Trúarbragðafræði - Aukagrein


Trúarbragðafræði
Aukagrein – 60 einingar
Trúarbrögð heimsins eru eins ólík og þau eru mörg. Þau eru sömuleiðis ólík innbyrðis og taka breytingum í tímans rás. Heimur trúarbragðanna er flókinn og heillandi. Þrátt fyrir allan fjölbreytileikann eiga trúarbrögðin það sameiginlegt að hafa áhrif á samfélög fólks og menningu með fjölbreytilegum hætti. Þau fléttast saman við hin ýmsu svið mannlífsins, til dæmis stjórnmál, menntun, lög, listir, vísindi.
Skipulag náms
- Haust
- Inngangur að Gamla testamentinuB
- Inngangur að trúfræðiB
- Inngangur að sögu kristniB
- TrúarlífsfélagsfræðiB
- Inngangur að heimspeki AsíuV
- Goðafræði og trúarbrögð Grikkja og RómverjaV
- Indversk menning og samfélag IV
- Kóreskt samfélag og menningV
- John Milton’s Paradise LostV
- Saga Mið-Austurlanda IV
- Japanskt þjóðfélag og menning IV
- Ingmar Bergman - uppreisn gegn föðurímyndV
- Átakasvæði í heiminum – áskoranir fjölmenningarVE
- Vor
- Saga kristni og listirB
- Inngangur að guðfræðilegri siðfræðiB
- Frumkristni: Samtíðar- og bókmenntasagaB
- History of China I: From Mythological Origins to Late MingVE
- Rómverja sagaV
- Indversk menning og samfélag IIV
- Trú og töfrarVE
- Norræn trúV
- Trúarbragðafræðsla og margbreytileikiV
- Lífsskoðanir og menntunV
- Saga Mið-Austurlanda IIV
- Biblían sem bókmenntaverkV
Inngangur að Gamla testamentinu (GFR104G)
Fjallað verður um tilurðar- og bókmenntasögu Gamla testamentisins og þá mynd af stjórnmálasögu og trúarsögu „Ísraels“ sem þar er sett fram. Jafnframt verður fjallað um niðurstöður nýjustu ritskýringar-, sagnfræði- og fornleifarannsókna á stjórnmála- og trúarsögu landsvæðisins fyrir botni Miðjarðarhafs frá lokum bronsaldar og á 1. árþúsundi f. Kr. og þær niðurstöður bornar saman við söguskilning Gamla testamentisins. M.ö.o. verður annars vegar leitast við að varpa ljósi á „Ísrael“ Biblíunnar og hins vegar „Ísrael“ sögunnar (í sagnfræðilegum skilningi). Hugað verður að ólíkum hugmyndahefðum sem varðveittar eru í mismunandi bókmenntahefðum Gamla testamentisins og þessar hugmyndahefðir settar í almennt samhengi menningar og trúar þjóðanna fyrir botni Miðjarðarhafs til forna. Einnig verður hugað að þróun guðsmyndarinnar í konungsríkjunum Ísrael og Júda á grundvelli rannsókna á félagssögulegu samhengi átrúnaðar í G.t.
Til grundvallar liggur nálgun og umfjöllun kennslubókar námskeiðsins, Introduction to the Bible eftir Christine Hayes, prófessor í trúarbragðafræðum við Yale-háskóla.
Inngangur að trúfræði (GFR204G)
Markmið þessa námskeiðs er að gefa sögulegan ramma, þar sem farið er yfir helstu atriði kenningasögunnar frá upphafi og fram á okkar daga. Sérstök áhersla verður lögð á játningamyndun og mótun og einkenni helstu kirkjudeilda.
Inngangur að sögu kristni (GFR117G)
Viðfangsefni námskeiðsins er saga kristni frá upphafi til okkar daga. Í námskeiðinu, sem er inngangs- og yfirlitsnámskeið, verður fjallað um megineinkenni á helstu tímabilum í sögu trúarbragðanna á grundvelli nýjustu rannsókna. Það verður gert í tímaröð, þ.e. yfirferðin mun hefjast í frumkristni en ljúka í nútímanum. Einnig verður fjallað sérstaklega um valin stef sem verða tekin reglulega fyrir í námskeiðinu í ólíku sögulegu og menningarlegu samhengi. Þessi stef eru 1) rétttrúnaður og trúvilla, 2) kristni og ofbeldi, 3) afhelgun og 4) klausturhreyfingar. Þó megináhersla liggi á útbreiðslu trúarbragðanna í Evrópu verður hún þó einnig skoðuð með hnattræna dreifingu þeirra í huga. Kynntar verða mikilvægustu kenningar og aðferðir í trúarbragðasögu með sérstakri áherslu á kristni.
