Smiðjur og smakk tengt örverum á vegum fræðafólks HÍ
Hvað eiga súrdeigsbakstur, villigerjaður bjór, bokashi-moltugerð og skyr sameiginlegt? Örverur koma við sögu við gerð alls þessa og þessir hlutir eru jafnframt í brennidepli á nýrri sýningu um samlífi manna og örvera sem þverfræðilegur hópur fræðafólks innan og utan HÍ stendur að í Hönnunarsafni Íslands í Garðabæ. Hópurinn stendur fyrir viðburði á safninu fimmtudaginn 10. október þar sem samlífi okkar mannveranna við örverur eru gerð skil í gegnum fyrirlestra, smiðjur og smakk. Viðburðurinn er öllum opinn.
Sýningin í Hönnunarsafninu var opnuð í lok september en hún grundvallast á öndvegisrannsóknaverkefninu Samlífi manna og örvera í daglega lífinu sem fræðafólk í jafn ólíkum greinum og þjóðfræði, næringarfræði, líffræði og örverufræði hefur unnið að undir stjórn Valdimars Tr. Hafstein, prófessors í þjóðfræði við Háskóla Íslands, undanfarin þrjú ár. Sýningarstjóri er Ragnheiður Maísól Sturludóttir.
Sýningin, sem ber heitið „Örverur á heimilinu“, er nokkurs konar lokahnykkur rannsóknaverkefnisins og hluti af sýningarröðinni Heimsókn á Hönnunarsafni Íslands. Hún leiðir okkur inn í samstarf mannfólks við þessar örsmáu félagsverur, sem er að finna í svo að segja öllum hornum heimilisins. „Hún beinir kastljósinu að fjölbreyttri örveruflóru sem umlykur okkur og býr innra með okkur, því ólíka samstarfi sem við eigum við örverur í hversdeginum og er ætlað að hvetja fólk til frekara samstarfs við örverur dags daglega,“ segir í lýsingu sýningarinnar.
Til marks um hið mikla og nána samstarf manns og örvera þá er talið að meðalmanneskjan sé samsett úr um 30 þúsund milljörðum mannlegra fruma en 38 þúsund milljörðum örvera. „Þannig má segja að mannslíkaminn sé afrakstur af samstarfi ólíkra tegunda þar sem mennskt DNA er í minnihluta. Samstarf okkar við örverur á sér líka stað utan líkamans og teygir sig meðal annars inn á heimili okkar, til dæmis í formi moltugerðar og súrdeigsbaksturs,“ segja sýningarhöfundar.
Sýningin Örverur á heimilinu er nokkurs konar lokahnykkur rannsóknaverkefnisins Samlífi manna og örvera í daglega lífinu og er hluti af sýningarröðinni Heimsókn á Hönnunarsafni Íslands í Garðabæ. Hún leiðir okkur inn í samstarf mannfólks við þessar örsmáu félagsverur, sem er að finna í svo að segja öllum hornum heimilisins.
Innsýn í mikilvægi þarmaflóru og sögu skyrsins
Samhliða sýningunni standa aðstandendur rannsóknarinnar og Hönnunarsafnið fyrir fjölbreyttum viðburðum. Sá stærsti þeirra er Örverur/Mannverur: Fyrirlestrar, smiðjur og smakk sem fram fer fimmtudaginn 10. október kl. 13-16.30. Þar verður þessu mikilvæga samlífi gerð skil frá ýmsum sjónarhornum.
Gestir geta m.a. lært að gera bokashi-moltu með örverum, fengið innsýn inn í mikilvægi þarmaflórunnar, kynnt sér efnismenningu súrdeigsbrauðs og sögu íslenska skyrsins og heyrt um samstarf mannfólks og örvera innan hönnunarheimsins. Brugghúsið Grugg & Makk mun einnig gefa gestum að smakka villibjór bruggaðan með villtri örveruflóru úr íslenskri náttúru. Áhugasöm eru boðin hjartanlega velkomin en aðgangseyrir að safninu gildir.
Við þetta má bæta að sýningin „Örverur á heimilinu“ stendur til 17. nóvember á Hönnunarsafni Íslands.
Um rannsóknina Samlífi manna og örvera í daglega lífinu
Rannsóknin hlaut öndvegisstyrk úr Rannsóknasjóði Íslands árið 2021 og er samstarfsverkefni námsbrautar í félags-, mann- og þjóðfræði, námsbrautar í matvæla- og næringarfræði, MATÍS, Hönnunarsafns Íslands og Þjóðminjasafns Íslands.
Rannsakendur í verkefninu eru Áki G. Karlsson, Birna G. Ásbjörnsdóttir, Bryndís Eva Birgisdóttir, Eysteinn Ari Bragason, Helga Ögmundardóttir, Jón Þór Pétursson, Ragnheiður Maísól Sturludóttir, Sandra Smáradóttir, Signý Guðmundsdóttir, Sigurlaug Skírnisdóttir, Valdimar Tr. Hafstein og Viggó Þór Marteinsson.
Sýningin í Hönnunarsafninu var opnuð í lok september en hún grundvallast á öndvegisrannsóknaverkefninu Samlífi manna og örvera í daglega lífinu sem fræðafólk í jafn ólíkum greinum og þjóðfræði, næringarfræði, líffræði og örverufræði hefur unnið að undir stjórn Valdimars Tr. Hafstein, prófessors í þjóðfræði við Háskóla Íslands, undanfarin þrjú ár.