Raddaður framburður á undanhaldi en harðmæli heldur velli
Ólíkt því sem stundum heyrist í samfélagsumræðunni eru tungumál ekki fasti heldur taka stöðugum breytingum. Þær geta t.d. orðið vegna tíðandaranda og krafna samfélagsins, tilhneigingar til að einfalda málkerfið eða áhrifa annarra tungumála. Slíkar breytingar ná líka til þess hvernig við berum orðin fram og um þessar mundir vinnur Ásgrímur Angantýsson, prófessor í íslenskri málfræði, að spennandi rannsókn ásamt stórum hópi fræðafólks á því hvernig tilbrigðum í framburði hér á landi hefur reitt af á síðustu áratugum.
„Rannsóknin snýst aðallega um stöðu og þróun svæðisbundinna framburðareinkenna á Íslandi og viðhorf til þeirra en við höfum líka auga með vísbendingum um nýjungar í framburði,“ útskýrir Ásgrímur sem stýrir rannsókninni ásamt Finni Friðrikssyni, dósent við Háskólann á Akureyri.
Kortleggur stöðuna á ný
Meðal vel þekktra staðbundinna einkenna eru t.d. harðmæli og raddaður framburður fyrir norðan, vestfirskur einhljóðaframburður, sunnlenskur hv-framburður og skaftfellskur einhljóðaframburður. Dæmi um framburðartilbrigði sem einkum hafa verið tengd við yngri kynslóðir eru ks-framburður, tvinnhljóðaframburður og svokallað höggmæli en nánari skýringar á þessum framburðareinkennum má finna neðar í greininni.
Ásgrímur Angantýsson. MYND/Tryggvi Már Gunnarsson
Í hljóðkerfishluta rannsóknarinnar feta þeir Ásgrímur og Finnur og samstarfsfólk í fótspor málfræðinganna Björns Guðfinnssonar, Höskuldar Þráinssonar og Kristjáns Árnasonar. Nafn Björns þekkja eflaust mörg sem komin eru yfir fertugt enda voru kennslubækur hans um íslenska málfræði og setningafræði notaðar um áratugaskeið í kennslu í grunn- og framhaldsskólum hér á landi. Björn, sem var prófessor við HÍ, er ekki síður þekktur fyrir framburðarrannsóknir sínar sem hann vann að snemma á fimmta áratug síðustu aldar en eins og lesa má um á Vísindavefnum kannaði hann framburð þúsunda Íslendinga í þessari fyrstu rannsókn sinnar tegundar hér á landi.
Þeir Höskuldur og Kristján, sem eru báðir prófessorar emeritus við HÍ, gerðu svo sambærilega rannsókn um 40 árum síðar sem nefnist „Rannsókn á íslensku nútímamáli“ (RÍN) en hún varð m.a. grunnur að kennslubók um mállýskur sem margir þekkja eflaust úr framhaldsskóla.
„Við eigum þarna ótrúlega merkilegar upplýsingar um svæðisbundinn framburð frá fimmta áratug 20. aldar og sömuleiðis frá níunda áratugnum. Á milli þessara rannsókna liðu um 40 ár og um þessar mundir eru aftur liðin 40 ár frá síðustu yfirlitsrannsókn og því tímabært að kortleggja stöðuna á nýjan leik,“ segir Ásgrímur um kveikjuna að rannsókninni.
Hver eru helstu svæðisbundnu framburðareinkenni á Íslandi?
(1) Norðlensk framburðareinkenni
a. Harðmæli er þegar /p, t, k/ eru borin fram fráblásin á eftir löngu sérhljóði: tapa [tʰa:pʰa], líka [li:kʰa], bíta [pi:tʰa]. Í meirihlutaframburði eru þessi hljóðön borin fram ófráblásin (linmæli): tapa [tʰa:pa], líka [li:ka], bíta [pi:ta].
b. Raddaður framburður er þegar hljóðönin /m, n, l, ð/ eru borin fram rödduð á undan fráblásnu lokhljóði: hempa [hɛmpʰa], mennta [mɛntʰa], hjálpa [çaulpʰa], blaðka [plaðkʰa]. Almennur framburður er að hafa óraddaða hljómendur á eftir ófráblásnu lokhljóði (óraddaður framburður): hempa [hɛm̥pa], mennta [mɛn̥ta], hjálpa [çaul̥pa], blaðka [plaθka].