Trúarlífsfélagsfræði (TRÚ303G)
Hvers konar fyrirbæri er trú og hver eru tengsl trúarbragða við þróun samfélaga? Á námskeiðinu kynnast þátttakendur hvernig slíkum spurningum hefur verið svarað frá félagsfræðilegu sjónarhorni. Námskeiðið er inngangsnámskeið og verður gerð grein fyrir helstu kenningum, aðferðum og hugtökum trúarlífsfélagsfræðinnar. Áberandi í umfjöllun námskeiðsins verða hugtök á borð við nútímavæðingu og ólík form afhelgunar. Á námskeiðinu kynna nemendur sér jafnframt hlutverk átrúnaðar í fjölmenningarsamfélaginu og hvernig beita megi kenningum, aðferðum og hugtökum trúarlífsfélagsfræðinnar til að greina hinn lifaða veruleika trúarbragðanna í ljósi íslenskra aðstæðna.
Inngangur að heimspeki Asíu (HSP418G)
Námskeiðið veitir yfirlit yfir helstu strauma og stefnur í sígildri heimspeki Indlands, Kína og Japan. Fyrst skal einblínt á þær heimspekilegu undirstöður sem mótuðust á Indlandi til forna og liggja hindúisma, jaínisma og búddisma til grundvallar. Síðan verður haldið í hina austur-asísku menningarheima og fjallað um konfúsíanisma, daoisma og þær óvenjulegu útfærslur á búddisma sem mótuðust undir áhrifum frá þeim. Áhersla verður lögð á að gera grein fyrir megininntaki og grundvallarhugtökum þessara hugmyndakerfa, að nokkru leyti með því að gera samanburð við vestræna heimspeki en jafnframt með nokkurri hliðsjón af trúarlegum einkennum þeirra sjálfra.
Umsjón og kennsla: Geir Sigurðsson, prófessor í kínverskum fræðum og þvermenningarlegri heimspeki.
Goðafræði og trúarbrögð Grikkja og Rómverja (KLM104G)
Framhjáhald og morð, mannát og sifjaspell, örlög og ábyrgð, maður og guðdómur: umfjöllunarefni þessa námskeiðs er goðsögur og trúarbrögð Grikkja og Rómverja. Lesið verður úrval úr grískum og latneskum bókmenntum í þýðingu en ekki er gert ráð fyrir þekkingu á frummálunum. Í námskeiðinu reynum við að átta okkur á margbreytileika fornra goðsagna, eðli þeirra og tilgangi og tengslum þeirra við trúarbrögð, heimspeki, bókmenntir og listir, sagnaritun og stjórnmál fornmanna. Einnig verður fjallað um fræðilegar nálganir nútímans.
Indversk menning og samfélag I (HIN201G)
Þetta námskeið er fyrir alla sem vilja kynnast indverskri menningu og samfélagi.
Engrar forþekkingar er krafist.
Meginmarkmið námskeiðsins er að kynna landfræðilega og menningarlega arfleifð Indlands fyrir nemendum. Í ljósi hinnar miklu menningarlegu fjölbreytni landsins verður einungis stiklað á stóru. Í þessu námskeiði verður fyrst og fremst stuðst við hljóð- og myndefni og viðfangsefnið verður nálgast á gagnvirkan hátt. Nemendum verður séð fyrir fjölbreyttu lesefni og glósum sem tengjast hverju viðfangsefni sérstaklega.
Viðfangsefni námskeiðsins:
- Landfræðileg einkenni Indlands og kennileiti
- Byggingarlist bænahúsa
- Indverskar hátíðir
- Ayurveda fyrri hluti
- Ayurveda seinni hluti
- Indversk krydd
Námskeiðið er kennt í 6 vikna lotu á fyrri hluta haustmisseris, tvisvar í viku, 80 mínútur í senn kl. 16:40 – 18:10.
