Doktorsvörn í menntavísindum: Auður Soffíu Björgvinsdóttir

Aðalbygging
Hátíðarsalur.
Auður Soffíu Björgvinsdóttir ver doktorsritgerð sína í menntavísindum við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda við Háskóla Íslands.
Vörnin fer fram föstudaginnn 28. mars kl. 13.00 í Hátíðarsal Háskóla Íslands og verður einnig í streymi.
Heiti ritgerðar: Grundvallar lestrarfærni fyrir alla: Mat og markviss kennsla í inngildandi skólastarfi
Enskt heiti ritgerðar: Foundational Reading Skills for All: Assessment and explicit teaching in inclusive classrooms
Andmælendur: dr. Sonia Cabell dósent við Florida State University og dr. Shayne Piasta prófessor við The Ohio State University.
Aðalleiðbeinandi: dr. Anna Lind Pétursdóttir prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og meðleiðbeinandi var dr. Kristen McMaster prófessor við University of Minnesota.
Auk þeirra sat í doktorsnefnd dr. Kristján Ketill Stefánsson lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Sigurgrímur Skúlason aðjunkt við Sálfræðideild Háskóla Íslands.
Dr. Þórdís Lilja Gísladóttir forseti deildar heilsueflingar, íþrótta og tómstunda stjórnar athöfninni.
Verið öll velkomin!
Um verkefnið:
Góð lestrarfærni er nauðsynleg til virkrar þátttöku í samfélaginu. Niðurstöður lesskilningshluta PISA, lesfimiprófa fyrir í 1.–10. bekk og hátt hlutfall nemenda í sérkennslu, benda til þess að víða séu tækifæri til umbóta hvað varðar lestrarkennslu í íslenskum grunnskólum.
Doktorsverkefnið fól í sér þrjár rannsóknir tengdar mati og lestrarkennslu nemenda í 1. og 2. bekk, einkum þeirra sem höfðu litla undirstöðuþekkingu við upphaf grunnskóla og áttu þannig í hættu á að lenda í lestrarerfiðleikum.
Í fyrstu rannsókninni var gerð könnun á landsvísu til að varpa ljósi á starfshætti við mat á stöðu og framvindu nemenda í lestri í 1. bekk í grunnskólum á Íslandi, en markviss skimun og reglulegt mat á framvindu eru forsenda snemmtækrar íhlutunar. Niðurstöðurnar bentu til lítils samræmis við framkvæmd lestrarmats í 1. bekk í íslenskum grunnskólum og skorti á mati á framvindu undirstöðuþátta. Einnig bentu niðurstöðurnar til þess að víða væru vinnubrögð við mat með þeim hætti að þau nýttust ekki vel til að finna og styðja börn með slaka undirstöðufærni snemma í lestrarnáminu.
Í annarri og þriðju rannsókninni voru skoðuð áhrif af kennsluaðferðunum K-PALS (e. Kindergarten Peer-Assisted Learning Strategies) og Grunn PALS eða G-PALS (e. First Grade Peer-Assisted Learning Strategies) sem fela í sér markvissa kennslu með hljóðaaðferð og félagastuðningi. Í K-PALS er áherslan á kennslu hljóðkerfis- og hljóðavitundar, bókstafshljóða og umskráningar. Í G- PALS bætist við þjálfun lesfimi í samfelldum texta og endurtekinn lestur á tíma.
Í annarri rannsókninni voru þátttakendur nemendur í 1. bekk sem áttu í hættu á að lenda í lestrarerfiðleikum vegna lítillar undirstöðufærni. Þátttakendur komu úr tveimur árgöngum í átta skólum. Nemendur fjögurra samanburðarskóla fengu kennslu með Byrjendalæsi eða hljóðaaðferð og nemendur fjögurra tilraunaskóla fengu lestrarkennslu með K-PALS og G-PALS. Niðurstöðurnar sýndu að nemendur sem fengu PALS kennslu juku lestrarfærni sína umfram nemendur í samanburðarhópnum, með marktækt betri árangri á öllum mældum útkomubreytum.
Í þriðju rannsókninni voru langtíma áhrif af notkun PALS á lestrarfærni rannsökuð. Nemendum sem sýnt höfðu vísbendingar um lestrarvanda við upphaf 1.bekkjar úr fyrri árgangi rannsóknar tvö, var fylgt áfram til loka 2. bekkjar. Niðurstöðurnar bentu til að áframhaldandi notkun PALS í bekkjarkennslu skilaði marktækt betri árangri fyrir nemendur með vísbendingar um lestrarvanda en kennslan í samanburðarskólunum. Niðurstöður rannsókna tvö og þrjú sýndu að notkun PALS í bekkjarkennslu jók líkur á að nemendur sem sýnt höfðu vísbendingar um vanda, næðu undirstöðufærni í lestri.
Niðurstöður rannsóknanna þriggja varpa ljósi á mikilvæga þætti í mati og lestrarkennslu á yngsta stigi grunnskóla á Íslandi og geta nýst til að bæta lestrarfærni barna, sérstaklega þeirra sem standa höllum fæti við upphaf formlegs lestrarnáms. Rannsóknin var styrkt af Rannís (nr. 207216-051) og er hluti af stærri rannsókn sem nefnist Samvinna um læsi fyrir alla.
Um doktorsefnið
Auður Soffíu Björgvinsdóttir (f. 1976) lauk B.Ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 2005 og MA gráðu í menntavísindum með áherslu á lestrarfræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2017. Hún kenndi við Álftanesskóla frá 2004–2022, var umsjónarkennari á yngsta stigi, síðar sérkennari í lestri á öllum stigum grunnskólans og skólasafnskennari. Auður tók þátt í að móta læsisstefnu og lestrarkennslu skólans frá árinu 2010, fyrst með þátttöku í fagstjórn í lestri og ritun og síðar í stöðu verkefnastjóra læsis við skólann. Auður gegndi tímabundinni stöðu læsisráðgjafa hjá Menntamálastofnun, einkum við gerð kennslu- og stuðningsefnis um foreldrafræðslu og lestur. Auður er starfandi aðjúnkt við Menntavísindasvið og hefur einnig komið að kennslu við Háskólann á Akureyri. Auður er gift Sveinbirni Berentssyni og eiga þau þrjú börn.
.
