Skip to main content
28. maí 2015

Kennaraskiptasamningur milli HÍ, HA og Slóvakíu

""

Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og Háskólinn á Akureyri hafa gert kennaraskiptasamning við Alþjóðasamskiptadeild Háskólans í Bratislava í Slóvakíu. Markmið samningsins er að auka gæði kennslu á sviði smáríkjafræða og er samningurinn styrktur af styrktarsjóði EES og af Slóvakíu undir samstarfsáætluninni EEA Scholarship Programme Slovakia.

Markmið og tímasetningar

Markmið kennaraskiptasamningsins er að ýta undir flæði þekkingar og reynslu milli Slóvakíu og Íslands á sviði smáríkjafræða með áherslu á alþjóðahagkerfið, alþjóðastjórnmál og alþjóðalög. Færustu sérfræðingar á þessum sviðum munu fara á milli landanna tveggja til að ná þessum markmiðum.

Með samningnum er komið til móts við bæði sérfræðinga og nemendur. Sérfræðingar munu njóta góðs af auknum samskiptum við sérfræðinga á ólíkum sviðum smáríkjafræðanna og nemendur munu nemendur njóta góðs af kennslu ólíkra sérfræðinga og kynnast ólíkum hefðum innan sviðsins.

Kennaraskiptasamningurinn tók gildi í apríl 2015 og rennur hann út í ágúst 2016. Á þessum tíma munu 12 sérfræðingar koma til Íslands frá Slóvakíu og sami fjöldi sérfræðinga mun fara frá Íslandi til Slóvakíu. Það er von allra að kennaraskiptin muni leiða til samvinnu stofnana og einstaklinga til lengri tíma, m.a. við rannsóknir og þátttöku í ráðstefnum.

Nánari upplýsingar um samninginn má finna hér.