Stefna Háskóla Íslands um opinn aðgang að rannsóknaniðurstöðum og lokaverkefnum ásamt verklagsreglum. Rætt á 10. háskólaþingi 19. apríl 2013 og samþykkt í háskólaráði 6. febrúar 2014. Háskóli Íslands leggur áherslu á að sem flestir geti notið afurða þess vísindastarfs sem unnið er innan háskólans. Háskólinn hvetur því starfsmenn til að birta fræðigreinar sínar á vettvangi þar sem aðgangur er opinn, svo sem í tímaritum í opnum aðgangi, safnvistun, forprentagrunnum, eða á annan hátt. Stefna Háskóla Íslands um opinn aðgang tekur ekki til bóka eða bókarkafla. Starfsmenn skulu veita vísinda- og nýsköpunarsviði án endurgjalds rafrænan aðgang að lokaútgáfu vísindagreina sinna ekki seinna en við birtingu. Þetta má gera með því að afhenda greinarnar á viðeigandi formi (svo sem PDF), senda krækju á veffang opins aðgangs að greinunum, eða á annan viðeigandi hátt. Háskóla Íslands er heimilt að vista greinarnar og gera þær aðgengilegar í opnu rafrænu varðveislusafni. Gildir þetta um allar vísindagreinar ritaðar af starfsmönnum háskólans, einum eða með fleiri höfundum, á þeim tíma sem þeir eru ráðnir við háskólann. Undanskildar eru vísindagreinar sem lokið var við fyrir gildistöku þessarar samþykktar og greinar sem vinna var hafin við fyrir gildistökuna og um gilda skilmálar sem ekki falla að samþykktinni. Vísinda- og nýsköpunarsviði er jafnframt heimilt að undanskilja einstakar vísindagreinar frá samþykktinni, eða seinka birtingu þeirra um tiltekinn tíma, beri viðkomandi starfsmaður fram rökstudda skriflega ósk þess efnis, sbr. verklagsreglur þar um. Afrakstur vísindastarfs innan Háskóla Íslands kemur einnig fram í lokaverkefnum stúdenta, bæði í grunn- og framhaldsnámi. Skólinn leggur áherslu á að þessi verkefni séu gerð öllum aðgengileg eftir því sem kostur er. Um rafræn skil lokaritgerða gildir samþykkt háskólaráðs frá 21. febrúar 2008 og viðeigandi ákvæði í reglum Háskóla Íslands. Vísinda- og nýsköpunarsvið ber ábyrgð á túlkun stefnu og verklagsreglna um birtingar í opnum aðgangi, lausn ágreiningsmála og gerir tillögu um endurbætur þegar við á. Kennslusvið ber ábyrgð á túlkun og lausn ágreiningsmála þegar um lokaverkefni stúdenta er að ræða. Stefna þessi og viðeigandi verklagsreglur verða endurskoðuð innan þriggja ára og greinargerð um framkvæmdina kynnt fyrir háskólaráði. Verklagsreglur um birtingar vísindagreina í opnum aðgangi Háskóli Íslands hvetur starfsmenn sína til að birta vísindagreinar sínar í tímaritum sem gefin eru út á vettvangi sem veitir opinn aðgang að greinunum. Háskóli Íslands tekur ekki með beinum hætti þátt í mögulegum kostnaði við birtingar í opnum aðgangi. Akademískum starfsmönnum háskólans er þó eftir atvikum heimilt að nýta rannsóknafé sitt til að greiða þennan kostnað. Eigi síðar en við birtingu skal höfundur vísindagreinar senda vísinda- og nýsköpunarsviði rafrænt afrit af lokagerð greinarinnar. Rafrænt afrit getur verið á PDF formi, með krækju eða öðrum viðeigandi hætti. Háskóla Íslands er heimilt að gera greinarnar aðgengilegar á netinu, sjá þó 4. gr. Höfundur getur óskað eftir að tiltekin tímaritsgrein verði undanskilin ákvæðum 3. gr. þegar sýnt þykir að ekki sé unnt að birta efni greinarinnar á vettvangi með opnum aðgangi. Slík undanþága getur verið ótímabundin eða falið í sér seinkun birtingar í opnum aðgangi. Eftirtalin sjónarmið eru m.a. lögð til grundvallar við mat á undanþágubeiðnum Vísindaleg gæði tímarits. Höfundi stendur til boða að birta vísindagrein í virtu hefðbundnu áskriftartímariti með háan áhrifastuðul (e. impact factor). Það er grundvallar stefnumið Háskóla Íslands að fjölga gæðabirtingum á öllum fræðasviðum háskólans. Í stefnu Háskóla Íslands er lögð rík áhersla á að akademískir starfsmenn velji birtingarvettvang sem gerir strangar fræðilegar kröfur og er líklegur til að auka vísindaleg áhrif rannsóknastarfs skólans. Áhersla á birtingu greina í opnum aðgangi má ekki verða til þess að draga úr áhrifum rannsóknastarfs Háskóla Íslands