Kóreskt samfélag og menning (KOR103G)
Námskeiðið er ætlað sem kynning á kóresku samfélagi og menningu. Markmið þess er að veita nemendum grunnþekkingu á sögu, trúarbrögðum og heimspeki Kóreu og að bjóða upp á innsýn í nútíma kóreskt samfélag með því að kanna efni eins og ríki, fjölskyldu, kyn og fólksflutninga og ræða þau með gestafyrirlesurum eða öðrum viðeigandi einstaklingum.
John Milton’s Paradise Lost (ENS615G)
The course offers an in-depth study of John Milton’s great epic Paradise Lost (1667-1674) in its poetic, intellectual, historical, and theological complexity. Our conversations about the poem will be guided by three interrelated concerns. We will pay nuanced attention to the form of Milton’s text: his experimentation with prosody, the artistry of his language, the intricacy of his rhetorical designs, his dazzling structures of imagery, the interweaving of narrative voices and modes. We will also be interested in Milton’s radical intervention in the genre of epic poetry and his ongoing dialogue with Homer, Virgil, Tasso, Ariosto, Spenser, and others. Finally, to facilitate our interpretation of Paradise Lost we will consider the text’s engagements with multifarious cultural, political, social, and religious contexts of seventeenth-century England. We will engage with a host of issues, from book history and Renaissance theories of the imagination to economy and warfare, from law and gender to colonialism and empire, from sexuality and theology to new science and philosophy.
Saga Mið-Austurlanda I (MAF101G)
Í námskeiðinu verður farið yfir sögu þess svæðis sem telst til Mið-Austurlanda frá fornöld og fram á miðaldir. Fjallað verður um uppgang Egypta, Súmera og annarra þjóða í hinni svokölluðu 'vöggu siðmenningarinnar'. Sérstök áhersla verður lögð á uppgang íslam á 7. öld og það heimsveldi sem múslimar byggðu upp næstu aldir þar á eftir. Fjallað verður um Múhameð spámann og eftirmenn hans, tilurð Kóransins, kalífat Umayya, kalífat Abbasída og 'gullöld' íslam. Námskeiðið er kennt á íslensku en mest af lesefninu verður á ensku.
Japanskt þjóðfélag og menning I (JAP105G)
Markmið námskeiðsins er að gefa nemendum innsýn í japanskt þjóðfélag og menningu bæði fyrr og nú. Viðfangsefni námskeiðsins eru m.a. sjálfsmynd, menntun, trúarbrögð, hefðir og listir í Japan.
Ingmar Bergman - uppreisn gegn föðurímynd (SÆN105G)
Í námskeiðinu verður fjallað um kvikmyndir Ingmars Bergman, fyrst og fremst fyrstu kvikmyndir frá tímabilinu 1950-60, þar sem uppreisn gegn föðurvaldinu myndar eins konar sálrænan kjarna. Áhersla verður lögð á þróun þemans um þörf hins trúaða manns fyrir einhvers konar tákn frá Guði í Sjunde inseglet (1956) til þess að hann samþykki að trúa á hinn grimma Guð í Jungfrukällan (1960) og áfram til uppgjörs við hina neikvæðu guðsmynd í Såsom i spegel (1961), Nattvardsgästerna (1962) og Tystnaden (1963). Nemendur horfa á fimm myndir og þær ræddar og greindar í tímum.
Átakasvæði í heiminum – áskoranir fjölmenningar (SFG001G)
Meginviðfangsefni námskeiðsins eru átök og átakasvæði í heiminum einkum með hliðsjón af tækifærum og áskorunum sem slík viðfangsefni gefa í kennslu. Þátttakendur kynnast hugmyndum og sjónarmiðum tengdum átökum og tengja við landfræðilegar aðstæður, sögu, menningu og trúarbrögð. Unnið verður með valin tvö til þrjú átakasvæði. Til greina koma Írland og írska lýðveldið, Ísrael og Palestína, Mexíkó, Myanmar, Nígería og Tyrkland, auk átaka sem erfitt er að afmarka landfræðilega. Val á viðfangsefnum verður í samráði við þátttakendur og eftir atvikum verða þau tengd við íslenska sögu og aðstæður.
Verkefni námskeiðisins snúa að æfingum í upplýsingaleit, framsetningu sögulegra og landfræðilegra upplýsinga og í að útskýra flókna eða viðkvæma þætti efnisins.
Lokapróf gildir 40%, en verkefni og hlutapróf 60%. Í námskeiðinu er 80% mætingaskylda í kennslustundir.
