Skip to main content
8. nóvember 2024

„Það sem við lærum veltur á því hvernig við lærum“ 

„Það sem við lærum veltur á því hvernig við lærum“  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Í ljósi þess að menntamál hafa verið mikið til umræðu að undanförnu ýtir Menntavísindasvið HÍ úr vör fyrirlestraröðinni Menntakerfi á tímamótum: Alþjóðlegar áskoranir og tækifæri. Erlendir sérfræðingar stíga á stokk, ræða álitamál og viðfangsefni menntunar og kynna reynslu annarra þjóða. Á meðal viðfangsefna eru menntastefna, PISA, námsmat, samfélag sem styður við skóla, heilsuefling í skólum og fleira.  Fyrsta erindið – Future Fusion: Unleashing Creativity and Skills for Tomorrow´s Education (Sköpun og heildstæð hæfni fyrir menntun framtíðar) var flutt miðvikudaginn 6. nóvember í Hátíðasal Aðalbyggingar HÍ. Þar steig á stokk dr. Anne Bamford, gestaprófessor við Menntavísindasvið HÍ og vel þekktur sérfræðingur og leiðtogi á sviði menntunar frá Ástralíu. Bamford vann að umfangsmikilli úttekt á stöðu listkennslu á Íslandi árin 2009 til 2010 og hefur frá 2022 starfað sem ráðgjafi og gestaprófessor við Menntavísindasvið HÍ. Hún hefur einnig um árabil starfað sem ráðgjafi á sviði skapandi skólastarfs og listkennslu fyrir UNESCO og OECD. 

Sjá má upptöku af erindinu hér 

Bamford fjallaði í erindi sínu um hvort og þá hvað Norðurlandaþjóðirnar eigi sameiginlegt þegar kemur að menntakerfinu, stöðu Íslands með tilliti til PISA, bæði læsis og nýju könnunarinnar um skapandi hæfni nemenda. Hún fjallaði um mikilvægi sköpunar við kennslu og lagði áherslu á að nám sé skapandi ferli. „Það sem við lærum veltur að mestu leyti á því hvernig við lærum, í hvernig námsumhverfi og -andrúmslofti, tíma, takti og líflegri framsetningu. Grundvallarþættir í námi eru skynjun og sköpunargleði, ánægja og ævintýri af því að sjá og heyra, að prófa hlutina, líkja eftir, umbreyta í leik og ná fram nýjum áhrifum undir stýrðri leiðsögn – og auðvitað aftur og aftur, finna upp nýjar leiðir.“ 

Bamford benti á þá staðreynd að eingöngu 4% kennara á Íslandi séu undir 30 ára aldri og að kennarastéttin sé að eldast hratt. Hún benti á mikilvægi þess að hlúa að nýliðum í kennslu, það væri mikilvægra en aldrei fyrr. Í erindi hennar komu einnig fram sláandi niðurstöður þess efnis að 10% kennara sé „sammála“ eða „mjög sammála“ fullyrðingunni um að starfsgrein þeirra, kennarastarfið, sé metið í samfélaginu. Að sama skapi krefjist kennarastarfið þess að veita nemendum fjölbreytta hæfni og að námi loknu eigi einstaklingar að hafa öðlast mjög fjölbreytta hæfni, sem Anne hefur fjallað um sem “fusion skills” í samnefndri bók sinni. Slík hæfni felur meðal annars í sér: 

  • Samvinnu og teymisvinnu 
  • Sköpun og hugmyndaauðgi 
  • Gagnrýna hugsun og lausn vandamála 
  • Sveigjanleika og aðlögunarhæfni 
  • Alheims- og menningarvitund 
  • Upplýsinga- og tæknilæsi 
  • Forystu
  • Borgaralæsi og borgaravitund 
  • Munnlega og skriflega samskiptahæfni 
  • Samfélagsleg ábyrgð og siðferði 
  • Frumkvæði og rökhugsun 

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, var fundarstjóri. „Það er ákaflega mikilvægt að litið sé til alþjóðlegra strauma og reynslu annarra þjóða hvað varðar menntastefnu og rannsóknir á menntakerfum og skólastarfi. Þessi fyrirlestraröð á erindi til allra sem láta sig menntamál varða og mun varpa ljósi á að margar af þeim áskorunum, sem eru uppi í íslensku samfélagi, eru sameiginlegar með öðrum þjóðum.“ 

Hún bendir jafnframt á að umræða um menntamál hér á landi hafi undanfarið verið þung og átakamiðuð og sýni hve miklu máli menntakerfið skipti í íslensku samfélagi. „En ég hef verulegar áhyggjur af nýliðun í stétt kennara og það er brýn þörf á að auka virðingu í samfélaginu fyrir störfum þeirra. Því miður erum við í háskólanum farin að sjá færri sækja um í kennaranám en áður og það er þróun sem við verðum að breyta, ekki síðar en strax. Þetta er verkefni samfélagsins alls, stjórnvalda, sveitarfélaga og háskóla.“ 

Fyrirlesturinn var vel sóttur af fjölbreyttum hópi úr fræða- og fagsamfélaginu og annarra hagaðila. Þess má geta að viðburði var slitið tuttugu mínútum fyrr en til stóð þar sem baráttufundur Kennarasambands Íslands var boðaður kl. 16.30 í Háskólabíói. 

Næsti fyrirlestur fyrirlestraraðarinnar fer fram 4. desember í Eddu. Þar mun dr. Gert Biesta, prófessor í menntunarfræðum við Edinborgarháskóla og Maynooth University á Írlandi halda erindið What kind of society does the school need? A future for education beyond polarisation (Hvers konar samfélag þurfa skólarnir okkar?

Nánar um fyrirlestur Gert Biesta 4. desember hér 

Dr. Anne Bamford, gestaprófessor við Menntavísindasvið HÍ og vel þekktur sérfræðingur og leiðtogi á sviði menntunar.
Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs var fundarstjóri.
Viðburðurinn var vel sóttur af áhugasömu fagfólki.
Viðburðurinn var vel sóttur af áhugasömu fagfólki.
Kolbrún, forseti MVS og dr. Anne Bamford