(2) Framburðareinkenni á Suður- og Suðausturlandi
a. hv-framburður kemur fram í orðum eins og hvalur [xa:lʏr̥]/[xʷaːlʏr̥]/[xvaːlʏr̥] þar sem er óraddað uppgómmælt önghljóð [x] í framstöðu en ekki [kʰv] eins og í hinum algengari kv-framburði: hvalur [kʰva:lʏr̥].
b. Skaftfellskur einhljóðaframburður heyrist í orðum eins og bogi [pɔ:jɪ] og magi [ma:jɪ], þ.e. borið er fram langt einhljóð á undan [jɪ], en ekki tvíhljóð eins og í almennum tvíhljóðaframburði þar sem [ɔi] og [ai] koma fyrir í þessari stöðu: bogi [pɔijɪ], magi [maijɪ].
(3) Vestfirsk framburðareinkenni
Vestfirskur einhljóðaframburður kemur fram í orðum eins og banki [paɲ̥cɪ] þar sem borið er fram einhljóð en ekki tvíhljóð eins og í framburði flestra landsmanna [pauɲ̥cɪ].
Nokkur nýrri framburðarafbrigði
(1) ks-framburður eða lokhljóðsframburður í orðum eins og buxur [pYksYr] og hugsa [hYksa] þar sem annars er önghljóðsframburður á sömu hljóðasamböndum: buxur [pYxsYr], hugsa [hYxsa].
(2) Tvinnhljóðsframburður í orðum eins og tjald og djarfur þar sem upphafshljóðið verður greinilegt tvinnhljóð, þ.e. í átt við tsjald og dsjarfur andspænis venjulegum framburði án slíks s-hljóðs.
(3) Höggmæli felur í sér raddbandalokhljóð í stað munnlokhljóðs í orðum eins og Bjarni [pjaʔnɪ] þar sem annars er ekki borið fram raddbandalokhljóð heldur venjulegt rdn-, dn-, eða jafnvel -rn sem er reyndar hverfandi framburðarafbrigði.
Yfirlitskort yfir íslensk framburðareinkenni úr tímaritinu Skírni frá árinu 1958.
Eru með gögn um framburðarbreytingar fólks yfir 80 ára tímabil
Hin meginkveikjan að rannsókninni er að sögn Ásgríms sú að gögnum um viðhorf til mismunandi framburðareinkenna hefur ekki verið safnað á kerfisbundinn hátt. „Í rannsókn okkar veltum við fyrir okkur að hvaða marki viðhorf kunna að stuðla að viðgangi eða hnignun mismunandi framburðareinkenna. Í mörgum tilvikum getum við borið saman framburð sömu einstaklinga á mismunandi tímum, allt að 80 ár aftur í tímann, og kannað hvort og þá að hvaða marki viðhorf spila inn í framburðarþróunina,“ segir hann.
Að sögn Ásgríms var gögnum var safnað í tveimur megináföngum. „Sá fyrri fól í sér netkönnun sem stýrt var af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og er nú lokið. 3000 mögulegir málhafar um allt land fengu senda könnun sem þeir voru beðnir um að taka þátt í svo að hægt væri að fá gott yfirlit yfir stöðuna á svæðisbundnum framburðartilbrigðum á Íslandi.“
Reynt var að ná í þrjá jafn stóra hópa. „Sá fyrsti samanstóð af 1000 unglingum (12–20 ára) sem valdir voru af handahófi, sá næsti af 1000 þátttakendum sem áður höfðu tekið þátt í RÍN-rannsókn Kristjáns Árnasonar og Höskuldar Þráinssonar á níunda áratugnum og í sumum tilvikum rannsókn Björns Guðfinnssonar á fimmta áratugnum, og sá þriðji samanstóð af 1000 manna handahófsúrtaki úr Þjóðskrá, 12 ára og eldri,“ segir Ásgrímur. Þess má geta að alls tóku á þriðja tug fólks á tíræðisaldri úr rannsókn Björns þátt í rannsókn Ásgríms og félaga og því er rannsóknarhópurinn með gögn sem spanna 80 ára tímabil.
