Skip to main content
30. september 2024

Rýnt í umfjöllun fjölmiðla um frægt strokufangamál

Rýnt í umfjöllun fjölmiðla um frægt strokufangamál - á vefsíðu Háskóla Íslands

Á hverju sumri fæst fjöldi háskólanema við nýsköpunarverkefni undir leiðsögn fræðafólks Háskóla Íslands á ótal fræðasviðum. Nýsköpunarsjóður námsmanna veitir stuðning til verkefnanna sem geta ekki aðeins af sér frumlegar og áþreifanlegar lausnir af ýmsu tagi heldur varpa líka ljósi á ýmislegt sem betur má fara í íslensku samfélagi.

Egill Karlsson, meistaranemi við Háskólann í Hróarskeldu og fyrrverandi félagsfræðinemi við HÍ, vann í sumar verkefni undir leiðsögn Margrétar Valdimarsdóttur, dósents í félagsfræði við HÍ, þar sem hann rýndi í umfjöllun fjölmiðla um eftirminnilegt mál sem dró töluverðan dilk á eftir sér. Rannsóknin var unnin út frá svokallaðri frásagnarafbrotafræði (e. narrative criminology) en hún snýst um að til þess að skilja afbrot, og þá einkum viðbrögð við afbrotum, þurfum við að skoða sögurnar sem eru sagðar af afbrotum. „Fyrir félagsvísindi á Íslandi og þá sérstaklega afbrotafræði er frásagnarafbrotafræði áhugaverður vinkill á það hvernig fjölmiðlar og frásagnir geta haft áhrif á viðhorf og hegðun almennings,“ segir Egill.

Rannsókn Egils er svokölluð tilviksrannsókn (e. case-study) á frægu máli frá árinu 2022. „Í henni einblíni ég á fréttir og fréttaflutning af máli einstaklings sem flúði úr haldi lögreglunnar á leiðinni í Héraðsdóm Reykjavíkur. Maðurinn var mikið til umfjöllunar á þessum þremur dögum sem hann var á flótta og fjölmiðlum tíðrætt um langan brotaferil mannsins,“ segir Egill.

Á meðan maðurinn var á flótta hafði lögreglan tvisvar afskipti af ungum einstaklingi sem tengdist málinu ekki neitt. „Báðir einstaklingar eru dökkir á hörund og það hafði þau áhrif að lögreglan lokaði fyrir athugasemdir á opinberri Facebook-síðu sinni. Málið vakti mikla athygli og lögreglan var harðlega gagnrýnd og sökuð um kynþáttamiðaða löggæslu (e. racial profiling),“ rifjar Egill upp.  

Lögregla hafði samskipti við strokufanga og almenning í gegnum fjölmiðla

Kveikjan að verkefninu var að sögn Egils tvíþætt. „Í fyrra meistaranámi mínu við Háskólann í Lundi fékk ég annars vegar áhuga á frásagnarafbrotafræðinni og hins vegar á kenningum innblásnum af Michel Foucault, þá sérstaklega stjórnviskukenningum (e. governmentality) og taumhaldi, bæði formlegu og félagslegu. Ég fylgdist með fréttum um þetta tiltekna mál þegar það var í gangi og mér þótti áhugavert hversu mikið lögreglan biðlaði til almennings um aðstoð á sama tíma og hún var harðlega gagnrýnd fyrir aðgerðir sínar gagnvart saklausum unglingi. Einnig þótti mér áhugavert hvernig lögreglan hafði samskipti við strokufangann og almenning í gegnum fjölmiðla og hversu fljót yfirvöld voru að vísa á bug allri gagnrýni og firra sig frá ábyrgð,“ útskýrir hann.  
 

„Niðurstöður í þemagreiningu benda til að til þess að gera almenning að hluta til ábyrgan fyrir leitinni að strokufanganum var honum lýst sem hættulegum glæpamanni með langa brotasögu sem almenningi stafaði hætta af. Ábyrgðarhluti almennings var að upplýsa lögreglu um ferðir mannsins sem svo brást við þeim upplýsingum. Þegar aðgerðir lögreglunnar misfórust og hún handtók vitlausan mann gat hún borið fyrir sig að hún væri að fylgja ábendingum almennings og þannig fríað sig ábyrgð, að minnsta kosti að hluta til,“ segir Egill um niðurstöður sínar. 

Í rannsókninni greindi Egill bæði orðræðu og þemu í umfjöllun fjölmiðla um málið þá daga sem leitin að strokufanganum stóð yfir og sömuleiðis fréttir í framhaldinu af skýrslu Ríkislögreglustjóra um málið frá opnum fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis. 

Almenningur gerður ábyrgur fyrir leitinni að hluta

„Niðurstöður í þemagreiningu benda til að til þess að gera almenning að hluta til ábyrgan fyrir leitinni að strokufanganum var honum lýst sem hættulegum glæpamanni með langa brotasögu sem almenningi stafaði hætta af. Ábyrgðarhluti almennings var að upplýsa lögreglu um ferðir mannsins sem svo brást við þeim upplýsingum. Þegar aðgerðir lögreglunnar misfórust og hún handtók vitlausan mann gat hún borið fyrir sig að hún væri að fylgja ábendingum almennings og þannig fríað sig ábyrgð, að minnsta kosti að hluta til,“ segir Egill um niðurstöður sínar. 

Um þá staðhæfingu að lögreglan hafi beitt kynþáttamiðaðri löggæslu í leit sinni að manninum segir Egill að hún hafi komið frá fólki utan úr samfélaginu og það sé oft ólíklegt til þess að hafa áhrif á almenningsálit og samfélagsbreytingar. „Þeirri staðhæfingu var mætt með mótspyrnu af málsmetandi aðilum eins og fræðimönnum, dómsmálaráðherra og aðstoðarmanni hans og Ríkislögreglustjóra sem þvertóku fyrir slíkt,“ segir Egill.

Þegar talið berst að þýðingu niðurstaðnanna bendir Egill á að Ísland sé lítið og tiltölulega einsleitt land þótt vissulega sé það að breytast. „Hins vegar ættu einstaklingar úr minnihlutahópum ekki að þurfa að óttast að vera teknir í misgripum í aðgerðum lögreglunnar vegna útlits eða kynþáttar. Verkefnið gefur vísbendingar um að samskipti lögreglu við almenning fyrir tilstilli fjölmiðla væri mögulega hægt að bæta ef svipað mál kemur aftur upp,“ segir Egill.

Margret

Margrét, leiðbeinandi Egils, bendir á að hún meti mikils tækifærið til að leiðbeina nemendum í að vinna að áhugaverðum rannsóknarverkefnum. „Með því að taka þátt í rannsóknum og nýsköpun yfir sumarið leggja nemendur sitt að mörkum til fræðasviðsins á sama tíma og þeir fá mikilvæga reynslu,“ segir hún.

Egill Karlsson