04/2014
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2014, fimmtudaginn 10. apríl var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.
Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Rut Kristjánsdóttir, Börkur Hansen, Ebba Þóra Hvannberg, Jakob Ó. Sigurðsson, Margrét Hallgrímsdóttir, María Rut Kristinsdóttir, Stefán Pálsson (varamaður fyrir Guðrúnu Hallgrímsdóttur), Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Þorfinnur Skúlason. Fundinn sátu einnig Elín Blöndal, Jón Atli Benediktsson og Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð.
Kristinn Andersen, sem verið hefur fulltrúi atvinnu- og þjóðlífs, skipaður af háskólaráði sjálfu, kom inn á fundinn og greindi frá því að hann hafi tekið við starfi prófessors við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild við Verkfræði- og náttúruvísindasvið og myndi því víkja úr ráðinu frá og með þessum fundi. Rektor og fulltrúar í háskólaráði þökkuðu Kristni fyrir gott og ánægjulegt samstarf.
Áður en gengið var til dagskrár greindi rektor frá því að engar athugasemdir hefðu borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Jafnframt spurði rektor hvort einhver ráðsmaður teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá. Þorfinnur Skúlason og Anna Rut Kristjánsdóttir lýstu sig vanhæf til að taka þátt í meðferð dagskrárliðar 5. Engar athugasemdir voru gerðar við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.
1. Mál á döfinni í Háskóla Íslands.
Rektor gerði grein fyrir nokkrum málum og viðburðum frá síðasta fundi háskólaráðs og framundan.
a) Fimmtudaginn 20. mars sl. var haldinn ársfundur Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands að viðstöddum mennta- og menningarmálaráðherra.
b) Fimmtudaginn 3. apríl sl. var afhjúpaður á Háskólatorgi að viðstöddu fjölmenni nýr rafknúinn kappakstursbíll sem verkfræðinemar við Háskóla Íslands og nemar Listaháskóla Íslands hafa hannað undir heitinu „Team SPARK“.
c) Sama dag var haldið í Hannesarholti málþing ráðgjafarnefndar Gæðaráðs háskóla um gildi og gagnsemi gæðamats í háskólastarfi. Ráðagjafarnefndin er samráðsvettvangur háskólanna um gæðamál og tengiliður á milli ráðsins og skólanna.
d) Skjalasafn Háskóla Íslands hefur tekið saman ítarlegt yfirlit yfir þær fjölmörgu gjafir sem háskólanum hafa borist frá stofnun skólans 1911. Fyrr í þessari viku hélt rektor fund um málið með fv. rektorum þar sem m.a. var rætt um leiðir til að sýna velgjörðarmönnum Háskóla Íslands tilheyrilega virðingu.
e) Rektor greindi frá því að hún hefur að ósk stjórnvalda í Lúxemborg tekið sæti í háskólaráði Háskólans í Lúxemborg. Skipunartíminn er fimm ár.
2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur og áætlun.
Inn á fundinn komu þau Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.
a) Staða viðræðna um miðlæga kjarasamninga. Mögulegt verkfall Félags háskólakennara 25. apríl til 10. maí nk.
Guðmundur R. Jónsson gerði grein fyrir stöðu mála varðandi viðræður um kjaramál á milli Félags háskólakennara og stjórnvalda, en fyrir liggur að félagið hefur boðað verkfall á próftímabili 25. apríl til 10. maí. Málið var rætt og svaraði Guðmundur spurningum ráðsmanna. Fulltrúar stúdenta gerðu grein fyrir sjónarmiðum sínum til málsins og lýstu áhyggjum vegna þeirra miklu röskunar sem verkfall myndi hafa á líf og starf stúdenta. Rektor þakkaði stúdentum fyrir framlag þeirra og stuðning við málið.
b) Kjör og starfsskilyrði við Háskóla Íslands, sbr. síðasta fund. Staða mála.
Guðmundur gerði grein fyrir stöðu mála varðandi vinnu á vegum framkvæmda- og tæknisviðs við öflun upplýsinga um kjör og starfsskilyrði í öðrum innlendum og erlendum stofnunum og háskólum.
c) Fjárhagsáætlun fyrir MBA-nám í Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands 2014-2016.
Fyrir fundinum lá minnisblað um fjárhagsleg málefni MBA-náms í Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Guðmundur gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
– Framlögð tillaga um að námsgjald fyrir MBA-nám tímabilið 2014-2016 verði 3.200.000 kr. samþykkt einróma.
