Þórdís Kristmundsdóttir, prófessor við Lyfjafræðideild
„Markmiðið með verkefninu er að þróa og prófa lyf sem innihalda fitusýrur og mónóglýseríð sem virk efni til að fyrirbyggja smit um slímhimnur og til að meðhöndla húð- og slímhimnusýkingar,“ segir Þórdís Kristmundsdóttir, prófessor í lyfjagerðarfræði, um rannsóknir sem hún vinnur að í samstarfi við Halldór Þormar, prófessor emeritus við Líf- og umhverfisvísindadeild, og Peter Holbrook, prófessor við Tannlæknadeild. Í forgrunni rannsóknanna eru svonefnd lípíð, sem eru stór flokkur fituefna, en mörg lípíð hafa reynst vera virk gegn veirum, bakteríum og sveppum.
Þórdís Kristmundsdóttir
„Markmiðið með verkefninu er að þróa og prófa lyf sem innihalda fitusýrur og mónóglýseríð sem virk efni til að fyrirbyggja smit um slímhimnur og til að meðhöndla húð- og slímhimnusýkingar.“
Samstarf Þórdísar og Halldórs hófst eftir að þau hittust á fundi hér innan háskólans. „Halldór hafði um árabil stundað rannsóknir á örverudrepandi áhrifum lípíða og hann sagði mér frá rannsóknunum í fundarhléi. Hann hafði mikinn áhuga á að koma þeim lípíðum sem höfðu reynst hafa mikla örverudrepandi virkni í lyfjaform og þar sem lyfjagerðarfræði er mín sérgrein ákváðum við Halldór að hefja samstarf,“ segir Þórdís.
Rannsóknirnar hafa leitt til einkaleyfa og einkaleyfaumsókna, svo og til stofnunar sprotafyrirtækja. Gerðar hafa verið klínískar rannsóknir sem hafa sýnt fram á að lípíð, sem nefnist mónókaprín, er virkt gegn sýkingum í munni eins og frunsum. Nú er Þórdís í samstarfi við Peter að undirbúa klíníska rannsókn á virkni mónókapríns við sveppasýkingum í munnholi.
Þórdís bendir á að verkefnið hafi bæði vísindalegt og hagnýtt gildi. „Það eru margir kostir við að nýta lípíð til að meðhöndla sýkingar á húð eða slímhúð. Þau lípíð sem við höfum unnið með eru mjög virk við að drepa örverur og eru ekki ertandi eða ofnæmisvaldandi. Lípíð gætu orðið ódýr uppspretta örverudrepandi efna til að takast á við sýkingar,“ segir Þórdís að lokum.