, nútímavæðingu og einstaklingshyggju, jafnrétti og félagslegan hreyfanleika. Í námskeiðinu verður lögð áhersla á samspil sögulegs sjónarhorns og kenninga um uppeldi og menntun, þar sem sjónum verður beint að sérkennum uppeldis- og menntunar með hliðsjón af samfélagsþróun. Aðaláherslan verður á íslenskt samhengi en með tilliti til almennrar þróunar í nágrannalöndunum.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Jón Vilberg Jónsson
Jónína Sigurðardóttir
Jón Vilberg Jónsson
Uppeldis- og menntunarfræði

Ég valdi námið vegna þess að ég tel að uppeldi og menntun skipti lykilmáli í nútímasamfélagi. Námið hefur farið fram úr öllum mínum væntingum og er bæði gefandi og áhugavert. Ég hlakka til að starfa á þessum mikilvæga vettvangi í framtíðinni.

Jónína Sigurðardóttir
Uppeldis- og menntunarfræði

Ég hef alltaf haft áhuga á velferð barna og þess vegna valdi ég nám í uppeldis- og menntunarfræði. Námið er fyrir alla þá sem hafa hug á að móta komandi kynslóðir og gera þær enn betri.

Hafðu samband

Kennsluskrifstofa Menntavísindasviðs
Stakkahlíð, 1. hæð í Enni
Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga
Sími 525 5950
mvs@hi.is

""

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.