3. Málefni Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs. Rektor gerði grein fyrir stöðu mála varðandi mögulega sameiningu Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Málið var rætt og samþykkti háskólaráð einróma svohljóðandi ályktun:
„Háskólaráð Háskóla Íslands telur mikilvægt að mörkuð sé stefna um ábyrgð og hlutverk Íslendinga í fæðuframleiðslu, nýtingu lands, sjávar, vatns og annarra auðlinda. Mikilvægt er að slík stefna byggi á rannsóknum, nýsköpun og sjálfbærni. Samkvæmt spá Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) er gert ráð fyrir að á næstu 35 árum þurfi að auka matvælaframleiðslu í heiminum um 70% til að sjá farborða vaxandi fjölda fólks og koma til móts við breyttar neysluvenjur. Háskóli Íslands leggur áherslu á að vísindastarfsemi á sviðum lífvísinda, búvísinda, matvæla- og næringarfræði, matvælaverkfræði, auðlindahagfræði, sjávarrannsókna, umhverfisfræði og landnýtingar verði efld til að skapa grundvöll fyrir sókn. Háskólaráð telur að fjármagn sem varið er til þessara málaflokka sé þjóðhagslega mjög arðbær fjárfesting, og mikilvægt að veita dreifðum kröftum í einn farveg. Háskólaráð hvetur því alla sem kjósa uppbyggingu og sókn til framfara til að skoða áfram með opnum huga þau tækifæri sem kynnu að skapast með sameiningu Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands.
Verði ákvörðun tekin um sameiningu háskólanna er háskólaráð Háskóla Íslands reiðubúið að vinna að því að ofangreind markmið nái fram að ganga á núverandi starfsstöðvum háskólanna, í samræmi við bókun ráðsins frá 7. nóvember 2013.“
Margrét Hallgrímsdóttir þurfti að víkja af fundi.
4. Málefni Tæknigarðs Háskóla Íslands.
Fyrir fundinum lá minniblað um málefni Tæknigarðs Háskóla Íslands. Inn á fundinn kom Ólöf Vigdís Ragnarsdóttir, lögfræðingur vísinda- og nýsköpunarsviðs, og gerði ásamt Jóni Atla Benediktssyni grein fyrir málinu.
– Framlögð tillaga um breytingar á eignarhaldi í Tæknigarði og yfirfærslu eignarhlutar Reykjavíkurborgar í Tæknigarði til Vísindagarða Háskóla Íslands samþykkt einróma.
5. Athugasemdir vegna úthlutunar styrkja til doktorsnáms. Frestað á síðasta fundi.
Fyrir fundinum lá minnisblað til háskólaráðs um athugasemdir frá tveimur umsækjendum um styrk vegna doktorsnáms við Háskóla Íslands, þeim Lindu Sólveigar Guðmundsdóttur og Bergljótu S. Kristjánsdóttur. Jón Atli Benediktsson gerðu grein fyrir málinu og svaraði ásamt Elínu Blöndal spurningum ráðsmanna.
– Framlögð tillaga um staðfestingu á afgreiðslu vísindanefndar háskólaráðs á máli Lindu Sólveigar Guðmundsdóttur annars vegar og Bergljótar S. Kristjánsdóttur hins vegar samþykkt samhljóða.
Jafnframt var samþykkt að farið verði heildstætt yfir þær reglur sem gilda um úthlutun doktorsstyrkja og framkvæmd mats við útfærslu þeirra. Málið verði lagt fyrir háskólaráð í upphafi næsta háskólaárs.
Þorfinnur Skúlason og Anna Rut Kristjánsdóttir véku af fundi undir dagskrárlið 5.
6. Kynning á samstarfsstofnunum Háskóla Íslands: Landspítali - háskólasjúkrahús.
Inn á fundinn kom Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, og gerði grein fyrir áherslumálum í starfsemi spítalans og samstarfi hans við Háskóla Íslands. Málið var rætt og svaraði Páll spurningum ráðsmanna. Í framsögu Páls og umræðum var m.a. vikið að málefnum nemenda heilbrigðisvísindagreina, vísindasamstarfi háskólans og spítalans, fyrirhugaðri byggingu nýs spítala og húsnæðis fyrir heilbrigðisvísindagreinar háskólans og stofnun nýs stuðningsfélags undir nafninu „Spítalinn okkar – landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala“ sem fram fór í gær.
7. Bókfærð mál.
a) Endurskoðaðar verklagsreglur um góða starfshætti við kennslu og próf í Háskóla Íslands.
– Samþykkt.
b) Tillaga Verkfræði- og náttúruvísindasviðs um breytingu á reglum [varðar heiti doktorsnáms].
– Samþykkt.
8. Mál til fróðleiks.
a) Dagskrá 12. háskólaþings 11. apríl 2014.
b) Ársskýrsla hugverkanefndar Háskóla Íslands og Landspítala - háskólasjúkrahúss 2013.
c) Ársskýrsla Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands 2013.
d) Ársskýrsla RHnets 2013.
e) Ársskýrsla Háskólasjóðs hf. Eimskipafélags Íslands 2013.
f) Fréttabréf Félagsvísindasviðs, mars 2014.
g) Fréttabréf Heilbrigðisvísindasviðs, mars 2014.
h) Tilkynning vegna mögulegs verkfalls.
9. Önnur mál. Viðræður við stjórnvöld um framlög til Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands á tímabilinu 2015-2020.
Börkur Hansen, varaforseti háskólaráðs, bar upp tillögu um að rektor verði falið að leiða viðræður Háskóla Íslands við stjórnvöld og Alþingi um framlög til Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands á tímabilinu 2015-2020, en í samningi um Aldarafmælissjóð er kveðið á um stefnumótun um fjármögnun Háskóla Íslands til framtíðar þannig að hún verði sambærileg við fjármögnun háskóla í OECD ríkjum og á Norðurlöndum.
– Samþykkt einróma.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.30.