Hvernig má styrkja starfsnám á Íslandi?
Starfsnám og bóknám eru grundvallarstoðir íslensk menntakerfis, en hver er staða þeirra í dag? Hvað mótar val nemanda og hvaða áskoranir fylgja því að styrkja starfsnám sem raunhæfan valkost fyrir fleiri nemendur? Rannsókn Sæbergs Sigurðssonar, aðjunkts við Deild faggreinakennslu á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, og Elsu Eiríksdóttir, prófessors við sömu deild, varpar ljósi á þetta og umdeildar tillögur um sameiningu framhaldsskóla og þær forsendur sem liggja að baki.
Grein þeirra „Starfsnám eða bóknám: Aðsókn nemanda og þróun framhaldsskóla“ fjallar um þessar spurningar. Með greiningu á gögnum, mannfjöldaspám og samfélagslegri orðræðu dregur rannsóknin fram lykiláskoranir starfsnáms og tillögur að breytingum.
„Við viljum að starfsnám sé ekki séð sem seinni kostur“
Rannsóknin snýst um þróun aðsóknar í starfsnám og bóknám á Íslandi með áherslu á tengsl við kynjahlutföll, samfélagslegt viðhorf og kerfislega veikleika. Höfundarnir leggja áherslu á að auka aðgengi að starfsnámi og jafna stöðu þess gagnvart bóknámi.
„Við viljum að starfsnámið sé ekki séð sem seinni kostur. Það þarf að byggja upp jákvæða ímynd og tryggja að allir nemendur sem sýna námi virkilegan áhuga hafi raunhæfan aðgang að því,“ segir Sæberg.
Umræða um sameiningu framhaldsskóla var kveikjan að rannsókninni. Tillögur ráðuneytisins gerðu ráð fyrir samdrætti í nemendafjölda og voru settar fram sem leið til að mögulega nýta fjármagn betur. Höfundar greinarinnar veltu þó fyrir sér hvort þessar spár stæðust.
„Við sáum að mannfjöldaspár tóku ekki nægilegt tillit til sveiflna í stærð árganga,“ útskýrir Sæberg. „Þó að minni árgangar séu í vændum í kringum 2030 eru stærri árgangar að streyma inn í framhaldsskólakerfið á næstu árum og ekki er útlit fyrir annað en þjóðinni haldi áfram að fjölga fram eftir öldinni. Þetta vakti hjá okkur spurningar um hvort sameiningar bóknámsskóla væru réttmætar miðað við gefnar forsendur.“
Nýta gögn frá Hagstofunni
Sæberg og Elsa nýttu sér gögn frá Hagstofunni um mannfjöldaþróun, útskriftir og umsóknir í framhaldsskóla. Þau fengu einnig aðgang að umsóknargögnum í gegnum Menntamálastofnun, sem gerði þeim kleift að greina eftirspurn eftir námi námi. „Við skoðuðum ekki aðeins fjölda nemenda á einstaka námsbrautum heldur líka hvar eftirspurnin eftir skólaplássum liggur, meðal annars eftir aldri og kyni,“ segir Sæberg og bætir við að þessi nálgun hafi hjálpað þeim að kortleggja stærri mynstur í námsvali og staðfesta ýmsar tilgátur.
Sæberg leggur til að stefnt sé að því að auka aðsókn í starfsnám og ná jafnvægi milli starfsnáms og bóknáms til að ná svipaðri stöðu og var hér á landi um aldamót. Sæberg telur að raunhæft væri að ná þeirri stöðu í kringum 2040.
Skortur á plássum og samfélagsleg orðræða
Rannsókn þeirra leiddi í ljós nokkur lykilatriði:
- Skortur á plássum í vinsælum greinum: Í greinum eins og rafvirkjun og smíði eru tvöfalt fleiri umsóknir en pláss. Þetta hamlar nemendum sem vilja hefja starfsnám og dregur úr möguleikum starfsnáms að ná til fleiri nemanda.
- Kynjahlutföll: Strákar eru mun fjölmennri í starfsnámsbrautum en aðeins í takmörkuðum greinum. Strákar hafa sögulega verið í yfirgnæfandi í starfsgreinum eins og smíði og rafvirkjun en stúlkur í greinum eins og snyrtifræði og hársnyrti. Þó má benda á að áhugi stúlkna á svokölluðum strákafögum hefur aukist töluvert á undanförnum árum.
- Samfélagsleg orðræða: Starfsnám hefur lengi verið álitið „seinni valkostur“ miðað við bóknám. Þetta hefur áhrif á val nemanda og viðhorf foreldra, sem hafa áhrif á ákvarðanir ungmenna. Í mörg ár þá hefur umræðan í fjölskylduboðum verið að fólk sé að einhverju leyti hátt settari að vera með stúdentspróf frekar en að hafa lokið við starfsnámi.
Rannsóknin varpar ljósi á mikilvægi starfsnáms í íslensku samfélagi. Með því að efla starfsnám geta stjórnvöld brugðist við vinnuaflsskorti í iðngreinum og styrkt atvinnulífið til framtíðar. Höfundar benda einnig á að jafna þurfti stöðu starfsnáms og bóknáms í samfélagslegri orðræðu.
Framtíðarsýn til ársins 2040
Sæberg leggur til nokkrar aðgerðir til að styrkja starfsnámskerfið:
- Fjölgun plássa: Það þarf að fjölga námplássum í vinsælum greinum eins og rafvirkjun og smíði til að mæta eftirspurn.
- Kynning á starfsnámi: Starfsnám þarf að kynna betur, bæði fyrir nemendum og foreldrum, með áherslu á ávinning þess, svo sem góð laun og spennandi störf.
- Sveigjanleiki í kerfinu: Það þarf að tryggja að nemendur fái aðgang, óháð aldri, að starfsnámi, sérstaklega eldri nemendur sem vilja snúa aftur í nám.
- Endurskoðun orðræðu: Samfélagið þarf að breyta viðhorfi sínu þannig að starfsnám sé álitið jafn mikilvægt og bóknám.
Sæberg leggur til að stefnt sé að því að auka aðsókn í starfsnám og ná jafnvægi milli starfsnáms og bóknáms til að ná svipaðri stöðu og var hér á landi um aldamót. Sæberg telur að raunhæft væri að ná þeirri stöðu í kringum 2040. „Það getur tekið mörg ár að snúa við þróuninni en það er nauðsynlegt ef við viljum styrkja starfsnámið og skapa menntakerfi sem mætir þörfum bæði nemenda og atvinnulífsins,“ segir Sæberg.
Höfundur greinar: Halldór Ingi Óskarsson, BA-nemi í blaðamennsku