Ágústa hlaut viðurkenningu Átaks
Ágústa Rós Björnsdóttir, verkefnastjóri starfstengds diplómanáms fyrir fólk með þroskahömlun, hlaut heiðursverðlaun Átaks, félags fólks með þroskahömlun hér á landi, í byrjun desember.
„Ég er gríðarlega þakklát Átaki fyrir verðlaunin en vænst þykir mér um að Ólafur Snævar Aðalsteinsson, fyrrverandi nemandi minn í diplómanáminu, fékk líka verðlaun á sama tíma Hann er mér mikil fyrirmynd í lífinu, bæði í réttindabaráttu og sem manneskja,“ segir Ágústa aðspurð um hvaða þýðingu verðlaunin hafi fyrir hana. „Verðlaunin eru mér hvatning til að halda baráttunni áfram því við eigum enn langt í land þegar kemur að inngildandi menntun. Það sem er brýnast er aukinn stuðningur stjórnvalda til háskólanna við að bjóða upp á fjölbreyttara nám á fleiri sviðum háskólans og í fleiri háskólum á Íslandi.“
Átak er eina félag fólks með þroskahömlun á Íslandi. Það er því mikill heiður að hljóta viðurkenningu og staðfesting á því góða starfi sem Ágústa sinnir á Menntavísindasviði HÍ.
Ágústa er verkefnastjóri starfstengds diplómanáms og hennar helsta hlutverk felst í að stýra náminu, hafa yfirsýn og finna skapandi lausnir þegar kemur að inngildandi námi. „Starfið er mjög fjölbreytt og skemmtilegt, ég kenni og fræði ásamt því að vinna að þróun námsins. Í starfinu felast samskipti og stuðningur við nemendur og kennara, ég kynni námið, finn hlutverk fyrir öll í náminu, er í alþjóðlegu og innlendu samstarfi, bý til tengingar innan HÍ og á vinnumarkaði og margt fleira. Verkefnalistinn er ótæmandi. Helstu áskoranir starfsins eru kerfisbundnar hindranir þar sem ekki alltaf er gert ráð fyrir fjölbreytileika og fötluðu fólki,“ segir hún.
Ágústu bauðst að halda utan um starfsnám diplómanema árið 2008 og eftir það var ekki aftur snúið. „Þetta var það skemmtilegasta sem ég hafði upplifað í starfi. Mér bauðst svo staða verkefnastjóra haustið 2009 og ákvað á stundinni að þetta var tækifæri sem ég gat ekki látið fram hjá mér fara,“ segir Ágústa og lýsir því að nemendur og hæfileikar þeirra séu hennar helsta hvatning í starfi auk frábærra samstarfsfélaga. „Svo er það staðföst trú mín á inngildandi menntun og mannréttindi, að við öll eigum rétt á að vera saman. Að við eigum öll fleira sameiginlegt en ekki og mannréttindi eigi alltaf að vera allra,“ segir Ágústa að lokum.