Skip to main content
27. júní 2024

Eru stórmót í íþróttum pólitískur hvítþvottur?

Eru stórmót í íþróttum pólitískur hvítþvottur? - á vefsíðu Háskóla Íslands

Margir sitja fastir við skjáinn þessa dagana og fylgjast með bestu knattspyrnumönnum álfunnar etja kappi í Evrópumóti landsliða. Hér er um að ræða risaviðburð enda er knattspyrna vinsælasta íþrótt í heimi. En alþjóðleg íþróttamót sem eru í deiglunni á hverjum tíma hafa ýmsar hliðar sem blasa ekki allar við. Sumt í íþróttum er ekki bara samofið menningunni heldur stjórnmálunum líka og þetta er nú til rannsóknar í Háskóla Íslands. 

„Ég er að rannsaka pólitíska þýðingu stórra íþróttaviðburða, eins og Evrópu- og heimsmeistarakeppninnar í fótbolta og Ólympíuleikanna. Nálgun mín er sú að meta minni almennings hvað varðar þessi mót og einnig miðlun sem þeim tengjast. Rannsókin mín nær til viðburða sem haldnir eru af fleiri ríkjum en einu samtímis, eins og síðasta Evrópumót karla í fótbolta, eða haldnir af einu þjóðríki alfarið. Í því samhengi er ég með til skoðunar viðburði sem eru skipulagðir af lýðræðisríkjum andspænis einræðisríkum.“ Þetta segir Vitaly Kazakov, nýdoktor við Háskóla Íslands, um áhugaverða rannsókn sem hann nú vinnur að og tengist íþróttum og alls kyns áskorunum af pólitískum toga. Rannsóknin er unnin við Hugvísindasvið skólans en hún er styrkt af RANNÍS.

Vitaly er fæddur í Rússlandi en hann ólst upp í Kanada og hefur því víða sýn á viðfangsefni sín. Hann segir að stórmót á sviði íþótta veki gríðarlegan áhuga meðal almennings og fjölmiðla sem eigi sér enga hliðstæðu. Þessi mót fangi þó ekki bara athygli heldur leiði þau af sér gríðaleg útgjöld og fjárfestingu samhliða því að kalla fram heitar pólískar umræður og jafnvel átök. Vitaly segir að íþóttir og stjórnmál vefjist þannig saman á marvíslegan hátt, þar sé ákveðin víxlverkan á ferðinni þar sem pólitíkin hafi áhrif á íþóttirnar og öfugt.

„Þegar Rússar réðust inn í Úkraínu árið 2022 sá maður strax ákall í færslum fréttaveita á borð við BBC og Guardian í Bretlandi um að rússneskum íþóttaliðum yrði vísað úr alþjóðlegum mótum og að úrslitaleikur Meistaradeildarinnar í knattspyrnu, sem þá var áformaður í Pétursborg, yrði fluttur annað.“

Íþróttir, átök, kreppur og pólitík fléttast saman

Vitaly segir að þrátt fyrir hátt flækjustig þegar pólitískar áskoranir kallist á við stórmót í íþróttum þá sé fræðilegur munur á viðburðum sem eigi einhliða að kalla fram ánægju eins og íþróttamótum sé ætlað að gera og viðburðum sem hafi alfarið pólitískt yfirbragð og tengist hugsanlegum áskorunum, átökum, styrjöldum eða kreppum. „Það kemur því mjög á óvart að íþróttir eru oft ekki teknar alvarlega sem fræðilegt viðfangsefni þrátt fyrir gríðarlegt aðdráttarafl, áhuga almennings og mikla fjölmiðlaumfjöllun.“

Vitaly segir að veruleikinn sé stundum flókinn þegar þetta tvennt sé skoðað, pólitík og sport. Þannig hafi íslenska karlalandsliðið unnið sigur á því enska árið 2016 á EM í Frakklandi en viðbrögð Breta hafi virst fólgin í Brexit í pólitískum skilningi. Þá hafi Íslendingar og margar aðrar þjóðir flykkst til Rússlands á HM 2018 þrátt fyrir átök í austurhluta Úkraínu. Einnig hafi fólk verið á ferðinni um álfuna í tengslum við samevrópska Evrópumótið árið 2020 í miðjum heimsfaraldri. 

„Íþróttirnar, átökin, kreppurnar og áskoranirnar fléttast saman, ekki síst í fjölmiðlum. Það þarf að rýna í þetta flókna samband til að skilja mikilvægi þess. Við þurfum líka að skilja hver séu raunveruleg pólitísk áhrif helstu íþróttaviðburða og hvernig þeir móta skilning fólks á heimi stjórnmálanna í kringum það.“

„Íþróttaþvottur og mjúka valdið“

Vitaly er á fullri ferð í verkefninu þessa dagana og ekki skortir efniviðinn eða hvatninguna því íþróttamótin eru stöðugt í brennidepli fjölmiðlanna. Núna er t.d. ekki bara EM í gangi því á sama tíma eru bestu fótboltakarlar Suður-Ameríku að mætast á bestu grasbölum álfunnar. „Ég er nú samt að horfa aðeins aftur í tímann núna og skoða samspil Íslands, Englands og Rússlands á EM árið 2016, atburðarásina í Rússlandi árið 2018 og EM árið 2020. Þarna skoða ég skörun þessara miklu íþróttaviðurða við Brexit, stríðið milli Rússa og Úkraínumanna og svo COVID-19-heimsfaraldurinn. Ég er spenntur að sjá hvernig ólíkt umhverfi stjórnmála og fjölmiðla, ásamt reynslu frá þessum keppnum, mótar skilning almennings á íþróttaviðburðum annars vegar og á pólitískum áskorunum eða kreppum hins vegar,“ segir Vitaly.