á innlendum og alþjóðlegum vettvangi. Höfundar sem birta grein í áskriftartímariti með háum áhrifastuðli skulu ef unnt er jafnframt birta greinina í opnu rafrænu varðveislusafni. Birtingarvettvangur ákveðinn af öðrum. Höfundur þarf að lúta ákvörðun annarra, t.d. stjórnanda rannsóknar eða meðhöfunda, svo sem við erlenda samstarfsháskóla eða rannsóknastofnanir. Kostnaður. Kostnaður höfundar er talinn óhóflegur eða ekki í samræmi við það sem eðlilegt má teljast. Óskum um undanþágur sbr. 4. gr. skal beina til vísinda- og nýsköpunarsviðs í gegnum heimasíðu sviðsins. Verklagsreglur þessar byggjast á stefnu Háskóla Íslands um opinn aðgang að rannsóknaniðurstöðum og lokaverkefnum, sem samþykkt var í háskólaráði 6. febrúar 2014. Vísinda- og nýsköpunarsvið og kennslusvið annast lausn ágreiningsmála sem rísa kunna í tengslum við framkvæmd reglna þessara. Reglurnar taka gildi 1. júlí 2014. [Framkvæmd stefnunnar frestað til 1. september 2015] Stefna H26 og opinn aðgangur Í stefnu HÍ til ársins 2026 (HÍ26) kemur fram að Háskólinn skuli móta sér skýra sýn sem styður við þverfræðilegt starf og aukin áhrif rannsókna. Jafnframt verður mótuð heildstæð sýn um siðferði vísinda og rannsóknir innan skólans gerðar sýnilegri með það fyrir augum að styðja þverfaglegt rannsóknasamstarf. Til að ná þessum markmiðum verður unnið að opnum aðgangi að rannsóknagögnum og niðurstöðum. Háskóli Íslands er og vill vera virkur þátttakandi í alþjóðlegu rannsóknasamstarfi. Vísindafólk sem starfar við Háskólann birtir verk sín á alþjóðlegum vettvangi og fylgir þeim reglum sem gilda um birtingar á vísindalegu efni, sem og kröfum sem fræðasamfélagið og Háskólinn gera um áreiðanleika og heiðarleg vinnubrögð. Gögn sem aflað hefur verið í rannsóknastarfi Háskóla Íslands eru mikilvægur grunnur að þekkingarsköpun sem leiðir til framþróunar á öllum sviðum íslensks samfélags. Háskóli Íslands telur brýnt að vísindasamfélagið hafi eins greiðan aðgang að þessum gögnum og unnt er. Meginreglan er að gögn verði eins opin og mögulegt er, en eins lokuð og nauðsyn krefur. Háskólinn ber ríka ábyrgð á að varðveita rannsóknagögn til framtíðar og haga varðveislu þeirra þannig að þau standist alþjóðlegar kröfur og uppfylli FAIR skilyrði, það er að þau séu: finnanleg aðgengileg samkeyranleg og endurnýtanleg Háskólinn tekur jafnframt tillit til þess að venjur um meðhöndlun gagna og hvernig þeim er deilt eru mismunandi eftir viðfangsefnum og aðstæðum. Þannig geta persónuverndarmál eða viðskiptahagsmunir réttlætt undantekningar til lengri eða skemmri tíma frá meginreglunni um opin gögn. Markmiðum um opin vísindi verður því aðeins náð að starfsfólk Háskóla Íslands hafi aðgang að traustum innviðum fyrir varðveislu gagna og aðstoð við gerð lýsigagna þannig að tryggja megi að gögnin verði FAIR. Þeim sem stýra rannsóknaverkefnum, stórum sem smáum, ber frá upphafi að gera gagnaáætlun sem er reglulega uppfærð þar til verkefni lýkur og gögnum er fargað eða komið til varanlegrar og eftir atvikum opinnar varðveislu. Háskólinn mun á gildistíma stefnunnar vinna markvisst að eflingu rafrænna innviða og stoðþjónustu til að þessi markmið náist og tryggja að vísindafólk geti staðið við kröfur styrkveitenda og vísindatímarita um meðferð gagna og opið aðgengi að þeim. Jafnframt er stefnt að því að auka þjónustu innan Háskólans við gerð gagnaáætlana og lýsigagna. Gagnaþjónusta Félagsvísindasviðs Háskóla Ísland, GAGNÍS, sem stofnuð var árið 2018 veitir starfsfólki HÍ þjónustu og aðstoð við að koma gögnum sínum í opinn aðgang. GAGNÍS mun ásamt öðrum opnum gagnasöfnum HÍ gegna lykilhlutverki í að efla þjónustu á sviði opinna vísinda innan Háskólans. Í samræmi við verkefnastofn númer sjö í HÍ 26, sem meðal annars er um opin vísindi ber vísinda- og nýsköpunarsvið ábyrgð á nánari útfærslu og endurskoðun á heildarstefnu um opin vísindi í umboði rektors og í samvinnu við stýrihóp HÍ 26, vísindanefnd, fræðasvið og upplýsingatæknisvið. facebooklinkedintwitter