Trausti gefur út bók um myndlist sína og hönnun

Trausti Valsson, prófessor emeritus í skipulagsfræði við Háskóla Íslands, snýr sér að myndlist og fræðum tengdum henni og hefur gefið út bókina „List og Hönnun“ sem fylgir ævisöguþræði hans. Þetta er fimmtánda bókin sem hann sendir frá sér.
Haustið 2015, skömmu áður en Trausti fór á eftirlaun, gaf hann út starfsævisögu sína „Mótun framtíðar“. Í bókinni nýju er hins vegar farið yfir starf hans að myndlist og hönnun en það sem hafði verið yndi hans frá æsku og leiddi til þess að hann fór í nám í arkitektúr í upphafi.
Auk fimmtán bóka hefur Trausti ritað um 150 greinar og eru flest verka hans aðgengileg á vef hans. „Bækur og greinar eru ekki til nema á fáum bókasöfnum og mikil framför að geta gert þær aðgengilegar á vefsíðu sem rafrit. Þetta var fyrsta verk mitt á eftirlaunum,” segir Trausti og bætir við að hann hafi líka vilja gefa færi á því að hlusta á bækurnar. „Storytel tók að sér að láta lesa þær þrjár mikilvægustu og er hægt að hlusta á þær þar. Ég réð síðan Jay D’Arcy, fyrrverandi prófessor í enskum bókmenntum við HÍ, til að lesa ensku bækurnar. Afganginn af íslensku bókunum las ég svo sjálfur en við Jay nýttum aðstöðuna í hljóðverum Kennslumiðstöðvar HÍ.“
Nýja bókin „List og Hönnun“
Þótt tíu ár séu síðan Trausti fór formlega á eftirlaun situr hann ekki auðum höndum en bókina nýju ritar hann í tilefni 80 ára afmælis síns sem er í ársbyrjun 2026. Í bókinni segir Trausti frá verkum sínum á sviði listar og hönnunar og um leið greinir hann frá hönnunarteoríum sem hann hefur mótað á ferli sínum um þessi svið m.a. í doktorsnámi sínu í Berkeley í Kaliforníu.
Bókin „List og Hönnun“ hefur að geyma 450 myndir. „Með því að spila „andstæðum“ saman í list og hönnun, t.d. húsi og garði, fæst fram aukið gildi eininganna. Þarna er rétt hönnun millisvæðisins lykilatriði. Þetta hef ég nýtt mér í myndlist minni og hönnun ásamt ýmsum öðrum fræðilegum reglum,“ segir Trausti Valsson.

Doktorsritgerð hans, sem hann lauk árið 1987, bar heitið „Samtengingarkenning fyrir hönnun og skipulag, byggð á gagnstyrkingar fræðum“. Gagnstyrking (e. complementarity) er t.d. þekkt frá hinum austurlensku yin-yang fræðum. Með því að spila „andstæðum“ saman í list og hönnun, t.d. húsi og garði, fæst fram aukið gildi eininganna. Þarna er rétt hönnun millisvæðisins lykilatriði. Þetta hef ég nýtt mér í myndlist minni og hönnun ásamt ýmsum öðrum fræðilegum reglum,“ segir Trausti og bendir á að hann útskýri þetta með dæmum í bókinni sem hefur að geyma 450 myndir.

Frá útgáfuhófi vegna bókarinnar List og hönnun.
Útgáfuhátíð vegna bókarinnar fór fram að viðstöddu fjölmenni á Landsbókasafni í upphafi októbermánaðar og meðal gesta þar var Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra og arkitekt. Hann ritar einnig umsögn í bókina þar sem hann bendir m.a. á að Trausti hafi ótrauður tjáð sig um skipulagsmál og borgarþróun, jafnvel á þeim tímum þegar slíkt þótti varla árennilegt eða spennandi innan fagsins. „Í gegnum fræðistörf sín, bækur, greinar og fjölmörg viðtöl hefur Trausti miðlað dýrmætum sjónarmiðum og vakið máls á málefnum sem snerta okkur öll. Hann hefur dregið upp stóru myndina – með skýrri hugsun, tilfinningu fyrir samhengi og óbilandi áhuga á framtíð mannvistar. Frá því að vera rödd á jaðrinum, hefur hann í dag orðið að miðlægum áhrifavaldi í umræðunni um borgarskipulag og umhverfismál.“
Logi segist enn fremur ekki hafa uppgötvað fyrr en nýlega listræna hlið Trausta sem teiknara. „Teikningar Trausta bera með sér bæði nákvæmni og leikgleði. Hann hefur augljóslega gott auga og færni til að fanga hluti í formi. Þetta er hæfileiki sem nýtist arkitekt ekki síður í rýmisformun en í listsköpun. Ég óska Trausta innilega til hamingju með þessa bók og þakka honum fyrir að hafa vakið mig til umhugsunar og frætt mig með orðum, teikningum og dýrmætum sjónarmiðum, um samfélagið sem við byggjum saman.“
