Skip to main content

„Kjósendur gjörsamlega ófrjálsir.“ Um kosningabaráttu á landshöfðingjatímanum

„Kjósendur gjörsamlega ófrjálsir.“  Um kosningabaráttur á landshöfðingjatímanum - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
9. desember 2025 16:00 til 17:00
Hvar 

Oddi

Stofa 101

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Hrafnkell Lárusson, nýdoktor við Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, heldur erindi í Málstofu í félags- og hagsögu sem nefnist „„Kjósendur gjörsamlega ófrjálsir.“ Um kosningabaráttu fyrir alþingiskosningar á landshöfðingjatímanum.“

Málstofan er í stofu 101 í Odda, þriðjudaginn 9. desember kl. 16:00-17:00. Verið öll velkomin.

Alþingiskosningar á landshöfðingjatímanum (1874–1903) voru háðar í einmennings- og tvímenningskjördæmum. Kosningarnar voru eiginlegir kjörfundir þar sem kjósendur stigu fram fyrir þriggja manna kjörstjórn og lýstu atkvæði sínu í heyranda hljóði. Aðeins einn kjörstaður var í hverju kjördæmi og því veruleg fyrirhöfn fyrir marga kjósendur að sækja kjörfund.

Yfirskrift þessa erindis er tekin úr bréfi Björns Jónssonar ritstjóra Ísafoldar og síðar ráðherra, til Valtýs Guðmundssonar dósents við Kaupmannahafnarháskóla þann 26. september 1900, og er niðurlag á reiðilestri Björns um alþingiskosningar í Gullbringu- og Kjósarsýslu fyrr í þeim mánuði. Síðar í sama bréfi lýsti Björn þeirri skoðun að óhjákvæmilegt væri að komið yrði á leynilegri atkvæðagreiðslu og að hver hreppur fengi sinn kjörstað. Björn var fjarri því einn um þessa skoðun því fleiri urðu til að lýsa henni opinberlega um aldamótin 1900 og margir þingmálafundir á þeim tíma samþykktu áskoranir til Alþingis þar um. En hverjar voru ástæðurnar fyrir þessari kröfu? Og hvaða vandamál átti slík breyting á kosningalögum að leysa?

Erindið byggir á yfirstandandi nýdoktorsrannsókn á alþingiskosningum á landshöfðingjatímanum sem ber yfirskriftina „Hverjir völdu fulltrúa fólksins?“ Í erindinu verður leitað svara við ofangreindum spurningum og verður áherslan á aðkomu valdsmanna, einkum sýslumanna, að kosningum og kosningabaráttu og hvort afskipti þeirra af kjósendum hafi á stundum ráðið úrslitum.

Um fyrirlesara

Hrafnkell Lárusson starfar að nýdoktorsrannsókn við deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði í Háskóla Íslands. Rannsókn hans ber yfirskriftina Hverjir völdu fulltrúa fólksins? og beinist að alþingiskosningum á landshöfðingjatímanum (1874–1903). Hrafnkell hefur sent frá sér allmargar greinar á sviði stjórnmála-, menningar- og félagssögu 19. og 20. aldar. Haustið 2024 gaf Sögufélag út bókina Lýðræði í mótun sem var endurgerð á doktorsritgerð Hrafnkels sem hann varði við Háskóla Íslands vorið 2021.

Hrafnkell Lárusson, nýdoktor við Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands.

„Kjósendur gjörsamlega ófrjálsir.“  Um kosningabaráttur á landshöfðingjatímanum