Í rannsóknum sínum notar Vitaly hugtök eins og „mjúkt vald“ og „íþróttaþvott“ en það síðartalda tengist auðvitað hugtakinu „hvítþvottur“ sem við Íslendingar notum gjarnan eins og fleiri þjóðir. Hjá Árnastofnun er hugtakið „hvítþvottur“ skýrt á þann hátt að það sé langoftast notað í óeiginlegri merkingu um tilraun til að breiða yfir mistök eða misferli eða hreinsun á áburði um skaðlega eða saknæma starfshætti. Íþróttaþvotturinn er þá þess eðlis að íþróttin sjálf er notuð til að breiða yfir eitthvað sem á ekki að vera sýnilegt. „Mjúka valdið“ er á hinn bóginn ekki þvingandi heldur styðst við diplómatískar leiðir til að ná árangri, þar sem menning örvar breytingar frekar en valdbeitingin sjálf. 

Vitaly segist vilja sjá með rannsóknum mínum hvort íþróttaþvotturinn og mjúka valdið hafi varanleg áhrif fyrir löndin sem standi að sjálfum mótunum. „Ég vil skynja hvernig þessi áhrif koma fram. Ég vil að sama skapi skilja hvernig sportið er samtvinnað pólitískri þróun og áskorunum. Þetta vil ég gera til að hjálpa samfélögum að draga lærdóm af fyrri viðburðum á sviði íþrótta.“

„Ég hef nú þegar rætt við íþróttaaðdáendur, blaðamenn, íþrótta- og stjórnsýslusérfræðinga um minningar þeirra og reynslu frá þremur nýlegum mótum. Það hjálpar mér að skilja og útskýra varanleg pólitísk áhrif fyrir bæði samfélög sem hýstu þessa viðburði og almenning sem upplifði þá í eigin persónu eða með milligöngu fjölmiðla svo dæmi sé tekið,“ segir Vitaly. MYND/Unsplash/Connor Coyne

Erum við öll samsek með þátttöku?

„Fyrri rannsóknir mínar á pólitískri notkun Rússa á Ólympíuleikunum í Sochi árið 2014 og á HM í fótbolta árið 2018 benda til þess að mótin sjálf lifi á eigin forsendum og þjóni ekki sem verkfæri mjúks valds eða áróðurs á beinan hátt. Mótin hafa þannig í raun varanlega þýðingu fyrir hvernig almenningur túlkar stjórnmálaheiminn í kringum sig. Mig grunar að þetta muni einnig verða raunin í nýju rannsókninni en ég er spenntur að sjá hver sé munurinn á ólíku umhverfi stjórnmála og fjölmiðla í innlendu samhengi sem ég er einmitt að bera saman.“

Vitaly segir það mjög krefjandi spurningu hvort við séum öll samsek í íþróttaþvotti þegar við förum og njótum þess að horfa á kappleiki, eins og í Rússland árið 2018 eða í Katar árið 2022, þegar horft sé til þeirra miklu pólitísku álitamála sem þessi mót séu tengd. „Eða,“ spyr Vitaly sjálfur, „eru slíkir atburðir í raun og veru að hvetja til breytinga til hins betra og að knýja á um mikilvæg verkefni eftir diplómatískum leiðum í gegnum íþróttirnar?“

Spennandi framvinda 

Vísindamaðurinn segir að lítil áhersla hafi verið lögð á spurninguna um hvernig almenningur muni eftir slíkum atburðum og hver sé pólitískur arfur þeirra og hvernig þeim hafi verið miðlað? „Þess vegna er ég afar spenntur fyrir þessu verkefninu mínu og hef nú þegar rætt við íþróttaaðdáendur, blaðamenn, íþrótta- og stjórnsýslusérfræðinga um minningar þeirra og reynslu frá þremur nýlegum mótum. Það hjálpar mér að skilja og útskýra varanleg pólitísk áhrif fyrir bæði samfélög sem hýstu þessa viðburði og almenning sem upplifði þá í eigin persónu eða með milligöngu fjölmiðla svo dæmi sé tekið.“

Fyrir öll áhugasöm er hægt að fá nánari upplýsingar um rannsóknina í bloggum Vitalys þar sem viðtölin koma m.a. við sögu.
https://www.mis-translating-deceit.com/project-blog-and-news/sportswashi...
https://www.mis-translating-deceit.com/project-blog-and-news/sportswashi...

Vitaly hyggst taka fleiri viðtöl á svipuðum nótum í Englandi og hérlendis þar sem ljósum verður beint að sportinu og pólitískum þáttum í tengslum við íþróttamót hérlendis, í Englandi og Rússlandi.

Vitaly stóð einnig nýlega fyrir málþingi með Sagnfræðistofnun HÍ um íþróttir og hlutverk þeirra í utanríkisstefnu ríkja. Sjónum var sérstaklega beint að hagsmunaaðilum og hlutverki þeirra í að nýta íþróttir í menningarlegum, efnahagslegum og pólitískum tilgangi. Þá tóku til máls innlendir og erlendis sérfræðingar á þessu sviði og leituðu svara við þeim fjölmörgu spurningum sem varða íþóttir, menningu, efnahag og stjórnmál. 

Vitaly Kazakov,