Sex nýir lektorar ráðnir við Menntavísindasvið
Sex nýir lektorar hófu nýverið störf á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Lektorarnir eru ráðnir til starfa við þrjár deildir sviðsins; Deild faggreinakennslu, Deild kennslu- og menntunarfræði og Deild menntunar og margbreytileika.
Eftirtalið starfsfólk var ráðið til starfa:
Björn Rúnar Egilsson er nýr lektor við Deild kennslu- og menntunarfræða. Björn Rúnar er doktor í menntavísindum frá Háskóla Íslands árið 2022. Björn lauk BA-prófi í heimspeki við Háskóla Íslands 2010 og MA-prófi í sama fagi við King’s College London 2012. Hann hóf störf við Menntavísindasvið 2017. Björn hefur lagt stund á rannsóknir og kennslu á sviði þáttaskila leik- og grunnskóla barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn, viðhorfa foreldra, fullgildis í leikskólasamfélaginu og heimspeki með börnum.
Eva Harðardóttir er nýr lektor við Deild menntunar og margbreytileika. Eva er doktor í menntavísindum frá Háskóla Íslands árið 2023. Eva hefur starfað sem kennari og rannsakandi við Menntavísindasvið með hléum frá árinu 2010. Hún hefur einnig starfað sem framhaldsskólakennari, sem sérfræðingur á sviði menntunar fyrir UNICEF í Malaví auk þess að sinna sjálfstæðum rannsóknarverkefnum og ráðgjöf. Rannsóknir Evu snúa að markmiðum menntunar í samtíð og framtíð, hnattrænni borgaravitund barna og ungmenna, inngildingu og menningarlegum margbreytileika.
Guðrún Björg Ragnarsdóttir er nýr lektor við Deild kennslu- og menntunarfræða. Guðrún Björg er doktor í menntavísindum frá Háskóla Íslands árið 2023. Guðrún Björg lauk B.Ed prófi frá Háskóla Íslands árið 2002 í grunnskólakennarafræðum og M. Ed árið 2011 í náms- og kennslufræði. Hún starfaði sem grunnskólakennari frá 2002 til 2018 og hefur starfað sem kennsluráðgjafi hjá Reykjavíkurborg frá árinu 2018. Helstu rannsóknarsvið hennar eru; líðan og sjálfsmynd nemenda, sérkennsla, námserfiðleikar, hegðunarerfiðleikar, læsi, lestrarerfiðleikar, orðaforði og lesskilningur.
Heimir Freyr Viðarsson er nýr lektor við Deild faggreinakennslu. Heimir Freyr er doktor í íslenskri málfræði frá Háskóla Íslands árið 2019. Hann er með BA-próf (2006) og MA-próf (2009) auk þess sem hann var í skiptinámi við Trektarháskóla (2007-2008) og gestarannsakandi þar árin 2014 og 2016, við Leidenháskóla árið 2015 og Kölnarháskóla 2018, auk þess að kenna íslensku við Amsterdamháskóla árið 2010, við Gentarháskóla árið 2020 og við Menntavísindasvið HÍ árið 2017, 2021-2024. Helstu rannsóknarsvið hans eru menntunarleg málvísindi, einkum snertifletir við tilbrigðamálfræði og félagsmálvísindi, setningafræði og málstöðlun.
Katrín Ólafsdóttir er nýr lektor við Deild faggreinakennslu. Katrín er doktor í menntavísindum frá Háskóla Íslands árið 2022. Í doktorsverkefni sínu lagði hún áherslu á gagnrýnin fræði, en fyrri menntun hennar er á sviði félagssögu. Katrín er menntaður framhaldsskólakennari og starfaði áður við Verzlunarskóla Íslands. Frá 2018 hefur Katrín sinnt rannsóknum og kennslu á Menntavísindasviði, nú síðast í starfi nýdoktors í alþjóðlegu rannsóknarverkefni. Rannsóknir hennar hverfast um kynbundið ofbeldi og jafnréttismál í tengslum við skólastarf, vinnumarkað og samfélagslega umræðu.
Svava Björg Mörk er nýr lektor við Deild menntunar og margbreytileika. Svava Björg er doktor í menntavísindum frá Háskóla Íslands árið 2022. Svava Björg Mörk er með meistaragráðu í stjórnun menntastofnana og bakkalárgráðu í leikskólakennarafræðum. Hún starfaði sem lektor við kennaradeild við Háskólann á Akureyri áður en hún hóf störf á Menntavísindasviði en hefur komið að kennslu á Menntavísindasviði sem aðjúnkt og unnið sem verkefnisstjóri. Helstu rannsóknaráherslur hennar snúa að fagmennsku kennara, leiðsögn og stjórnun menntastofnana.
Menntavísindasvið býður þau öll hjartanlega velkomin til starfa.