Nemi í jarðfræði hlýtur Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands

Alexandra K. Hafsteinsdóttir, nemi í jarðfræði við Háskóla Íslands, hlýtur Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands fyrir verkefnið Kortlagning grunnvatns á Reykjanesskaga. Hún tók við verðlaununum úr hendi Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag.
Verkefnið vann Alexandra undir leiðsögn Sveinborgar Hlífar Gunnarsdóttur, Finnboga Óskarssonar, Auðar Öglu Óladóttur og Sigurðar Garðars Kristinssonar, jarðfræðinga hjá Íslenskum orkurannsóknum. Verðlaunin í ár er LAVA Vasi, handblásinn úr endurunnu gleri frá Fólk Reykjavik.
Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands eru veitt þeim námsmönnum sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefna sem styrkt voru af Nýsköpunarsjóði námsmanna árið 2025 en sjóðurinn heyrir undir menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið.
Markmið verðlaunaverkefnisins var að kortleggja grunnvatnsstrauma á Reykjanesskaga með því að mæla leiðni (seltu) og greina anjónir í ferskvatni víðs vegar á skaganum á sama tíma og þróað var verklag í kringum nýja rafknúna vatnsdælu. Tekin voru 24 sýni af grunnvatni víðs vegar á skaganum sumarið 2025 úr grunnum ferskvatnsborholum. Í tíu borholum voru tekin sýni með nýju dælunni, sem fengið hefur viðurnefnið „Perlufestin“. Hún er einstaklega þægilegt og fyrirferðarlítið verkfæri til sýnatöku, ólíkt hefðbundnum vatnsdælum sem eru sverar, þungar og knúnar áfram af stórum rafstöðvum. Perlufestin hentar vel til sýnatöku úr grönnum ferskvatnsholum þar sem ekki er hægt að koma hefðbundinni borholudælu og auðvelt er að flytja hana fótgangandi milli staða sem eru annars óaðgengilegir.
Leiðni og anjónir voru mældar í vatnssýnunum og niðurstöður greininganna settar fram á kortum sem sýna dreifingu þeirra á skaganum. Niðurstöðum ber vel saman við fyrri rannsóknir á vatnafari skagans. Skýr skil eru milli vatnasvæða sem tengjast mismunandi berggrunni á hverju svæði fyrir sig.
Níunda eldgosið í Sundhnúkagígaröðinni hófst við framkvæmd rannsóknarinnar. Fjöldi sýna var tekinn í návígi við gosstöðvarnar meðan á því stóð og þau borin saman við eldri gögn af svæðinu. Niðurstöður efnagreininga þeirra sýna benda ekki til þess að eldvirkin hafi markverð áhrif á efnasamsetningu grunnvatnsins en lítil sem engin breyting varð á efnainnihaldi grunnvatns á svæðinu frá upphafi mælinga.
Fimm önnur verkefni fengu sérstaka viðurkenningu:
Efnisheimar
Verkefnið unnu Bjarki Þór Wíum Sveinsson og Gísli Hrafn Magnússon nemendur í arkitektúr í LHÍ. Leiðbeinandi var Anna Kristín Karlsdóttir hjá Lúdika arkitektar.
Lífkol: brú milli fiskeldis og landbúnaðar
Verkefnið er hluti af Matvælasjóðsverkefninu Jarðvegsbætandi lífefni í umsjón Íslenska sjávarklasans og var unnið af Ásdísi Öglu Sigurðardóttur, nema í matvælafræði við HÍ. Leiðbeinendur voru Jónas Baldursson og Katrín Hulda Gunnarsdóttir hjá Matís.
TENGJA – nýting á bakvatni hitaveitu í almannaþágu
Verkefnið var unnið af Janek Beau, Max Greiner, Kötlu Taylor og Tuma Valdimarssyni, nemum í hönnun, umhverfi og áskoranir í LHÍ. Leiðbeinendur voru Heimir Tryggvason hjá Veitum og Jón Helgi Hólmgeirsson, lektor í hönnunardeild LHÍ.
Vöktun á útbreiðslu gufupúða á háhitasvæðum
Verkefnið vann Hugo Alejandro Arteaga Vivas, nemi í jarðeðlisfræði við HÍ. Leiðbeinendur voru Þorbjörg Ágústsdóttir og Egill Árni Guðnason, jarðeðlisfræðingar hjá Íslenskum orkurannsóknum.
Þrívíddarprentuð æfingalíkön fyrir sónar
Verkefnið var unnu Altina Tinna Zogaj, nemandi í læknisfræðilegri verkfræði við HÍ, og Guðbjörgu Láru Magnúsdóttur, nemanda í heilbrigðisverkfræði við HR. Leiðbeinendur voru Valgerður Guðrún Halldórsdóttir, lektor við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands, og Dr. Paolo Gargiulo, forstöðumaður heilbrigðistækniseturs HR og prófessor við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík.
Nánar um öll tilnefnd verkefni
Nánar um Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands
Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands voru fyrst veitt árið 1996. Í stjórn sjóðsins 2023-2026 sitja: Björgvin Stefán Pétursson, formaður, skipaður án tilnefningar, Sævar Helgi Bragason, tilnefndur af vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs, Ásdís Jóhannesdóttir, tilnefnd af Samtökum iðnaðarins, Alexandra Briem, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Erla Guðbjörg Hallgrímsdóttir, tilnefnd af Landssamtökum íslenskra stúdenta.
Árlega velur stjórn Nýsköpunarsjóðs námsmanna um tíu verkefni sem unnin eru á árinu sem úrvalsverkefni. Af þeim eru svo fjögur til sex verkefni valin sem öndvegisverkefni og hljóta þau tilnefningu til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands.
Stjórn sjóðsins byggir mat sitt á verkefnum á mati fagráða sjóðsins, en þau eru sex:
- Fagráð á sviði félagsvísinda, lögfræði og menntavísinda
- Fagráð á sviði lífvísinda, klínískra rannsókna og lýðheilsu
- Fagráð á sviði hugvísinda og lista
- Fagráð á sviði náttúru- og umhverfisvísinda
- Fagráð á sviði raunvísinda og stærðfræði
- Fagráð á sviði verkfræði og tæknivísinda

