Rannsókn á kynjaskekkju í kennslukönnunum HÍ tilnefnd til verðlauna
Vísindagrein eftir fjóra prófessora við Háskóla Íslands, sem fjallar um kynjaskekkju í kennslukönnunum við skólann, hefur verið tilnefnd sem besta grein ársins hjá tímaritinu Higher Education Research & Development (HERD). Niðurstöður vísindarannsóknarinnar sýna að þrátt fyrir að Ísland sé þekkt fyrir að vera í fararbroddi í kynjajafnrétti í heiminum viðgengst kynjaskekkja í kennslukönnunum þar sem karlkyns nemendur meta kvenkyns kennara kerfisbundið lægra en karlkennara.
Greinin ber titilinn „Student evaluation of teaching: gender bias in a country at the forefront of gender equality“ sem útleggst á íslensku „Kennslukannanir nemenda: Kynjaskekkja í landi sem er í fararbroddi jafnréttismála“. Höfundar hennar eru Margrét Sigrún Sigurðardóttir, prófessor við Viðskiptafræðideild, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild, Anna Helga Jónsdóttir, prófessor við Raunvísindadeild, og Daði Már Kristófersson, prófessor við Hagfræðideild.
Greinin byggist á gögnum sem safnað var á fimm ára tímabili úr kennslukönnunum við Háskóla Íslands. Með blönduðum aðferðum, bæði megindlegum og eigindlegum, er dregin fram marktæk kynjaskekkja í því hvernig kennarar eru metnir. Niðurstöðurnar sýna að karlkyns nemendur eru líklegri til að gefa kvenkennurum lægri einkunnir en karlkennurum. Í athugasemdum kemur auk þess fram að karlar eru oft metnir á grundvelli sérfræðiþekkingar en konur fá frekar athugasemdir sem snúa að samskiptahæfni þeirra og þjónustulund.
Við Háskóla Íslands á að taka á tillit til kennslukannana við ákvarðanatöku, svo sem þegar um er að ræða nýráðningar og framgang í starfi. Þótt kynjaskekkjur í kennslukönnunum geti virst lítilvægar í hverju tilviki fyrir sig hafa þær samverkandi áhrif, þar á meðal áhrif á mat á háskólakennurum, konum í óhag. Höfundarnir vonast til að niðurstöður rannsóknarinnar verði hvati fyrir háskóla á heimsvísu til að skoða kennslukannanir með gagnrýnum augum og leita leiða til að koma í veg fyrir að kynjaskekkja hafi áhrif á ákvarðanatöku um framgang og mat á kennslugæðum.
„Rannsóknin sýnir að jafnvel í samfélagi eins og á Íslandi, sem er framarlega í jafnréttismálum, eru kynjaskekkjur enn við lýði. Þetta sýnir mikilvægi endurskoðunar á því hvernig við metum kennara og tryggjum að slíkt mat sé sanngjarnt og byggt á raunverulegum kennslugæðum, óháð kyni,“ segir Margrét Sigrún Sigurðardóttir, einn höfunda greinarinnar.
Um verðlaunin
Viðurkenning Higher Education Research & Development (HERD) fyrir bestu grein ársins er veitt árlega fyrir framúrskarandi vísindagreinar sem hafa mikil áhrif á sviði menntunar og kennslurannsókna. Verðlaunin eru styrkt af útgáfufyrirtækinu Routledge og fá verðlaunahafar 1.000 dollara verðlaunafé auk þess sem frítt aðgengi verður að vinningsgreininni í þrjá mánuði. Með þessu vilja skipuleggjendur stuðla að dreifingu nýjustu þekkingar innan háskólasamfélagsins og utan þess.