Sjá nánari upplýsingar á Canvas-vef námskeiðsins.
Saga kristni og listir (GFR416G)
Saga kristni og saga listarinnar eru samofnar hvor annarri. Í þessu námskeiði verður fjallað um tengsl kristni við hinar ýmsu tegundir listsköpunar með dæmum úr bókmenntum, myndlist, tónlist og kvikmyndagerð. Þó megináhersla námskeiðsins liggi á kristni í Evrópu verður leitast við að taka dæmi til skoðunar og samanburðar frá öðrum heimshlutum og úr öðrum trúarbrögðum. Einkum verður unnið með frumheimildir frá Norður Evrópu en einnig annars staðar frá. Í umfjöllun námskeiðsins verður sérstök áhersla lögð á myndlist og bókmenntir og gagnkvæm tengsl kristni við slíka listsköpun. Í samhengi myndlistar verður fjallað um ólíkar hugmyndir um gildi hennar fyrir kristni á ólíkum tímabilum og innan ólíkra kristinna kirkjudeilda og trúarhreyfinga. Sérstaklega verður fjallað um kenningar um myndbrot og myndbann. Í umfjöllun um bókmenntir verður m.a. fjallað um bókmenntahugtakið, aðgreininguna milli veraldlegra og trúarlegra bókmennta og beitingu bókmenntafræðilegra kenninga við greiningu á kristnum trúarlegum textum.
Inngangur að guðfræðilegri siðfræði (GFR201G)
Í námskeiðinu er fjallað um siðfræði af sjónarhóli guðfræði og heimspeki. Áhersla liggur á helstu vestrænum siðfræðikenningum og hugtökum. Sérstök áhersla er lögð á siðfræði Biblíunnar og kristna siðfræði í sögu og samtíð.
Frumkristni: Samtíðar- og bókmenntasaga (GFR211G)
Í þessu námskeiði verður fjallað um upphaf frumkristni sem og sögulegan og hugmyndafræðilegan bakgrunn hennar. Áhersla verður lögð á rætur frumkristni í síðgyðingdómi og saga og þróun síðgyðingdómsins rakin í því sambandi. Einnig verða hugmyndafræðilegar rætur frumkristni í hinum helleníska menningarheimi skoðaðar. Fjallað verður um frumkristnar bókmenntir þar sem áhersla verður lögð á sagnfræðilega nálgun efnisins. Gefin verður innsýn í einstök rit Nýja testamentisins sem og önnur frumkristin rit, einkum í ljósi sögulegs samhengis þeirra og annarra samtímabókmennta. Einnig verður fjallað almennt um eðli og form rita af þessu tagi. Þannig verður lagður faglegur grunnur að lestri og rannsóknum á frumkristnum textum.
History of China I: From Mythological Origins to Late Ming (KÍN102G)
Þetta námskeið fjallar um sögu Kína frá goðsögulegum tíma Xia-veldisins á þriðja árþúsundi f.Kr. fram að upphafi nítjándu aldar. Varpað verður ljósi á jafnt þær breytur sem varðað hafa mestu um mótun kínverskrar menningar sem einstaka viðburði í pólítískri og samfélagslegri framvindu þjóðarinnar. Veitt verður yfirlit yfir tilkomu og þróun áhrifamestu kínversku trúarbragða- og heimspekikerfa, einkum konfúsíanisma, daoisma og búddisma. Áhrifamiklir einstaklingar verða kynntir til sögunnar og samskipti og gagnkvæm áhrif erlendra þjóðhópa og Kínverja fá umtalsvert vægi.
Rómverja saga (SAG271G)
Arfur Rómaveldis í vestrænni menningu síðari alda er afgerandi og ristir djúpt. Í þessu námskeiði verður fjallað um sögu Rómaveldis frá upphafi fram til fjórðu aldar, frá stofnun borgarinnar til Konstantínusar mikla. Þetta er stórveldistími Rómar, þar sem hún rís frá því að vera bær í afskekktu héraði til stórborgar sem drottnaði yfir og skóp heim Miðjarðarhafsins. Þetta er ekki einföld saga um ris, hátind og hnignun heldur margbrotin saga umbreytinga og átaka í stjórnmálum og stjórnspeki, menningu og listum, efnahag og verslun, trú og heimsmynd, lífskjörum og félagslegum aðstæðum.
