Skip to main content
12. ágúst 2024

Föruneyti barna – nýtt verkefni í samvinnu HÍ og stjórnvalda

Föruneyti barna – nýtt verkefni í samvinnu HÍ og stjórnvalda - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þróunarverkefnið Föruneyti barna - samstarf um stuðning við uppeldi og nám var sett af stað af mennta- og barnamálaráðherra í febrúar 2023 í samstarfi við Háskóla Íslands. Anna Magnea Hreinsdóttir, lektor við Menntavísindasvið, hefur faglega umsjón með því. Samstarfsverkefninu verður fylgt eftir með rannsókn á áhrifum þess á börn og foreldra en einnig mögulegum hagrænum áhrifum en Lóa Guðrún Gísladóttir, doktorsnemi við Menntavísindasvið, rannsakar það í doktorsverkefni sínu.
Mennta- og barnamálaráðuneyti birti frétt á dögunum þar sem fram kom að foreldrafræðsla sé liður í grunnþjónustu sem á að vera aðgengileg öllum börnum og foreldrum í anda löggjafar um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Á dögunum hlutu 25 leiðbeinendur frá Akranesi og víðar þjálfun í að halda námskeiðin. „Um ræðir tveggja ára samstarfsverkefni sem nefnist Föruneyti barna – samstarf um stuðning við uppeldi og nám og er liður í innleiðingu laga um þjónustu í þágu farsældar barna. Markmið námskeiðanna er að valdefla foreldra í uppeldishlutverki sínu og efla þjónustu við börn og foreldra. Ákveðið var að styðjast við fræðsluefnið Tengjumst í leik (e. Invest in Play) en það byggir á leiðum sem efla sjálfsöryggi, meðvitund, sjálfstjórn og samskiptafærni foreldra,“ segir Anna Magnea og að mikilvægur þáttur verkefnisins felist í að styrkja samstarf skólasamfélagsins og foreldra.

Tilgangurinn með því er að valdefla foreldra í hlutverki sínu og vinna þannig að snemmtækum stuðningi í grunnþjónustu barna og foreldra.

„Ég leyfi mér að vitna í skrif Gunnars Hersveins sem segir að „börn þurfi föruneyti, ráð og leiðbeiningar“. Í föruneyti barna eru ekki aðeins vinir og vandamenn, heldur einnig aðrir samferðamenn og stofnanir. Stjórnvöld sem búa fjölskyldunni markvisst betra umhverfi eru í föruneyti barna og vinnuveitendur sem gæta þess að vera ekki of aðgangsharðir gagnvart frítíma foreldra eru því hliðhollir. Áhersla hefur verið lögð á að tengja fræðslu og ráðgjöf við foreldra um uppeldi barna við leik- og grunnskóla og skólaþjónustu sveitarfélaga. Er talið að vettvangur skólasamfélagsins sé best til þess fallinn að sinna slíkri fræðslu og leiðsögn og fylgja henni eftir, þar sem starfsfólk leik- og grunnskóla, ásamt starfsfólki skólaþjónustu er í reglulegum samskiptum við börn og foreldra. Tilgangurinn með því er að valdefla foreldra í hlutverki sínu og vinna þannig að snemmtækum stuðningi í grunnþjónustu barna og foreldra. Þannig er komið í veg fyrir ýmsan vanda sem hægt er að fyrirbyggja með fræðslu og stuðningi við foreldra í uppeldi barna sinna,“ segir Anna Magnea sem segir markmiðið jafnframt endurspegla réttindi barna og foreldra og þær áherslur sem birtast í lögum um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna um að öll þjónusta í þágu barna skuli fara fram samkvæmt því sem barni er fyrir bestu.

Þegar hún er spurð út í nýnæmi og fyrirhuguð áhrif verkefnisins segir hún að þróunarfasi verkefnisins hafi hafist sl. haust með þátttöku um 60 leikskóla og grunnskóla víðs vegar um landið um samstarf um fræðslu til foreldra um uppeldi og nám barna á reglulegum umræðufundum. Leitað var að heppilegu námsefni og var fræðsluefnið valið þar sem það byggist á leiðum sem efla sjálfsöryggi, meðvitund, sjálfstjórn og samskiptafærni foreldra. Efnið byggist á gagnreyndum aðferðum og þátttöku í alþjóðlegum rannsóknarhópi. Gerð hafi verið íslensk myndbönd sem nýtt verða í námskeiðum fyrir foreldra og námsefnið þýtt á íslensku. 

