Skip to main content

Doktorsvörn í læknavísindum - Ólafur Pálsson

Doktorsvörn í læknavísindum - Ólafur Pálsson - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
13. febrúar 2026 9:00 til 12:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 13. febrúar ver Ólafur Pálsson doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands og Læknadeild Lundarháskóla. Ritgerðin ber heitið: Að kanna bilið milli rannsókna og raunveruleika í sóragigt. Exploring the Gap Between Clinical Trials and Real-World Practice in Psoriatic Arthritis.

Andmælendur eru Vinod Chandran prófessor, dósent við University of Toronto, og dr. Jónas Aðalsteinn Aðalsteinsson, prófessor við Læknadeild HÍ.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var Björn Guðbjörnsson, prófessor emeritus, og meðleiðbeinandi Þorvarður Jón Löve, prófessor. Umsjónarkennari og leiðbeinandi við Lundarháskóla var Meliha C. Kapetanovic, meðprófessor (s. adjungerad professor) og meðleiðbeinendur voru Jón Þorkell Einarsson yfirlæknir og Johan K. Wallman sérfræðingur. Sátu leiðbeinendur við Lundarháskóla einnig í doktorsnefnd við Háskóla Íslands.

Sædís Sævarsdóttir, prófessor og deildarforseti Læknadeildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðarsal Háskóla Íslands og hefst kl. 09.00.

Ágrip

Sóragigt er langvinnur bólgusjúkdómur í liðum tengdur húðsjúkdómnum psoriasis. Hann getur haft djúpar og langvarandi afleiðingar, bæði fyrir sjúklinga sem þjást af honum og fyrir samfélagið. Eftirlit og meðferð sóragigtar er afar fjölþætt og getur þarfnast þverfaglegs samstarfs.

Meðferðarleiðbeiningar við sóragigt byggja að miklu leyti á niðurstöðum slembiraðaðra tvíblindra rannsókna, en við vitum að einungis um þriðjungur sjúklinga uppfyllir inntökuskilyrðin í rannsóknirnar, oft vegna aldurs eða of lítillar sjúkdómsvirkni við inntöku. Í fyrstu greininni er sýnt fram á að sjúklingar með sóragigt sem uppfylla ekki inntökuskilyrði slembiraðaðra rannsókna á líftæknilyfjum fá jafnmikinn ávinning af slíkum lyfjum og halda áfram notkun þeirra í sama mæli eins og þeir sem uppfylla inntökuskilyrðin.

Einn þáttur meðferðar við sóragigt er að stilla langvinna liðverki. Bólgueyðandi gigtarlyf eru hornsteinn verkjameðferðar sóragigtar en af þeim er hægt að fá aukaverkanir sem geta jafnvel verið alvarlegar. Í annarri greininni er sýnt fram á að við upphaf líftæknilyfjameðferðar með TNF hemlum minnkar notkunin á bólgueyðandi gigtarlyfjum um 40-50%. Þetta gefur til kynna óbeinan öryggisávinning af því að hefja slíka meðferð.

Markmið meðferðar við sóragigt er að upphefja öll einkenni og teikn um sjúkdóminn ef það er hægt, með öðrum orðum að koma sjúklingum í sjúkdómshlé, helst án nokkurra aukaverkana meðferðar. Að ná og viðhalda sjúkdómshléi yfir lengri tíma, svokölluðu viðvarandi sjúkdómshléi, hefur sýnt sig bæta langtímahorfur í iktsýki í gegnum aukna líkamlega hreysti, betri lífsgæði og minni þróun liðskemmda. Áhrif viðvarandi sjúkdómshlés hefur hingað til ekki verið mikið rannsakað í sóragigt. Í þriðju og fjórðu greininni er skoðuð tíðni viðvarandi sjúkdómshlés og forspárþættir fyrir því bæði í Svíþjóð og á Íslandi. Þrátt fyrir gott aðgengi að lyfjameðferðum upplifir helmingur sjúklinga aldrei sjúkdómshlé og færri en þriðjungur þeirra fá viðvarandi sjúkdómshlé. Karlkyn og minni þreyta við upphaf meðferðar spá fyrir betri líkum á að ná viðvarandi sjúkdómshléi.

Abstract

Psoriatic arthritis is a chronic, potentially disabling inflammatory joint disorder associated with psoriatic skin disease. The burden of psoriatic arthritis is often substantial and long-lasting, both for patients and for society. The treatment and follow-up of patients with psoriatic arthritis is multifaceted and may require multidisciplinary collaboration.

Most management guidelines rely heavily on results from randomised controlled pharmaceutical trials, yet only about a third of patients would be eligible to participate in these studies, which may limit their external validity. In Study I, we demonstrate that patients who would not have been eligible for clinical trials for biologic disease-modifying anti-rheumatic drugs (bDMARDs) still experience comparable clinical benefits and have similar drug survival as patients who would have met the trial criteria.

Managing chronic joint pain is an important component of care in psoriatic arthritis. Non-steroidal anti-inflammatory drugs are frequently used for pain control, although they may have potentially severe side-effects. In Study II, we demonstrate that patients initiating TNF inhibitors reduce their NSAID consumption by 40-50%, highlighting an indirect safety benefit of introducing bDMARD therapy.

The optimal treatment goal in psoriatic arthritis is the resolution of all signs and symptoms of disease, a state called remission, without adverse treatment effects. Reaching and maintaining remission for longer periods of time, termed sustained remission, has been shown in rheumatoid arthritis to improve long-term outcomes through better physical function, quality of life and less radiographic progression. Sustained remission has not been extensively studied in psoriatic arthritis. In Studies III and IV, we investigate the prevalence and predictors of sustained remission in Sweden and Iceland. Despite access to advanced therapies, fewer than half of all patients ever achieved a state of remission during follow-up, and fewer than one third of patients ever achieved sustained remission. Male sex and lower patient reported fatigue at the start of the first bDMARD therapy predicted a greater likelihood of sustained remission.

Um doktorsefnið

Ólafur Pálsson er fæddur 1986 í Reykjavík. Hann lauk stúdentsprófi frá náttúrufræðideild Menntaskólans í Reykjavík og síðan cand. med. et kir. í læknisfræði 2014. Að loknu kandídatsári starfaði Ólafur sem sérnámslæknir í lyflækningum og lauk kjarnanámi í lyflækningum (Core Medical Training) við Landspítala og varð meðlimur Royal College of Physicans (MRCP). Hann hélt til Lundar í Svíþjóð og lauk sérnámi í gigtarlækningum við Lundarháskóla 2022. Ólafur sneri heim sama ár og hefur síðan starfað á Landspítala og á Gigtarmiðstöðinni sem gigtarlæknir en stundað kennslu læknanema við Háskóla Íslands. Foreldrar Ólafs eru Páll Ólafsson eðlisverkfræðingur og Elínborg Guðmundsdóttir augnlæknir. Eiginkona Ólafs er Þórunn Eva Guðnadóttir snyrtifræðingur og þroskaþjálfi. Börn Ólafs eru Lilja Björg, Sóley Harpa og Rakel Dögg.

Ólafur Pálsson ver doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands föstudaginn 13. febrúar 2026

Doktorsvörn í læknavísindum - Ólafur Pálsson