Fyrsta heildarrannsóknin á viðhorfum til svæðisbundinna framburðareinkenna
Í netkönnuninni voru allir þátttakendur beðnir um að taka þátt í framburðarprófi sem hannað var til að sjá hversu mikið þeir notuðu viðeigandi tilbrigði, bæði tilbrigði sem áður voru þekkt og önnur ný. Alls fengust 960 nothæf svör við netkönnuninni sem er svarhlutfall upp á 32%. „Það verður að hafa í huga að könnunin var tiltölulega krefjandi og tímafrek þar sem þátttakendur áttu ekki einungis að svara spurningum heldur einnig hlusta á texta og taka upp eigin lestur. Því var viðbúið að svarhlutfall yrði tiltölulega lágt en við erum engu að síður mjög ánægð með þátttökuna og höfum undir höndum gríðarlegt magn af áhugaverðum gögnum,“ segir Ásgrímur enn fremur.
Seinni megináfangi gagnasöfnunarinnar sneri að því að kanna möguleg áhrif viðhorfa á þróun svæðisbundnu tilbrigðanna sem valin voru. „Tekin voru 160 viðtöl við úrtak málhafa úr fyrri áfanganum þar sem hægt var að kafa dýpra í viðhorf þátttakendanna og skynjun þeirra á eigin framburði svo og framburði annarra. Með greiningu þeirra má svo meta hvernig viðhorf gætu hafa leitt til þess að málhafar annaðhvort varðveittu eigin framburðareinkenni eða lögðu þau af,“ útskýrir Ásgrímur.
Stór hluti rannsóknarhópsins sem kemur að verkefninu. MYND/Kristinn Ingvarsson
Nemendur virkir þátttakendur í rannsókninni
Þótt viðfangsefnið sé íslenskt tungumál er verkefnið alþjóðlegt. Að því kemur stór hópur enda gríðarmikið magn gagna sem þarf að vinna úr. Sem fyrr segir stýra Ásgrímur og Finnur verkefninu en meðumsækjendur þeirra um styrk til verkefnisins voru Nicole Dehé, prófessor við Háskólann í Konstanz, Gunnar Ólafur Hansson, prófessor við University of British Columbia, og Kristín Margrét Jóhannsdóttir, dósent við Háskólann á Akureyri. Þá er Stefanie Bade nýdoktor við rannsóknarverkefnið.
Nemendur á öllum námsstigum háskólans hafa ekki látið sitt eftir liggja. „Þær Ása Bergný Tómasdóttir og Eva Hrund Sigurjónsdóttur hafa haft umsjón með ákveðnum framkvæmdaþáttum og skrifuðu báðar MA-ritgerðir sínar út frá gögnum rannsóknarinnar. Þær hafa unnið að efnissöfnun og gagnaúrvinnslu ásamt meistaranemunum Ásu Jónsdóttur, Höllu Hauksdóttur og Ragnhildi Ósk Sævarsdóttur. Aðrir sem komið hafa að rannsókninni eru Dagbjört Guðmundsdóttir, doktorsnemi í íslenskri málfræði, Salome Lilja Sigurðardóttir, MA í almennum málvísindum, Auður Siemsen og Magnús Már Magnússon, BA í íslensku, og Kolbeinn Héðinn Friðriksson BA-nemi.“
Auk þeirra eru þau Höskuldur Þráinsson og Kristján Árnason, prófessorar emeritus við HÍ, Eva Sundgren, prófessor emerítus við Háskólann í Mälardalen, Bragi Guðmundsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, og Laurel MacKenzie, dósent við New York University, aðstandendum verkefnisins til ráðgjafar ásamt Margréti Guðmundsdóttur, doktor í íslenskri málfræði og sérfræðingi á sviði framburðarrannsókna.
Ásgrímur stýrir rannsókninni ásamt Finni Friðrikssyni, dósent við Háskólann á Akureyri.
