Flutningar í Sögu á nýju ári
Upplýsingafundur fyrir starfsfólk Menntavísindasviðs um húsnæðismál sviðsins fór fram 18. nóvember í Stakkahlíð. Kristján Garðarsson, arkitekt hjá Andrúm sem hefur yfirumsjón með hönnun nýrrar Sögu, fór yfir stöðu framkvæmda og sýndi nýlegar myndir af gangi þeirra. Rektor ávarpaði fundargesti, Kolbrún Þ. Pálsdóttir, sviðsforseti fór yfir sýn og stefnu sviðsins, Svavar Jósefsson, rekstrarstjóri fór yfir næstu skref í flutningum. Í lok fundar gafst svigrúm til umræðna.
Framtíð menntavísinda á aðalsvæði HÍ
Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, ávarpaði fundargesti og benti á að verkefnið væri umfangsmikið og að bratt hefði verið að áætla flutning í húsið innan 30 mánaða síðan kaupin voru gerð árið 2021. Hann taldi mikilvægt að flutningur drægist ekki enn frekar og þakkaði starfsfólki langlundargeð við þessar aðstæður sem væru flóknar. Flutningur sviðsins hafi verið á dagskrá allt frá því árinu 2008 þegar Kennaraháskóli Íslands sameinaðist HÍ. Kolbrún Þ. Pálsdóttir ræddi um þann ávinning sem mun verða af því starfsemin verði á aðalsvæði háskólans. Hún minnti á að undirbúningur að flutningi hafi staðið yfir í tvö ár og á þeim tíma hafi verið unnið markvisst að framtíðarsýn og tækifærum tengd flutningi í Sögu, meðal annars hafi sviðsþing verið nýtt til að móta sýn á hið nýja kennslu og námsumhverfi, aukin tækifæri tengd rannsóknum og umgjörð þeirra og um mikilvægi þess að Saga verði vettvangur fyrir fagfólk á sviði menntunar og þangað eigi margir erindi. Fram undan væri sviðsþing sem helgað sé vinnustaðnum og því starfsumhverfi sem við viljum móta saman í Sögu.
Hönnun og staða framkvæmda
Kristján arkitekt sagði ýmsar skýringar á töfum við framkvæmdir hússins sem ættu sér eðlilegar ástæður. Hann ítrekaði að öll áhersla væri á að við hönnun og framkvæmd verksins væri litið til framtíðar, að enginn afsláttur gefinn af gæðum í frágangi. Til að mynda sé nú búið að endurbyggja Grillið á 8. hæð hússins algerlega vegna þess ástands sem var á ytra byrði. Kristján benti á að allt kapp sé lagt á að láta upprunalega hönnun byggingar njóta sín um leið og hún er betrumbætt í takti við nýjar þarfir.
Segja má að flestar hæðir hússins hafi fengið mikla yfirhalningu enda verið að breyta hóteli í háskóla. Kristján sýndi stafrænar myndir af því hvernig ákveðin rými muni geta litið út þegar búið er að setja inn húsgögn og tæki. Sú hæð sem mun breytast hvað mest er kjallarinn eða neðsta hæð hússins en búið er að grafa tvo ljósgarða, annan minni á móti Þjóðarbókhlöðu og hinn mun stærri við austurhlið sem snýr út að Suðurgötu. Þessir ljósgarðar hleypa inn dýrmætu dagsljósi á jarðhæð þar sem ráðgert er að koma fyrir kennslurýmum, meðal annars smíða- og hönnunarrými og hreyfirými fyrir íþróttafræðina.
Stefnt er að því að húsnæðið verði tilbúið að innan í lok mars og þá er hægt að byrja að undirbúa starfsemi sviðsins í húsinu. Fyrir utan bygginguna stendur nú yfir nauðsynlegur frágangur til að tryggja aðgengi að byggingunni. Frekari framkvæmdir á lóðinni bíða þar til niðurstaða liggur fyrir um þróunaráætlun HÍ og skipulag Reykjavíkurborgar á svæðinu.
Upplýsingafundur fyrir starfsfólk Menntavísindasviðs um húsnæðismál sviðsins fór fram 18. nóvember í Stakkahlíð.
Aðstaða á vormisseri 2025 og undirbúningur flutninga
Svavar Jósefsson, rekstrarstjóri MVS, ræddi praktísk atriði varðandi flutninginn. Áætlað er að kennsla á vormisseri verði í Stakkahlíð, Skipholti, Laugardal og í Árnagarði. Menntavísindastofnun flutti í Aragötu 14 um miðjan nóvember og Nýmennt muni mögulega flytja þangað líka. Uppfærð verkáætlun fyrir framkvæmdir í Sögu stefni að verklokum innanhúss á öllum hæðum (fyrir utan Grillið) í mars 2025. Svavar ítrekaði að undirbúningur að flutningi væri í fullum gangi: Innkaup og mátun húsgagna inn í Sögu eru í vinnslu, bókunarkerfi Gobright.com verði uppsett fyrir fundarherbergi, næðisrými og deiliborð. Jafnframt bætti Svavar við að heimsóknir í Sögu verði settar á dagskrá á nýju ári, að útdeiling vinnurýma hafi farið fram innan deilda og að leiðbeiningar um flutninga og hlutverk starfsfólks í flutningi verði komið á framfæri til allra.
Fyrirspurnir og umræður voru í lok fundar. Spurt var m.a. um útfærslu á aðgangsstýringar að rýmum í Sögu, aðgengismál fyrir öll, hjólageymslur og fleira.