Nærri 90 doktorar brautskráðir frá Háskóla Íslands

Tæplega 90 doktorar, sem lokið hafa doktorsprófi frá Háskóla Íslands á undanförnum 12 mánuðum, hlutu í dag gullmerki skólans á árlegri Hátíð brautskráðra doktora sem fram fór í Hátíðasal Aðalbyggingar að viðstaddri Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, sem ávarpaði jafnframt kandídatana.
Hátíðin var nú haldin í 14. sinn en hún fer alla jafna fram á fullveldisdaginn 1. desember. Doktorarnir sem sóttu hátíðina eiga það sameiginlegt að hafa lokið doktorsprófi frá Háskóla Íslands á tímabilinu 1. desember 2024 til 1. desember í ár og eru samanlagt 89. Þeir koma af öllum fimm fræðasviðum skólans og í hópnum eru 30 karlar og 59 konur. Sameiginlegar doktorsgráður með öðrum háskólum eru fimm talsins. Þá er 41 doktoranna með erlent ríkisfang. Brautskráðir doktorar frá stofnun Háskóla Íslands eru nú vel á annað þúsund.
Silja Bára R. Ómarsdóttir ávarpaði nýja doktora í fyrsta sinn í embætti rektors og færði þeim hamingjuóskir frá skólanum. Hún undirstrikaði að doktorsnám væri þrekraun sem krefðist seiglu, úthalds og hugrekkis. „Þegar þið settuð ykkur markmið um að rannsaka eitt afmarkað fyrirbæri í heiminum urðuð þið samt hluti af því stóra verkefni: að bæta heiminn allan. Þið hafið greint mynstur sem áður voru hulin, þróað nýjar aðferðir, nýja tækni og öðlast nýja sýn,“ sagði rektor.
Í ávarpi sínu hvatti Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, doktorana nýju til þess að nýta sérþekkingu sína í þágu samfélagsins og að vera brúarsmiðir, í víðtækustu merkingu þess orðs. „Leggið kapp á að miðla rannsóknum ykkar sem oftast og til sem flestra og verið sjálf forvitin um það sem önnur eru að fást við. Óvæntustu og jafnvel merkustu uppgötvanir eru oft gerðar þegar fólk af ólíkum fræðasviðum vinnur saman að því að dýpka þekkingu okkar og bæta heiminn,“ sagði forseti Íslands.
Rögnvaldur J. Sæmundsson, aðstoðarrektor vísinda og þverfræðileika, stýrði afhendingu gullmerkja skólans við athöfnina og þá flutti Óttar Guðbjörn Birgisson, doktor í íþrótta- og heilsufræði, ávarp fyrir hönd brautskráðra doktora.
Óttar ræddi um um þýðingu doktorsnáms í samhengi þeirra miklu tækniframfara sem eiga sér stað um þessar mundir. Vísaði hann til latnesks nafns gráðunnar, Philosophiae doctor, sem lauslega mætti þýða sem „fræðimaður með ást á þekkingu“. „Að elska þekkingu snýst ekki eingöngu um að vita meira og meira eða að sanka að sér endalausum upplýsingum. Það er auðvelt á tækniöld. Að elska þekkingu felur fyrst og fremst í sér að bera virðingu fyrir þekkingu og þekkingarsköpun. Öllu ferlinu. Við eigum ekki einungis að finna réttu svörin. Við eigum líka að finna réttu spurningarnar og þora að spyrja,“ sagði Óttar.
Auk þess ávarpaði Ragnhildur Guðmundsdóttir, starfandi forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, sem lauk doktorsprófi í líffræði frá Háskóla Íslands fyrir fimm árum, gesti á athöfninni. Hún benti á verðmæti doktora fyrir samfélagið. „Við getum stækkað verkefnin með skapandi hugsun og komið auga á tækifæri sem hafa verið ónýtt hingað til. Við eigum að vera óhrædd við að láta í okkur heyra því þegar við tölum þá er hlustað. Nýju ofurkraftarnir veita frelsi og allt virðist mögulegt. Mikilvægt er þó að velja vel og muna að öllu frelsi fylgir ábyrgð. Sýnið hvað í ykkur býr, vinnið af heilindum og fagmennsku, samfélaginu til heilla,“ sagði Ragnhildur.
Yfir 700 stunda doktorsnám við skólann
Óhætt er að segja að doktorsnám við Háskóla Íslands hafi eflst mikið á þeim 25 árum sem liðin eru af þessari öld en á þeim tíma hefur doktorsvörnum fjölgað úr innan við tíu á ári í 70-80 varnir. Má bæði þakka það stefnumörkun skólans um aukna þátttöku í alþjóðlegu vísindasamfélagi og styrkjasókn erlendis ásamt öflugum innlendum styrktarsjóðum eins og Háskólasjóði h/f Eimskipafélags Íslands. Nú stunda rúmlega 700 manns doktorsnám við skólann.
Í tengslum við hátíðina hefur verið gefið út rit þar sem finna má yfirlit yfir brautskráða doktora á tímabilinu 1. desember 2024 til 1. desember 2025 og tölfræði um þróun doktorsnáms við HÍ á undangengnum árum.
Háskóli Íslands óskar þeim stóra og glæsilega hópi sem lokið hefur doktorsnámi frá skólanum undanfarna 12 mánuði innilega til hamingju með áfangann og velgengni í þeim verkefnum sem taka við að lokinni útskrift.
