Skip to main content
27. nóvember 2024

Valin til þátttöku í hópi nýrra kvenleiðtoga

Valin til þátttöku í hópi nýrra kvenleiðtoga - á vefsíðu Háskóla Íslands

Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild HÍ, er í hópi 50 kvenna víða að úr heiminum sem hefur verið boðið að taka þátt í Global Community for Women's Leadership, alþjóðlegri áætlun sem miðar að því að þjálfa og styðja nýja kynslóð kvenleiðtoga í heiminum til frekari afreka.

Þetta er í fyrsta sinn sem slíkur hópur er valinn en það eru óhagnaðardrifnu samtökin Institute of International Education (IIE) sem standa á bak við verkefnið. Samtökin hafa í yfir heila öld boðið upp á fjölbreytt verkefni, áætlanir og styrki sem miða að því að tengja fólk víða að úr heiminum saman til að skiptast á hugmyndum og læra hvert að öðru. Þekktust áætlananna hér á landi er án efa Fulbright-áætlunin en fjölmargt íslenskt fræðafólk og nemendur hafa notið stuðnings hennar til rannsókna og náms. 

Þeirra á meðal er Silja Bára en hún var fyrir nokkrum árum valin til þátttöku í Fulbright Arctic Initiative III (FAI), áætlun sem hefur það að markmiði að styrkja alþjóðlegt vísindasamstarf á sviði norðurskautsfræða. 

Á grundvelli þátttöku hennar í því verkefni bauðst Silju Báru að sækja um að taka þátt í Global Community for Women's Leadership (GCWL), áætlun sem er fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Hún miðar að því að minnka kynjabilið í hópi leiðtoga á heimsvísu með því að veita hópi kvenna tækifæri til þess að styrkja sig í starfi í gegnum fjölbreytta þjálfun og með eflingu tengslanets.

Bent er á það á vef GCWL að miðað við spár Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðaefnahagsráðsins muni jafnrétti á vinnumarkaði í heiminum að óbreyttu ekki nást á næstu 150 árum. Aðeins einn af hverjum þremur stjórnendum í heiminum sé kona. Við þessu vilja IIE-samtökin bregðast með því að tengja saman konur víða að úr heiminum með fjölbreytta menntun og bakgrunn og bjóða þeim að taka þátt í áætlun sem ætlað er að auðvelda þeim að taka að sér og dafna í leiðtogahlutverkum víða um heim og stuðla að jákvæðum breytingum.

Fimmtíu konur frá 30 mismunandi löndum skipa þennan fyrsta hóp GCWL. A sögn Silju Báru fylgir aðildinni fjárhagsstuðningur til að sækja leiðtogaþjálfun, ýmis fræðsla og tengslanet. „Það er frábært að fá þetta tækifæri. Fyrsti fundur hópsins verður með einum æðsta stjórnanda Ford Foundation í Bandaríkjunum og ég vonast til að læra og fræðast af samtölum við aðrar konur í hópnum í gegnum þetta tengslanet. Fjárhagslega styrknum er svo ætlað að tryggja að við getum tekið þátt í námskeiðum og ég stefni á námskeið um forystu í æðri menntastofnunum í Bandaríkjunum fljótlega á næsta ári,“ segir Silja Bára.

Silja Bára Ómarsdóttir