„Konur eru margfalt líklegri en karlar, sem stunda sömu íþrótt í sama mæli, til að slíta fremra krossband í hné, t.d. við lendingu úr stökki eða snögga stefnubreytingu. Þessi alvarlegu meiðsli hafa oftast miklar afleiðingar en meðal áhættuþátta sem hugsanlega má hafa áhrif á er það hvernig íþróttafólk beitir sér, t.d. við gabbhreyfingar og lendingu eftir stökk,“ segir Kristín Briem, dósent í sjúkraþjálfun.
Kristín Briem
„Konur eru margfalt líklegri en karlar, sem stunda sömu íþrótt í sama mæli, til að slíta fremra krossband í hné, t.d. við lendingu úr stökki eða snögga stefnubreytingu.“

Kristín vinnur ásamt meistaranemum sínum að rannsókn þar sem hreyfimynstur og vöðvavirkni hjá krökkum í íþróttum, fyrir og eftir kynþroska, er í forgrunni. „Sem sjúkraþjálfari hef ég augljóslega áhuga á stoðkerfinu, afleiðingum meiðsla og fyrirbyggjandi aðgerðum. Þeir sem slíta fremra krossband fá undantekningarlítið slitgigt í hné mjög snemma. Það hefur mikil og margvísleg neikvæð áhrif á lífsgæði fólks til lengri tíma og er afskaplega kostnaðarsamt fyrir heilbrigðiskerfið. Rannsóknir mínar snúast um áhrif sértækrar þjálfunar eða meðferðar til að koma í veg fyrir hnémeiðsli og hvernig bæta megi árangur endurhæfingar eftir áverka í því augnamiði að hægja á framgangi slitgigtar,“ segir Kristín.
Hún bendir á að rannsóknir sýni að konur og karlar beita sér ekki eins hvað hreyfimynstur og vöðvavirkni varðar. „Minna er vitað um krakka fyrir kynþroska og hvort hægt er að hafa áhrif á þessa þætti með sértækri þjálfun. Langtímamarkmið rannsóknarinnar er að fylgja þeim krökkum eftir sem verið er að mæla núna fram yfir kynþroska
og meta áhrif þjálfunar hjá stúlkum,“ útskýrir Kristín en í rannsókninni einbeita rannsakendur sér að hreyfingum og vægi um ökkla-, hné- og mjaðmarliði, ásamt virkni lykilvöðva fyrir og eftir snarpa æfingu sem er ætlað að valda vöðvaþreytu.
Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar líta dagsins ljós í lokaverkefnum meistaranemanna vorið 2014. „Niðurstöðurnar munu auka skilning okkar á því hvort stelpur byrja snemma að beita sér þannig í íþróttum að þær eigi frekar á hættu að slíta fremra krossband. Með eftirfylgninni fæst einnig mikilvæg þekking á því hvort þjálfun hefur áhrif á þekkta áhættuþætti og þá hvernig,“ segir Kristín.