Sextíu milljóna styrkur til að búa til nýstárlegt námsefni um hvali og hafið
Marianne Helene Rasmussen, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík, og samstarfsfólk hennar hefur fengið veglegan styrk til að búa til stafrænt námsefni um hafið sem byggjast mun m.a. á myndefni úr rannsóknarleiðangrum um norðurhöf. Styrkurinn nemur 400.000 evrum, jafnvirði um 60 milljóna króna.
Styrkurinn kemur frá Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins og er vegna verkefnisins "Visual Storytelling for Ocean Education (ViSOE): developing an innovative digital resource to facilitate ocean education training, based on visual, personal stories from an Arctic sailing expedition".
Markmið ViSOE-verkefnsins að er leggja kennurum til nýstárlegt og myndrænt námsefni sem styrkir þekkingu og vitund nemenda um hafið og lífið í því. Námsefnið, sem verður aðgengilegt á netinu, verður bæði nýtt í kennaranámi og þá ætla aðstandendur þess einnig að þróa stutt námskeið um efnið fyrir starfandi kennara. Kennsluefnið er hugsað fyrir 12-14 ára nemendur og verður á ensku til að byrja með en markmiðið er að þýða það líka yfir á Norðurlandamálin.
„Ég tel mjög mikilvægt að auka aðgang að kennsluefni um hafið hér á landi. Flestir íbúar landsins búa við hafið og það er mjög mikilvægt að börn kynnist betur sjónum og lífinu sem þríst þar,“ segir Marianne.
Fylgst með háhyrningum og hnúfubökum á fæðustöðvum
Verkefnið kemur í kjölfar annars verkefnis sem Marianne vann að með hluta hópsins og naut stuðnings Nordplus-áætlunarinnar. „Þar notuðum við sýndarveruleika til þess að gefa nemendum innsýn í líf hvala og þá mengun sem ógnar þeim í heimshöfunum. Þar byggðum við m.a. á gögnum úr rannsóknaskipinu Barba. Við verðum ekki með sýndarveruleika í nýja verkefninu en munum byggja að hluta til á efninu sem þróað var í fyrr verkefninu,“ segir Marianne.
Þar að auki verður bætt við efni sem byggist á rannsóknarleiðagri sem er að hefjast. „Andreas Heide og samstarfsfólk í Barba-verkefninu (barba.no) leggur af stað í siglingu frá Skervöy í Norður-Noregi eftir um tvær vikur og mun safna myndbandsefni og öðru efni tengdu hafinu fyrir verkefnið á næstu mánuðum á svæðum þar sem háhyrningar og hnúfubakar eiga fæðustöðvar. Þau hafa fengið lánaða neðansjávarhljóðnema hjá okkur á Rannsóknarsetrinu á Húsavík og munu vonandi safna upptökum af hljóðum hvalanna sem geta nýst í kennsluefnið,“ segir Marianne og bætir við að starfsfólk Rannsóknasetursins hafi áður unnið með Andreas og efni úr því samstarfi verði einnig nýtt við þróun kennsluefnisins.
ViSOE- verkefnið er til þriggja ára og er unnið í samstarfi við háskólana í Stavanger og Árósum auk STEM Ísland (stemhusavik.is) sem staðsett er á Húsavík. „Alyssa Stoller frá Whale Wise samtökunum vann með okkur á Rannsóknasetrinu á Húsavík í Nordplus-verkefninu og hún mun einnig koma að þessu verkefni,“ segir Marianne enn fremur spurð um samstarfsfólk hér á landi.
Kennsluefnið úr fyrra verkefninu var m.a. prufukeyrt í Borgarhólsskóla á Húsavík og var einnig nýtt í Háskóla unga fólksins í vor en Marianne reiknar með að kennsluefnið nýja verði gert aðgengilegt skólum í gegnum samstarfið um STEM Ísland.