Skip to main content
9. febrúar 2015

Sex nýir prófessorar við Hugvísindasvið

Sex fræðimenn fengu framgang í starf prófessors við Hugvísindasvið Háskóla Íslands á liðnu ári. Efnt var til samkomu þeim til heiðurs í Hátíðasal Aðalbyggingar háskólans síðastliðinn föstudag þar sem prófessorarnir kynntu sérsvið sín og viðfangsefni.

Prófessorarnir sex eru:

• Auður Hauksdóttir er prófessor í dönsku við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda. Hún er með doktorsgráðu í dönsku frá Kaupmannahafnarháskóla og hefur starfað við Háskóla Íslands frá 1998. Hún hefur um árabil verið forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.
• Gunnþórunn Guðmundsdóttir er prófessor í almennri bókmenntafræði við Íslensku- og menningardeild. Hún er með doktorsgráðu í samanburðarbókmenntum frá University of London og kenndi einnig  þar um skeið. Hún hefur starfað við Háskóla Íslands frá 2004.
• Jón Ólafsson er prófessor í rússneskum fræðum við Deild erlendra tungumála (50%) og í menningarfræði  við Íslensku- og menningardeild (50%). Hann var áður í starfi prófessors við Háskólann á Bifröst og um hríð aðstoðarrektor þar. Hann er með doktorsgráðu í heimspeki frá Columbia-háskóla í New York og lauk einnig gráðu í rússneskum fræðum við sama skóla.
• Sólveig Anna Bóasdóttir er prófessor í guðfræðilegri siðfræði við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild. Hún er með doktorsgráðu í guðfræðilegri siðfræði frá Uppsala-háskóla og gegndi lektorsstarfi við þann skóla. Hún hefur verið lektor og síðar dósent við Háskóla Íslands frá árinu 2008.
• Sverrir Jakobsson er prófessor í miðaldasögu við Sagnfræði- og heimspekideild. Hann lauk meistaraprófí í miðaldafræði við Leeds-háskóla og doktorsprófi frá Háskóla Íslands. Hann hefur starfað sem aðjunkt í sagnfræði og síðar lektor frá árinu 2010.
• Þórhallur Eyþórsson er prófessor í málvísindum við enskunámsbraut Deildar erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda. Hann er með doktorsgráðu í málvísindum frá Cornell-háskóla og starfaði við þann skóla, Harvard-háskóla og Manchester-háskóla áður en hann hóf störf sem sérfræðingur við Háskóla Íslands árið 2005.

Þórhallur Eyþórsson, Sólveig Anna Bóasdóttir, Auður Hauksdóttir, Sverri Jakobsson, Gunnþórunn Guðmundsdóttir og Jón Ólafsson.
Þórhallur Eyþórsson, Sólveig Anna Bóasdóttir, Auður Hauksdóttir, Sverri Jakobsson, Gunnþórunn Guðmundsdóttir og Jón Ólafsson.