Skip to main content

Reglur varðandi mat á eldri prófum og endurinnritun

Reglur varðandi mat á eldri prófum og endurinnritun - á vefsíðu Háskóla Íslands

Reglur um mat á eldri prófum við endurinnritun, vegna fyrra háskólanáms og valnámskeiða við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Samþykktar á deildarfundi 13.09.2024.

Reglur þessar eru settar fram til að skýrt sé kveðið á um mat á fyrri námskeiðum á háskólastigi og þegar endurinnritun á sér stað. Umsóknir um mat samkvæmt reglum þessum skulu berast til námsbrautarstjóra eigi síðar en viku fyrir síðasta dag til að endurskoða námskeiðaskráningu skv. kennslualmanaki. Deildarstjórar M&N deildar fara með þessi mál og úrskurðar samkvæmt þessum reglum í samráði við námsbrautarstjóra.

Nemanda sem ekki hefur staðist námskröfur í Matvæla- og næringarfræðideild (hefur til dæmis tvífallið í námskeiði og ekki fengið undanþágu til þriðju próftöku) skal bent á að hann getur sótt um að endurinnritast í deildina.

Nemendur sem teknir hafa verið inn í BS eða MS nám í matvæla- og næringarfræði geta óskað eftir að fá fyrra nám metið.

1. gr. Forsendur mats 

Nemandi sem endurinnritast getur sótt um að fá metið þau námskeið sem hann hefur lokið með einkunn sem er einum heilum yfir lágmarkseinkunn viðkomandi greinar. 
Nemendur, sem fallið hafa út úr deildinni, geta við endurinnritun óskað eftir mati á fyrri prófum sem eru yngri en fimm ára ef þeir hafa fengið einkunn sem er einum heilum hærri en lágmarkseinkunn viðkomandi greinar. Einingafjöldi námskeiðsins er a.m.k. jafn mikill og þess námskeiðs sem það á að jafngilda. Þá skal námskeiðið samsvara a.m.k. 2/3 hlutum af innihaldi þess námskeiðs sem það á að jafngilda. Ef námskeiðið er að fullu sambærilegt er það metið beint. 
Ef nemandi endurinnritast er honum heimilt að skrá sig í hvaða námskeið sem er á þeim árum sem hann hefur fengið námskeið metin af með fyrirvara um forkröfur.

2. gr. Mat á fyrri prófum úr námsgráðu í fræðigrein sem viðkomandi hefur starfað við

Til undantekningar frá ákvæði 1. greinar má viðurkenna fyrri próf sé það eldra en 5 ára, sé um að ræða námsgráðu í fræðigrein sem viðkomandi hefur lokið háskólaprófi í og síðan starfað við greinina til þess tíma er hann sækir um viðurkenningu prófanna.

3.gr. Mat á matvæla- og næringarfræðinámi erlendis

Til undantekninga frá ákvæði 1. greinar telst að nemendur sem stundað hafa samfellt nám erlendis, sem Matvæla- og næringarfræðideild telur sambærilegt námi við Háskóla Íslands í samvinnu við matskrifstofu um annað nám. Þeir geta fengið próf sín þaðan viðurkennd og haldið áfram námi.

4.gr. Mat á öðru háskólanámi inn í BS-nám í matvæla- og næringarfræði 

Nemendur sem hafa stundað annað háskólanám geta fengið allt að 120 einingar úr jafngildum námskeiðum metnar inn í BS nám í matvæla- og næringarfræði að uppfylltum reglum Matvæla- og næringarfræðideildar. Sömu reglur eiga við um mat á öðru háskólanámi inn í BS-nám í matvæla- og næringarfræði og ákvæði 1. greinar segir til um hér að ofan. Nemandi skal sækja skriflega um slíkt mat til Matvæla- og næringarfræðideildar þar sem fram kemur hvaða námskeið þeir óska eftir að fá metin inn til jafns við ákveðin námskeið matvæla- og næringarfræðinámsins. 

Matvæla- og næringafræðadeild