Skip to main content

Skapandi sjálfbærni á Hallormsstað - Grunndiplóma

Skapandi sjálfbærni á Hallormsstað - Grunndiplóma

Menntavísindasvið

Skapandi sjálfbærni á Hallormsstað

Grunndiplóma – 60 einingar

Nám í Skapandi sjálfbærni á Hallormsstað sameinar fræðilega þekkingu og verklega færni með áherslu á sjálfbærni, nýsköpun og tengingu við samfélag og umhverfi.  Kennsla fer fram á Hallormsstað þar sem saga staðarins og náttúran mynda lifandi vettvang námsins. Í hæglæti skógarins skapast tækifæri, andrými og aðstaða til að rannsaka og rækta eigin sköpunarkraft og koma hugmyndum í framkvæmd.

Kennsla fer fram í staðnámi á Hallormsstað í einstöku námsumhverfi og náttúru Austurlands. Á Hallormsstað eru stúdentagarðar í boði.

Skipulag náms

X

Lifað af landinu (SKS101G)

Námskeiðið gefur nemendum tækifæri til að vinna með auðlindir og hráefni úr íslenskri náttúru með áherslu á sjálfbærni og siðfræði náttúrunýtingar. Nemendur læra hefðir og aðferðir nytjasöfnunar, ásamt ferlinu frá uppruna hráefnis til endurvinnslu eða eyðingar. Kenndar eru viðurkenndar aðferðir í meðhöndlun hráefna, með áherslu á nýsköpun og skapandi hugsun. Nemendur öðlast innsýn í nýtingu staðbundinna hráefna og efnisþekkingu sem gefur ríkari vistkerfisvitund.

Nemendur öðlast einnig innsýn í mismunandi vistkerfi og líffræðilegan fjölbreytileika. Nemendur safna hráefnum úr náttúrunni og vinna þau áfram. Áhersla er lögð á ábyrga nýtingu og verklega færni sem stuðlar að sjálfbærni og seiglu samfélaga, með samfélag og lífríki að leiðarljósi.

Námskeiðið er kennt í staðnámi á Hallormsstað á Austurlandi.

Kennslan fer fram í formi fyrirlestra, vettvangsferða, verklegrar vinnu og umræðu. Nemendur munu fá tækifæri til að taka þátt í nytjasöfnun og varðveislu hráefna úr náttúrunni.

X

Skapandi sjálfbærni (SKS102G)

Námskeiðið miðar að því að veita nemendum skilning á hugtökunum sjálfbærni og sköpun, bæði í fræðilegu og verklegu samhengi. Fjallað er um umhverfis- og samfélagsleg vandamál og vistkerfi jarðar. Unnið er út frá hugmyndafræði sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda og hráefna, þar sem lögð er áhersla á skapandi greinar og nýsköpun sem mikilvæga þætti í sjálfbærri þróun.

Áhersla er á þverfræðilega nálgun þar sem sýn og aðferðir úr ólíkum greinum eru samþætt. Nemendur þróa færni í skapandi lausnaleit til að takast á við hnattrænar og staðbundnar áskoranir með sjálfstæðum og rannsakandi vinnubrögðum. Nemendur vinna að sjálfbærum lausnum með staðbundnum hráefnum í raunverulegum aðstæðum. Verkefnavinna og skapandi lausnaleit eru lykilþættir námskeiðsins.

Námskeiðið er kennt í staðnámi á Hallormsstað á Austurlandi.

Kennslan fer fram í formi fyrirlestra, vettvangsferða, verklegrar vinnu og umræðu.

X

Sjálfbært samfélag (SKS103G)

Námskeiðið fjallar um þróun sjálfbærra samfélaga með áherslu á félagslega arfleifð, menningararf, handverk og samfélagslega nýsköpun. Nemendur fá innsýn í hvernig sjálfbærni tengist byggðaþróun, búsetu og framtíðarsýn samfélaga, ásamt því að skoða hvernig fortíð og menningararfur móta sjálfbærnileiðir nútímans.

Nemendur læra að nálgast menningararfinn með skapandi og gagnrýnni hugsun ásamt því að nálgast nýsköpun með lærdóm fyrri kynslóða í farteskinu. Þau kynnast helstu aðferðum og tækni í margskonar handverki og lögð er rík áhersla á að hlúa að óáþreifanlegum menningararfi og miðlun þekkingar milli kynslóða.