Auk grunnbókar um sögu tímabilsins ― Mary T. Boatwright et al., The Romans: From Village to Empire; A History of Rome from the Earliest Times to the End of the Western Empire, 2. útg. (Oxford: Oxford University Press, 2011) ― verða lesnar frumheimildir eftir Júlíus Sesar, Livíus, Dio Cassius, Svetóníus, Tacitus, Virgil, Óvidíus og fleiri. Sérstaklega verður hugað að heimildagrundvelli sögunnar, bæði ritheimildum og fornleifum, og spurt hvaða möguleika við höfum til þess að túlka og skilja horfinn heim. Skipti hlutur einstakra leikenda höfuðmáli eða flutu þeir á undirstraumi annarra aflavaka sögulegrar þróunar? Horft verður á nýlega leikna heimildaþáttaröð, Roman Empire: Reign of Blood, Master of Rome, The Mad Emperor (Netflix, 2016‒19) og gagnrýninna spurninga spurt um hvernig fortíðin birtist okkur í frásögn.
Námsmat byggir á ritgerð og lokaprófi.
Indversk menning og samfélag II (HIN202G)
Þetta námskeið er fyrir alla sem vilja kynnast indverskri menningu og samfélagi.
Engrar forþekkingar er krafist.
Meginmarkmið námskeiðsins er að kynna félagslega og menningarlega arfleifð Indlands fyrir nemendum. Í ljósi þess hve landið er fjölbreytt verður stiklað á stóru og áhersla lögð á Vedaritin, Upanisjadritin og Itihasa. Einnig munu nemendur kynnast undirliggjandi heimspeki jóga og kirjunar og hvernig það nýtist til sjálfseflingar og vellíðanar. Í þessu námskeiði verður fyrst og fremst stuðst við hljóð- og myndefni og viðfangsefnið verður nálgast á gagnvirkan hátt. Nemendum verður séð fyrir fjölbreyttu lesefni og glósum sem tengjast hverju viðfangsefni sérstaklega.
Viðfangsefni námskeiðsins:
- Vedaritin
- Bhagavad Gita textarnir
- Ramayana textarnir
- Jóga sem tæki til sjálfsþroska og sjálfseflingar
- Máttur þess að kirja
- Andagift og sjálfsefling
Námskeiðið er kennt í 6 vikna lotu á seinni hluta vormisseris, tvisvar í viku, 80 mínútur í senn kl. 16:40 – 18:10.
Trú og töfrar (MAN329G)
Markmið námskeiðsins er að kynna hugmyndir og kenningar í mannfræði um trúarbrögð. Fjallað er sögulega um hugmyndir í mannfræði um þessi efni og hugmyndir og kenningar þær sem fram hafa komið kynntar. Efnislega er í námskeiðinu einkum fjallað um trú, töfra og galdur.
Norræn trú (ÞJÓ437G)
Trúarlíf manna á norðurslóðum er tekið fyrir og heimildir allt frá elstu tímum, eins og grafir, rúnasteinar, hellaristur og aðrar fornminjar verða skoðaðar. Einnig verða lesnar lýsingar á norrænum trúarathöfnum í verkum eftir Tacitus, Adam frá Brimum, Saxo Grammaticus og í fornritum Íslendinga eins og Eddukvæðum og Konungasögum. Auk norrænnar trúar verður fjallað um seið og sjamanisma. Örlagatrú er tekin til ítarlegrar umfjöllunar sem meginþáttur í forkristnum átrúnaði á Norðurlöndum. Loks er vikið að því hvernig kristindómur hefur fallið að norrænum lífsháttum og hugsunarhætti. Námskeiðið er kennt á ensku.
Vinnulag:
Kennsla fer fram í fyrirlestrum, og umræðum um fyrirlestra.
Trúarbragðafræðsla og margbreytileiki (SFG003G)
Viðfangsefni: Á námskeiðinu er fengist við trúarbrögð og trúarbragðafræðslu í fjölmenningarlegu samfélagi. Fjallað verður um trúarþörf og trúarreynslu mannsins, tilvistarspurningar og leit eftir tilgangi og merkingu. Kynnt verða helstu greiningarhugtök, kenningar og rannsóknir á sviði trúarbragðafræði og trúaruppeldisfræði. Rætt verður um gildi trúarbragða fyrir einstaklinga og samfélög og áhrif þeirra á mótun sjálfsmyndar, gildismats og lífsskilnings. Þá verða helstu trúarbrögð heims skoðuð, þ.e. gyðingdómur, kristni, islam, hindúasiður og búddatrú, auk nokkurra annarra trúarbragða. Einnig verður fjallað um trúlaus og trúarlega hlutlaus lífsviðhorf. Þá verður vikið að stöðu trúarbragða og trúarhreyfinga á tímum fjölmenningar og margbreytileika og rætt um fjölhyggju og samskipti einstaklinga og hópa með ólíkan menningarlegan og trúarlegan bakgrunn, umburðarlyndi og fordóma.
