Doktorsvörn í líffræði - Theresa Henke
Aðalbygging - hátíðasalur
Doktorsefni:
Theresa Henke
Heiti ritgerðar:
Landnám flundrunnar (Platichthys flesus) á Íslandi
Andmælendur:
Dr. Skúli Skúlason, prófessor við Fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum
Dr. Ivan Jarić, dósent við University of Paris-Saclay, Frakkland, og vísindamaður við the Biology Centre of the Czech Academy of Sciences, Institute of Hydrobiology, Tékklandi
Leiðbeinandi:
Dr Snæbjörn Pálsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands
Dr. Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, forstöðumaður Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum, Íslandi
Einnig í doktorsnefnd:
Dr. Hlynur Bárðarson, vísindamaður við Hafrannsóknastofnun Íslands
Dr. Jakob Hemmer-Hansen, vísindamaður við DTU-aqua, Danmörku
Doktorsvörn stýrir:
Dr. Gunnar Þór Jóhannesson, starfandi deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands
Ágrip:
Ágengar tegundir eru stór ógn við líffræðilega fjölbreytni á heimsvísu. Ágengar tegundir eru í eðli sínu þverfaglegt viðfangsefni, enda byggir landnám og fótfesta í nýjum heimkynnum á fjölda þátta bæði náttúrulegum og tengdum mannlegri hegðun og samfélagi. Fólk tekur þátt í mögulegri fótfestu ágengra tegunda og mætir einnig afleiðingunum af þeim. Flundra (Platichthys flesus), algeng flatfiskategund í Vestur-Evrópu, fannst í fyrsta skipti á Íslandi við Ölfusárósa árið 1999. Næstu árin dreifðist flundran hratt út og finnst nú víða við strendur landsins, oft í árósum en líka í ferskvatni. Hún nýtir því að hluta til sömu búsvæði og íslenskir laxfiskar, lax, urriði og bleikja, en þessar tegundir gegna mikilvægu vistkerfishlutverki og eru mikilvægar fyrir stangveiði víða um land. Stangveiðisamfélagið á Íslandi er því mikilvægur haghópur þegar kemur að flundru. Í þessari ritgerð er sýnt með stuttraðagreiningu á erfðaefni að líklegasti uppruni flundrunnar á Íslandi er Færeyjar. Það er því enn óljóst hvort flundran barst til Ísland náttúrulega eða með kjölfestuvatni. Þessi óvissa skiptir máli fyrir fræðilegar skilgreiningar á flundru sem ágengri tegund og voru sjónarmið bæði hagaðila og sérfræðinga til þessarar óvissu metin með spurningakönnun. Niðurstöðurnar sýndu að greining á því hvernig flundran nam land er talin mikilvæg af báðum hópum en flestir vildu forgangsraða rannsóknum á áhrifum flundrunnar og þróun áætlana um viðbrögð við henni. Stangveiðisamfélagið hafði mjög neikvætt viðhorf til flundru en ennfremur komu fram svæðisbundnar og tímaháðar sveiflur í viðhorfum. Að lokum sýndi greining á gögnum um staðsetningu flundrunnar úr hefðbundum leiðöngrum, rannsóknaverkefnum og gögnum sem var deilt af hagaðilum að þekking hagaðila getur verið ódýr en áhrifarík leið til að bæta vöktun framandi tegunda.
Um doktorsefnið:
Theresa Henke er fædd og uppalin í Þýskalandi og lauk B.Sc. gráðu í líffræði frá Háskólanum í Bremen áður en hún flutti til Vestfjarða árið 2016. Þar innritaðist hún í meistaranám í Haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða á Ísafirði, þaðan sem hún útskrifaðist í apríl 2018. Ástríða Theresa fyrir rannsóknum á ágengum framandi tegundum og löngun hennar til að dvelja áfram á Íslandi varð til þess að hún hélt áfram rannsóknum sínum sem doktorsnemi við Háskóla Íslands. Meistararitgerð hennar fjallaði um vistfræðileg áhrif af framandi tegundinni flundru, og áhersla doktorsrannsókna hennar var áfram á að skilja landnám flundru á Íslandi og áhrif þess. Knúin áfram af kynnum við fólk sem deildi reynslu sinni og áhyggjum af komu flundrunnar, fékk Theresa áhuga á að kanna frekar mannleg sjónarhorn og víddir ágengra framandi tegunda og samþætti þessa þætti smám saman meira inn í doktorsvinnu sína. Í september 2024 tók fræðilegur ferill Theresa stefnu suður á bóginn og hún gekk til liðs við IRIS teymi EEZA-CSIC, rannsóknastofnun í Almería á Spáni, sem nýdoktor. Þar mun hún kafa dýpra í rannsóknir á mannlegum sjónarhornum og víddum ágengra framandi tegunda, nú á heimsvísu.
Doktorsefnið Theresa Henke