Sjálfbær ferðamennska á norðurslóðum: Möguleikar þjóðgarða og friðlýstra svæða til framþróunar byggðar á jaðarsvæðum. (e. Northern Environment for Sustainable Tourism - NEST)
Samstarfsaðilar:
Ísland:
- Háskólasetrið á Hornafirði (verkefnisstjórn); Rannsóknastofnun HÍ
- Sveitarfélagið Hornafjörður
- Sveitarfélagið Skaftárhreppur
- Þróunarfélag Austurlands
- Atvinnuþróunarfélag Suðurlands
- Umhverfisstofnun
Finnland:
- Finnish Forest Research Institute
- Joensuu Research Center (METLA)
Svíþjóð:
- County administration of Västernorrland
- National Agency of Natureprotection
- Kramfors Commune
- Örnsköldsviks Commune
- Ekoturistföreningen
Skotland:
- The Highland Council
- Scottish Natural Heritage
- Ross and Cromarty Enterprise
Styrktaraðilar:
- Norðurslóðaáætlun ESB
- Byggðastofnun
Vernduð svæði, hvort sem þau eru þjóðgarðar, svæði á Heimsminjaskrá eða landsvæði friðuð af ríkisstjórnum eða alþjóðlegum samningum, skapa sérstök tækifæri til þróunar og stýringar á ferðaþjónustu. Náttúrlegar og menningarlegar auðlindir þeirra eru stórbrotnar og sem slíkar bjóða upp á einstakar aðstæður til eflingar ferðaþjónustu, en samtímis útheimta þær sérstaka vernd og varkárni í öllum ákvörðunum. Verndun lands er í margra augum neikvæð fyrir byggðaþróun dreifbýlis, en þeim fjölgar stöðugt sem líta á hana sem tækifæri og hvata til sjálfbærrar byggðaþróunar.
Síðastliðið ár hefur Háskólasetrið á Hornafirði þróað samvinnuverkefni á milli Íslands, Finnlands, Svíþjóðar og Skotlands sem ætlað er að leiða saman atvinnusköpun á jaðarsvæðum Norðurslóða og rannsóknir á sjálfbærri ferðamennsku. Verkefnið hófst með forverkefnisstyrk innan Interreg IIIB Norðurslóðaáætlunar (NPP) Evrópusambandsins. Forverkefnið beindi sjónum að þróun og greiningu vannýttra tækifæra í ferðaþjónustu er tengdist þjóðgörðum á Norðurslóðum, ásamt þörfinni á því að meta áhrif ferðamennsku á náttúruauðlindir. Forverkefnið leiddi til umsóknar þriggja ára verkefnis, sem samþykkt var innan NPP undir lok árs 2004. Verkefnið hefur fengið heitið NEST (Northern Environment of Sustainable Tourism)
Meginmarkmið NEST/NPP er að nýta til framþróunar þau tækifæri sem felast í búsetu nálægt þjóðgörðum og öðrum verndarsvæðum, með því að efla og stjórna ferðamennsku sem samræmist skilyrðum um sjálfbæra þróun til framtíðar. Verkefnið mun leitast við að fá fólk til þess að koma saman, til þess að starfa saman og til þess að læra hvert af öðru að nýta auðlindir náttúru og menningar á sjálfbæran hátt. Verkefnið mun jafnframt leitast við að svara því hvernig unnt sé að auka þekkingu fólks á mikilvægi náttúruverndar og sjálfbærri þróun. Ennfremur, hvernig náttúruvernd og byggðaþróun jaðarsvæða geti farið saman og skapað svæðunum aukin verðmæti. Til að uppfylla betur markmið verkefnisins er vinnunni skipt upp í fjögur áhersluþemu:
- tengslanet;
- ný viðskiptatækifæri;
- sjálbær ferðaþjónusta og markaðssetning gæða;
- náttúruskóli.
Styrkur verkefnisins felst meðal annars í því að unnið verður samhliða í þessum fjórum áhersluþemum, samtímis í öllum þátttökulöndunum. Hvert þátttökuland hefur, hins vegar, umsjón og ábyrgð með einu þema og sér um að halda opinn fjölþjóðlegan vinnufund tengdu því. Vinnufundirnir eru mikilvægur grundvöllur til að ræða og meta mismunandi áherslur og úrlausnir allra þátttakenda.
Íslenskir þátttakendur í NEST verkefninu eru, auk Háskólasetursins á Hornafirði, Sveitarfélögin Skaftárhreppur og Hornafjörður, Þróunarfélag Austurlands, Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands og Skaftafellsþjóðgarður. Í samræmi við verkefnisheiti þátttökulandanna hefur íslenska verkefnið fengið heitið NEST/Tourism@Vatnajökull. Forsendur til uppbyggingar ferðaþjónustu innan þátttökusvæðanna tveggja hafa gjörbreyst með tilkomu stækkaðs Skaftafellsþjóðgarðs, en verkefnið leggur grunn að sameiginlegr uppbyggingu svæðisins sem einnar heildar. Yfirstjórn verkefnisins er í höndum fjölþjóðlegs stýrihóps, en ábyrgð á heildarframkvæmd verkefnisins er í umsjá Háskóla Íslands.