Vinnulag: Námskeiðið byggist á stuttum fyrirlestrum, umræðum og verkefnavinnu.
Lífsskoðanir og menntun (SFG201G)
Viðfangsefni: Markmiðið er að þátttakendur verði meðvitaðir um ýmsa þætti sem hafa áhrif á lífsskoðun fólks og verði betur í stakk búnir að kenna samfélagsgreinar. Þrjú sjónarhorn verða til umfjöllunar. Fyrst hið persónulega og einstaklingsbundna, svo hið almenna, samfélagslega og formgerða. Síðan verða ræddir tengifletir hins persónulega og hins almenna við alþjóðlegar samþykktir eins og heimsmarkmið SÞ. Í lokin verður spurt hvernig ofangreind viðfangsefni birtast í uppbyggingu og inntaki skólastarfs, t.d. með hliðsjón af aðalnámskrá.
Í námskeiðsinu verður unnið með meginþætti lífsskoðana sem birtast meðal annars í spurningum um siðferði, trú, samfélagssýn og stjórnarfar, fjölskyldur og persónulegt nærumhverfi fólks, og hvernig réttindi og skyldur móta framtíðarsýn einstaklinga.
Vinnulag: Námskeiðinu er að mestu skipt í tveggja vikna lotur þar sem fengist er við eitt þema í hverri lotu. Fyrirlestrar verða á neti og lesefni verður aðgengilegt á Canvas í skjölum eða á nettenglum. Lokapróf gildir 40%, en verkefni og hlutapróf 60%. Námskeiðið er kennt í vikulegum kennslustundum. Fjarnemum er skylt að mæta í tiltekna tíma samkvæmt kennsluáætlun, enda hafa þeir þar ákveðið hlutverk sem ekki verður sinnt nema með þátttöku í tíma.
Saga Mið-Austurlanda II (MAF203G)
Þetta námskeið tekur upp þráðinn þar sem námskeiðinu Saga-Miðausturlanda I sleppir. Það er þó ekki nauðsynlegur undanfari, hægt er að taka bæði námskeiðin eða annað þeirra. Hér verður farið yfir þróun mála í Mið-Austurlöndum frá ca 1300, uppgang Ottómana og Safavída, og sér í lagi tengsl þeirra við Vesturlönd. Meðal efnis verður nýlendustefna Evrópuríkja í þessum heimshluta og áhrif þeirra á menningu og stjórnmál, uppgangur þjóðernishyggju og tilurð ríkja, og ýmis átök og ágreining sem mótað hefur svæðið allt til dagsins í dag. Námskeiðið er kennt á íslensku en mest af lesefninu verður á ensku.
Biblían sem bókmenntaverk (ABF221G)
Í námskeiðinu verða lesnir valdir textar úr Fimmbókarritinu og öðrum hebreskum fornritum ásamt megninu af Nýja testamentinu. Til samanburðar verða höfð egypsk, mesopótamísk, grísk og latnesk fornaldarrit. Bíblíuritin verða lesin sem fornaldarbókmenntir og heimsbókmenntir en einnig verður litið á viðtökur þeirra í gegnum tíðina, mikilvægi þýðinga fyrir viðtökurnar og ýmsar kenningar bókmenntafræðinga um Biblíuna, s.s. um texta- og túlkunarsamfélög.
Hafðu samband
Skrifstofa Hugvísindasviðs
Aðalbygging, 3.hæð - Sæmundargötu 2
Sími: 525 4400
Netfang: hug@hi.is
Skrifstofan er opin virka daga frá kl 10:00–12:00 og 13:00–15:00.
Nemendur á Hugvísindasviði geta einnig nýtt sér Þjónustuborð á Háskólatorgi. Hægt er að nálgast upplýsingar í netspjalli hér á síðunni.
Fylgstu með Hugvísindasviði:

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.