Nemendur kynnast einnig hefðbundum aðferðum fyrri kynslóða m.a. í meðferð og fullvinnslu hráefna, mismunandi verkunar og geymsluaðferða og nýtingarmöguleikum vannýttra hráefna. Nemendur kynnast jafnframt skapandi uppfinningum alþýðufólks fyrri tíma sem þurfti að bjarga sér með það sem hendi var næst. Í námskeiðinu verður lögð áhersla á aðferðir sem geta stuðlað að blómlegu og sjálfbæru samfélagi í jafnvægi við náttúru og mannvirki.

Námskeiðið er kennt í staðnámi á Hallormsstað á Austurlandi.

Kennslan fer fram í formi fyrirlestra, vettvangsferða, verklegrar vinnu og umræðu og nemendur fá tækifæri til læra verklegar aðferðir handverks.

X

Lausnamiðuð sjálfbærni (SKS201G)

Námskeiðið fjallar um þróun samfélaga og hagkerfa í átt að sjálfbærni með lausnamiðuðum nálgunum við áskoranir samtímans. Nemendur öðlast skilning á efnahagslegum, félagslegum og umhverfislegum hugtökum sjálfbærni, og hvernig alþjóðasamningar, lög og reglugerðir hafa áhrif á þessi svið. Lausnamiðuð sjálfbærni felur í sér bæði greiningu á vandamálum og þróun hagnýtra lausna.

Nemendur læra að nýta skapandi og gagnrýna hugsun með sjálfstæðri verkefnavinnu. Markmið námskeiðsins er að valdefla nemendur til að taka virkan þátt í sjálfbærri þróun með því að beita lausnamiðaðri nálgun. Áhersla er lögð á inngildingu, jafnrétti og réttlæti, þar sem nemendur vinna að þróun hagnýtra verkefna og verklegra lausna sem stuðla að sjálfbærri framtíð. Nemendur fá tækifæri til að móta eigin framtíðarsýn og þjálfa hæfni til að miðla lausnum í fjölbreyttum aðstæðum.

Námskeiðið er kennt í staðnámi á Hallormsstað á Austurlandi.

Kennslan fer fram í formi fyrirlestra, vettvangsferða, verklegrar vinnu og umræðu. Nemendur munu fá tækifæri til að læra verklegar aðferðir við þróun sjálfbærra lausna.

X

Skapandi ferli og nýting auðlinda (SKS202G)

Með viðurkenndum vinnsluaðferðum og fræðilegri umfjöllun læra nemendur aðferðir við meðhöndlun og nýtingu fjölbreyttra auðlinda og hráefna á sjálfbæran og nýskapandi hátt. Áhersla er lögð á skapandi greinar og nýsköpun, þar sem nemendur tengja þekkingu sína við nánasta umhverfi og hnattrænar áskoranir. Sérfræðingar úr ýmsum greinum styðja við fræðilegan grunn námskeiðsins og veita faglega innsýn.

Nemendur vinna undir handleiðslu sérfræðinga, þróa eigin verklegar lausnir og dýpka skilning sinn á skapandi ferlum. Lögð er áhersla á fjölbreytt verklag og miðlun niðurstaðna til að tryggja áframhaldandi þekkingarflæði og nýsköpun.

Námskeiðið er kennt í staðnámi á Hallormsstað á Austurlandi.

Kennslan fer fram í formi fyrirlestra, vettvangsferða, verklegrar vinnu og umræðu. Nemendur munu fá tækifæri til að læra viðurkenndar vinnsluaðferðir við vinnslu hráefna.

X

Arftakar framtíðar (SKS203G)

Markmið námskeiðsins er að gera nemendur að virkum þátttakendum í mótun sjálfbærrar framtíðar. Nemendur öðlast færni í að skapa lausnir við samfélagslegum, umhverfislegum og efnahagslegum áskorunum og verða arftakar framtíðarinnar. Nemendur læra að tengja saman skapandi sjálfbærni, samfélagsábyrgð og miðlun.

Nemendur vinna að verklegum lausnum sem krefjast nýsköpunar og skapandi hugsunar. Lögð er áhersla á skapandi hugsun, sjálfstæð vinnubrögð, þróun leiðtogahæfni og mótun eigin framtíðarsýnar til dæmis með nálgun kerfisbundinna framtíðarfræða og nýtingu sviðsmynda.

Námskeiðið er kennt í staðnámi á Hallormsstað á Austurlandi.

Með valdeflandi nálgun öðlast nemendur hæfni til að miðla þekkingu sinni og verða leiðandi í mótun sjálfbærrar framtíðar. Kennslan fer fram í formi fyrirlestra, vettvangsferða, verklegrar vinnu og umræðu.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hafðu samband

Kennsluskrifstofa Menntavísindasviðs
1. hæð, Stakkahlíð – Enni
Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga
Sími 525 5950
mvs@hi.is

Upplýsingar um aðstöðu á Hallormsstað

""

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.