Skip to main content

Þorskur er ekki bara þorskur

Guðrún Marteinsdóttir, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild

Þegar öllu er á botninn hvolft þá er lífið þó umfram alt saltfiskur en ekki draumaríngl,“ segir Nóbelsskáldið Halldór Laxness í skáldsögunni um Sölku Völku. Þorskurinn, flattur og verkaður í salti, verður að þeirri mikilvægu afurð sem einkennir lífið með því lagi sem Halldór Laxness lýsir. Þorskurinn er líka svo frægur að hafa komist í skjaldarmerki Íslendinga á kostnað annarra merkilegra lífvera; og enn nýtur hann hylli:

„Af öllum okkar nytjategundum þá er þorskurinn verðmætastur. Því er ákaflega mikilvægt að þekkja og skilja allan hans fjölbreytileika og í raun er það forsenda fyrir sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar,“ segir Guðrún Marteinsdóttir, prófessor í fiski- og fiskavistfræði. Hún hefur í áraraðir unnið að rannsóknum á þessum mikilvæga bolfiski sem hefur í raun mótað sögu landsins um aldir.

Guðrún Marteinsdóttir

„Af öllum okkar nytjategundum þá er þorskurinn verðmætastur. Því er ákaflega mikilvægt að þekkja og skilja allan hans fjölbreytileika og í raun er það forsenda fyrir sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar.“

Guðrún Marteinsdóttir

Þótt flestum okkar finnist þorskur bara vera þorskur þá hafa rannsóknir undanfarinna ára gefið sterkar vísbendingar um að stofngerð þorsks við Ísland sé flókin. Þetta styðja niðurstöður úr merkingaverkefnum Hafrannsóknastofnunarinnar,sem Vilhjálmur Þorsteinson stýrði, og stóru Evrópuverkefni sem Guðrún stýrði fyrr á öldinni.

„Þorskur við Ísland er samsettur úr nokkrum undirstofnum sem hver um sig hefur ákveðið atferlis- og lífsmynstur,“ segir Guðrún, til að skýra þetta nánar. „Þannig eru mest áberandi svokallaðir djúp- og grunnfarsþorskar. Djúpfarsþorskarnir halda sig á fæðuslóðum vestur og austur af landinu, yfirleitt í hitaskilum þar sem norðlægir og suðlægir straumar mætast. Atferli þeirra við leit að fæðu er mjög sérstakt en þeir stunda stöðugt lóðrétt far frá yfirborði niður á mörg hundruð metra dýpi,“ segir Guðrún.

Hún segir að grunnfarsfiskarnir haldi sig hins vegar á grunnslóð allt árið  um kring og sýni enga tilhneigingu til lóðrétts fars. „Báðir þessir hópar koma inn til hrygningar á sömu hrygningarsvæðin allt í kringum landið. Þó er sá munur á að djúpfarsfiskarnir virðast staðsetja sig heldur dýpra í vatnssúlunni á meðan hrygning á sér stað.“

Guðrún segir að niðurstöður úr rannsóknum bendi til þess að djúpfarsfiskar einkennist af öðru vaxtarlagi, þ.e. lengri búk og lengra bili á milli ugga, en grunnfarsfiskarnir. „Þeir vaxa líka almennt hægar og verða seinna kynþroska en hinir,“ segir hún.

Að sögn Guðrúnar benda genarannsóknir til þess að þorskum með arfgerðina sem algeng er á meðal djúpfarsfiskanna fækki jafnt og þétt af völdum veiða. Þetta sé talið tengjast stækkun landhelginnar sem og aukinni þróun veiðarfæra og sókn togara á dýpri mið.

„Næstu skref í þessum rannsóknum miða að því að þróa svokallaðan svipgerðarlykil til að greina á milli mismunandi undirstofna þorsks. Lykillinn byggist á útliti fiskanna, sem og lögun kvarnanna í þeim. Mikilvægt er að aðferðin við greininguna verði ódýr og helst þyrfti að vera hægt að greina fiskana úti á sjó svo unnt sé að flokka afla án þess að taka sýni til greiningar í landi.“

Þetta verkefni hófst haustið 2011 en Háskóli Íslands vinnur að því í samstarfi við MARICE, Hafrannsóknastofnunina og Matís.