Skip to main content

Doktorsvörn í stjórnmálafræði: Ágúst Hjörtur Ingþórsson

Doktorsvörn í stjórnmálafræði: Ágúst Hjörtur Ingþórsson - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
17. október 2024 14:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Ágúst Hjörtur Ingþórsson ver doktorsritgerð sína í stjórnmálafræði við Stjórnmálafræðideild Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands. Vörnin fer fram fimmtudaginn 17. október kl. 14 í Hátíðarsal Háskóla Íslands.

Ritgerðin ber heitið Opinber vísinda- og tæknistefna á Íslandi: Vísinda- og tækniráð 2003-2023. Ritgerðin er skrifuð á íslensku og fer vörnin fram á íslensku og er öllum opin.

Andmælendur eru dr. Gunnlaugur Magnússon dósent í Deild menntunarfræða við Uppsalaháskóla og dr. Halla Thorsteinsdóttir stjórnandi og stofnandi rannsóknar- og ráðgjafarstofunnar Small Globe Inc. og prófessor aðjúnkt við Háskólann í Toronto.

Aðalleiðbeinandi var dr. Ómar Hlynur Kristmundsson, prófessor í opinberri stjórnsýslu við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands. Auk hans voru í doktorsnefndinni dr. Jón Torfi Jónasson, prófessor emeritus við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og dr. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir prófessor í opinberri stjórnsýslu við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands.

Stjórnandi athafnar er Eva Marín Hlynsdóttir forseti Stjórnmálafræðideildar Háskóla Íslands.

 

Um rannsóknina:

Rannsóknin fjallar um opinbera stefnumótun á Íslandi í byrjun 21. aldar. Sjónum er beint að vísinda- og tæknistefnu Íslands frá því að stofnað var til Vísinda- og tækniráðs árið 2003 og þar til það var lagt niður árið 2023. Ráðinu var ætlað að bæta stefnumótun og stjórn­sýslu mála­flokksins og lyfta honum á hærra stjórnsýslustig með því að leiða saman ráðherra, hags­muna­aðila og starfsfólk stjórnsýslunnar. Ráðinu var falið að móta formlega vísinda- og tæknistefnu á þriggja ára fresti, sem það gerði sex sinnum.

Í rannsókninni er spurt hvernig þessi áform stjórnvalda gengu eftir í ljósi stjórnsýslukenninga. Skýrt er hvers vegna ráðið var sett á laggirnar, lýst hvaða stefnu ráðið mótaði, hverjir höfðu mest áhrif á þá stefnumótun og hver meginþemu stefnunnar voru. Loks er rýnt í þær breytingar sem urðu varðandi einstök stefnumál á þeim tíma sem ráðið starfaði og þær bornar saman við þær stefnuáherslur sem ráðið lagði fram.

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að meginhvatinn að baki breytingunum árið 2003 hafi verið að auka pólitískt vægi stefnumótunar málaflokks vísinda og tækni sem aftur væri forsenda fyrir auknum fjárveitingum til hans. Þá hafi væntingar um aukna samhæfingu innan málaflokksins sem leitt gæti til aukinnar skilvirkni einnig verið hvati til breytinga.

Stefnumótun ráðsins þróaðist úr því að birt stefna var líkt og óskalisti yfir allt sem væri æskilegt yfir í opinbera stefnu sem fylgt var eftir með aðgerða­­áætlunum. Þeim aðilum sem höfðu áhrif á stefnumótunina fækkaði eftir því sem á leið og ráðu­neyti fengu aukið vægi. Sex meginþemu birtast þegar í fyrstu stefnu ráðsins sem eru: fjár­mögnun, skilvirkni, samstarf, mannauður, gæði og nýsköpun, og koma þau fyrir í öllum stefnuskjölum ráðsins eftir það.

Þá sýna niðurstöður rannsóknarinnar að vægi stefnunnar við ákvarðanatöku stjórnvalda var takmarkað á fyrri hluta tímabilsins þrátt fyrir setu ráðherra í ráðinu. Á seinni hluta þess hafi stefnan fengið aukið vægi þegar til aðgerða stjórnvalda kom. Frá 2014 var byrjað að setja fram sérstakar aðgerðaáætlanir með skýrari ábyrgð aðila á einstökum aðgerðum. Enn frekara skref var tekið með fjármálaáætlunum ríkisstjórna frá 2016 í samræmi við lög um opinber fjármál þar sem aðgerðir eru tengdar stefnuáherslum og fjármögnun.

Niðurstaða rannsóknarinnar er að Vísinda- og tækniráð hafi aðeins að hluta til staðið undir þeim væntingum sem gerðar voru til þess i upphafi. Það hafi reglubundið fjallað um stöðu og þróun málaflokksins og mótað stefnuáherslur og aðgerðir sem nýttar voru af stjórnvöldum sem efniviður við ákvarðanatöku. Sterkar vísbendingar eru um að breytingar á einstökum málefna­­sviðum hafi að nokkru og jafnvel verulegu leyti verið í samræmi við stefnu ráðsins og þar munar mest um auknar fjárveitingar til málaflokksins vegur mjög þungt. Hins vegar virðist ekki hafa tekist að skapa forsendur fyrir ákvarðanatöku um meiriháttar forgangsröðun eða kerfis­breytingar sem ráðið sjálft hafði kallað eftir og skýrist það af veikri stjórnsýslu og sterkri hagsmunagæslu. Á heildina litið hafði Vísinda- og tækniráð þó jákvæð áhrif á stefnumótun í málaflokknum.

Um doktorsefnið:

Ágúst Hjörtur Ingþórsson er með og MA gráðu í stjórnmálaheimspeki frá Háskólanum í Ottawa og BA gráðu í heimspeki og almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Ágúst er forstöðumaður Rannís, Rannsóknamiðstöðvar Íslands, skipaður í apríl 2022. Rannís hefur umsjón með innlendum samkeppnissjóðum og alþjóðlegu samstarfi á Íslandi á sviði rannsókna og nýsköpunar, menntunar og menningar og samræmir íslenska þátttöku í Evrópusamstarfi, norrænu og annað alþjóðlegt samstarf á þessum sviðum. Ágúst hóf störf hjá Rannís árið 2013 og gegndi starfi sviðsstjóra mennta- og menningarsviðs 2013-2020 og sviðsstjóra rannsókna og nýsköpunarsvið 2020-2022. Áður en hann hóf störf hjá Rannís hafði hann verið í forsvari fyrir Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands í 13 ár og starfað sem vísindafulltrúi í þrjú ár hjá Sendinefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu í Brussel.

Ágúst Hjörtur Ingþórsson er með og MA gráðu í stjórnmálaheimspeki frá Háskólanum í Ottawa og BA gráðu í heimspeki og almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands.

Doktorsvörn í stjórnmálafræði: Ágúst Hjörtur Ingþórsson