Skip to main content
30. september 2024

Háskerpumynd af bændasamfélaginu

Háskerpumynd af bændasamfélaginu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Út er komin bókin Ástand Íslands um 1700. Lífshættir í bændasamfélagi í ritstjórn Guðmundar Jónssonar, prófessors í sagnfræði við Háskóla Íslands. Bókin er unnin í samvinnu sjö sagnfræðinga og landfræðinga og hefur að geyma ellefu greinar um lífshætti og samfélag frá ólíkum sjónarhornum. Rannsóknarhópinn skipa, auk Guðmundar, Árni Daníel Júlíusson, sérfræðingur hjá Sagnfræðistofnun, Björgvin Sigurðsson, hugbúnaðarsérfræðingur og sagnfræðingur, Ingibjörg Jónsdóttir, dósent í landfræði, Ólöf Garðarsdóttir, prófessor í félagssögu, Óskar Guðlaugsson, doktorsnemi í sagnfræði, og Sigríður Hjördís Jörundsdóttir, skjalavörður á Þjóðskjalasafni.

Í bókinni eru birtar niðurstöður rannsóknarverkefnisins Undirstöður landbúnaðarsamfélagsins: Fjölskylda og heimilisbúskapur á Íslandi í byrjun 18. aldar, sem hófst árið 2017 með styrk frá Rannsóknasjóði RANNÍS. Bókin er ein rækilegasta rannsókn sem gerð hefur verið á lífsháttum og félagsgerð bændasamfélagsins gamla. Hún veitir háskerpumynd af fjölskyldum og heimilum, ólíkum tegundum býla og ábúðarkjörum, byggð og búsvæðum, eignarhaldi á jörðum og stéttaskiptingu. Þótt fáein ár séu í brennidepli rannsóknar er leitast við að setja mörg viðfangsefnin í stærra sögulegt samhengi og bera þau saman við aðstæður annars staðar á Norðurlöndum á 18. öld.

Ýmsar viðteknar skoðanir um „gamla bændasamfélagið“ eru teknar til gagnrýninnar skoðunar auk þess sem fjölmargar nýjar upplýsingar koma fram um mannlíf og samfélag í bókinni. Þeirra á meðal eru:

  • Ísland var ekki alfarið dreifbýlissamfélag heldur voru til allnokkur þéttbýl svæði, einkum á Snæfellsnesi og við sunnanverðan Faxaflóa.
  • Bændasamfélagið var margbrotnara og félagslega fjölbreyttara en almennt er talið.
  • Bændur á Íslandi voru ekki frjálsari en í öðrum nálægum löndum því hér voru við lýði miklar álögur og hömlur á leiguliða sem voru 96% búandi manna.
  • Eignaójöfnuður var afar mikill, ríkustu 10% heimila áttu 99% jarðeigna í einkaeign. Það stangast á við viðteknar hagfræðihugmyndir um að ójöfnuður hafi verið lítill í samfélögum fyrir tíma iðnvæðingar.
  • Þótt konur væru sjaldan húsráðendur og réttarstaða þeirra veikari en karla voru 36% allra bændaeigna (einkaeigna) í eigu kvenna.

Í bókinni eru birtar niðurstöður rannsóknarverkefnisins Undirstöður landbúnaðarsamfélagsins: Fjölskylda og heimilisbúskapur á Íslandi í byrjun 18. aldar, sem hófst árið 2017 með styrk frá Rannsóknasjóði RANNÍS.

Árin í kringum aldamótin 1700 eru í brennidepli rannsóknarinnar vegna þess að til eru einstakar skýrslur um þjóðarhagi frá þessum tíma. Rannsóknarnefnd á vegum Danakonungs, skipuð Árna Magnússyni og Páli Jónssyni Vídalín, lét taka saman manntal, kvikfjártal og bátatal 1703 og jarðabók 1702–1714, og eru þær aðalheimildir rannsóknarinnar. Úr þeim hefur verið smíðaður gagnagrunnur sem nefnist Gagnagrunnur um samfélags­gerð Íslands 1703 og mun hann nýtast sem fróðleiksbrunnur og öflugt rannsóknartæki. Í gagnagrunninum eru samtengdar og landfræðilega hnitaðar upplýsingar um mannfjölda, fjölskyldur og heimili, býli og jarðir, búfé, atvinnuvegi og búskap. Gagnagrunnurinn er aðgengilegur á slóðinni 1703.is.

Sögufélag gefur út bókina og er hún prýdd fjölda mynda, korta og taflna.

Í spilaranum hér að neðan er hægt að hlusta á viðtal við Guðmund Jónsson og Ólöfu Garðarsdóttur, prófessor í sagnfræði, en hún er höfundur kafla í bókinni sem fjallar um mannfjölda, fjölskylduna og heimili á tímum harðinda.

Guðmundur Jónsson, prófessors í sagnfræði, með bókina Ástand Íslands um 1700. Lífshættir í bændasamfélagi.
Guðmundur Jónsson og Ingibjörg Jónsdóttir kynna bókina og niðurstöður rannsóknarverkefnisins á Vísindavöku Rannís í Laugardalshöll.