Rannsóknir hafa sýnt að fræðsla fyrir foreldra eykur uppeldisfærni og sjálfstraust þeirra og leiðir til þess að þeir nota meira af jákvæðum uppeldisaðferðum.
„Farsælast er að nýta vettvang leik- og grunnskóla til að veita þá fræðslu og leiðsögn og stuðla þannig að markvissu samstarfi við foreldra og börn sem einkennist af gagnkvæmri virðingu og trausti. Námskeiðin verða foreldrum að kostnaðarlausu í þróunarfasanum og munu fleiri sveitarfélög bætast í hópinn á næstu mánuðum. Rannsóknir hafa sýnt að fræðsla fyrir foreldra eykur uppeldisfærni og sjálfstraust þeirra og leiðir til þess að þeir nota meira af jákvæðum uppeldisaðferðum. Þá sýna börn aukna jákvæða hegðun og það dregur úr erfiðum samskiptum. Þá er þjóðfélaglega hagkvæmt að ráðast í öfluga fræðslu og stuðning við foreldra í uppeldishlutverkinu sínu með reglulegum hætti í gegnum alla skólagöngu barna. Því er fræðsla og leiðsögn starfsfólks skóla og skólaþjónustu til foreldra arðbær langtímafjárfesting sem bætir afkomu hins opinbera til framtíðar litið,“ segir Anna Magnea. Þess ber að geta að verkefnastjórn sinnir Elsa Borg Sveinsdóttir.

Lóa Guðrún Gísladóttir, doktorsnemi við Menntavísindasvið, er um þessar mundir að rannsaka í doktorsverkefni sínu innleiðingu námskeiðsins Tengjumst í leik ( e. Invest in play) og þýðingu foreldrafræðslu fyrir velferð foreldra og barna. „Eitt af markmiðum rannsóknarinnar er að leggja mat á innleiðingarferli námsefnisins og námskeiðsins. Jafnframt skoða áhrif foreldrafræðslunnar Tengjumst í leik hér á landi með blandaðri rannsókn með megindlegri og eigindlegri rannsóknaraðferð. Einnig skoða áhrif fræðslunnar á foreldra og börn með áherslu á velferð; líðan, tilfinningalega stjórn og félagsfærni. Notaðir verða meðal annars staðlaðir spurningalistar og þá verður farið á dýptina með eigindlegri rannsóknaraðferð til þess að fá dýpri og betri skilning á upplifun foreldra,“ segir Lóa Guðrún og bætir jafnframt við að rannsóknin muni nýtast áfram til stefnumótunar hér á landi sem tengjast börnum og fjölskyldum. 

Það er því gríðarlega mikilvægt að fylgja verkefnum eftir með rannsóknum til að meta framvindu og árangur
„Með rannsókninni mun ég leggja mitt af mörkum til rannsókna á foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf hér á landi sem og á alþjóðavettvangi þar sem ég mun bera niðurstöður saman við niðurstöður erlendra rannsókna. Jafnframt að auka þekkingu á íhlutunum og stuðningi við foreldra og aðra uppeldisaðila. Niðurstöður verða meðal annars nýttar fyrir stefnumál hér á landi sem tengjast börnum og fjölskyldum, með þeim getum við metið gengi, sem styrkir faglegan grunn verkefnisins – því við viljum nota forvarnir og inngrip sem virka. Í doktorsverkefninu verður einnig rýnt í innleiðingarferlið og menningarnæmni námskeiðanna sem er mikilvægur þáttur í farsælli innleiðingu og verða þær niðurstöður hagnýttar til að bæta og efla innleiðingarferlið hér á landi, halda áfram með það sem virkar vel og bæta og breyta því sem þarf. Það er því gríðarlega mikilvægt að fylgja verkefnum eftir með rannsóknum til að meta framvindu og árangur,“ segir Lóa Guðrún.

Lesa má einnig um verkefnið á vef stjórnarráðsins 

Anna Magnea Hreinsdóttir Anna Magnea Hreinsdóttir, lektor við Menntavísindasvið hefur faglega umsjón með verkefninu.
Lóa Guðrún Gísladóttir, doktorsnemi við Menntavísindasvið rannsakar þróunarverkefnið í doktorsverkefni sínu.