Tengja norðlensku við skýrmæli
Verkefninu var ýtt úr vör í fyrra en þegar hafa ákveðnar áfanganiðurstöður litið dagsins ljós og verið kynntar, bæði á ráðstefnum innan lands og utan og í vísindatímaritum. „Þegar litið er til framburðarþróunarinnar benda niðurstöður okkar til þess að bæði hv-framburður á Suðurlandi og raddaður framburður á Norðurlandi séu á miklu undanhaldi og í raun hverfandi á meðal yngri kynslóða. Aftur á móti virðast skaftfellskur einhljóðaframburður og einkum norðlenskt harðmæli halda betur velli,“ útskýrir Ásgrímur.
Að sögn Ásgríms leiðir viðhorfshluti netkönnunarinnar í ljós að norðlenskan er vel þekkt og að það vefst yfirleitt ekki fyrir málnotendum að tengja norðlensk framburðareinkenni við viðkomandi málsvæði. Niðurstöður viðtala benda einnig til þess að fólk tengi norðlensku sterklega við skýrmæli.
Tsjald og dsjarfur meðal nýrra framburðareinkenna
„Næstu skref eru að ljúka við að vinna úr viðtölum við þá 160 einstaklinga sem valdir voru úr netkönnuninni til að kafa dýpra í ýmsa þætti rannsóknarinnar, ekki síst varðandi það hvernig einstaklingar breyta máli sínu á lífsleiðinni. Með þeirri úrvinnslu munu fást svör við ýmsum þeim spurningum sem enn er ósvarað, svo sem hvernig þróun svæðisbundinna framburðareinkenna á lífsleiðinni tengist uppruna og sjálfsmynd viðkomandi málhafa. Enn fremur ætti að fást betri innsýn í alþýðuhugmyndir um dreifingu tilbrigðanna á kjarnasvæðum í samanburði við raunverulega dreifingu þeirra. Þá verður hugað nánar að því hvaða merkingu málnotendur leggja í hugtakið skýrleika og hvernig það tengist framburði,“ segir Ásgrímur.
Gögnin úr rannsókninni geyma hins vegar ekki bara upplýsingar um svæðisbundin framburðareinkenni heldur einnig einkenni eða tilbrigði í máli sem tengjast aldurs- og félagslegum þáttum og teljast nýleg í málinu. Má þar nefna svokallaðan ks-framburð, þar sem orð eins og buxur og hugsa eru borin fram með gs í stað ks í miðju orði, og tvinnhljóðaframburður þar sem orð eins og tjald og djarfur eru borin fram í átt við tsjald og dsjarfur. „Með greiningu á þessum gögnum færumst við vonandi nær því að fá heildarmynd af stöðu framburðartilbrigða á Íslandi og félagslegu samhengi þeirra,“ segir Ásgrímur.
Inntur eftir þýðingu rannsóknarinnar fyrir vísindin og samfélag bendir Ásgrímur á að með henni fáist ný þekking sem stuðli að samhengi í íslenskum framburðarrannsóknum sem sé á vissan hátt einstakt á heimsvísu, sérstaklega hvað varðar þróun í máli einstaklinga yfir mjög langt tímabil. „Í rannsókninni er kannað hversu stóru hlutverki meðvituð og ómeðvituð viðhorf til máls gegna þegar kemur að því að skýra slíkar málfarsbreytingar í rauntíma. Þetta er hægt að gera vegna þess hversu vel hljóðfræðilegur breytileiki hefur verið rannsakaður á fyrri tímum,“ segir Ásgrímur.
Hann bætir að endingu við að afrakstur rannsóknarinnar hafi þegar vakið athygli og áhuga málfræðinga og almennings hér heima og í alþjóðlegu samfélagi málvísindafólks í gegnum fyrirlestra, viðtöl og birt efni. „Ný þekking á þessu sviði getur líka nýst í hagnýtu samhengi, t.a.m. í kennsluefni um breytileika í framburði,“ segir Ásgrímur að lokum.
Hægt er að kynna sér rannsóknina nánar og fylgjast með framgangi hennar á verkefnisins.