Skip to main content
13. júní 2024

Styrkir til doktorsnema á Hugvísindasviði

Styrkir til doktorsnema á Hugvísindasviði - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þrír doktorsnemar á Hugvísindasviði Háskóla Íslands hafa hlotið styrki úr Menntasjóði sviðsins. Styrkhafar eru Claude Nassar, doktorsnemi í menningarfræði, Katrín Lísa van der Linde Mikaelsdóttir, doktorsnemi í íslenskri málfræði, og Nuria Frías Jiménez, doktorsnemi í spænsku. Hvert þeirra hlýtur styrk að upphæð 700.000 krónur til að leggja lokahönd á doktorsverkefni sitt.

Þetta er í fjórða sinn sem veittur er styrkur úr Menntasjóði Hugvísindasviðs en markmið hans er að styrkja doktorsnema við deildir Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, einkum þá sem eru á lokastigum náms.

Doktorsverkefni Claude Nassar er rannsókn á því hvernig útilokandi samfélagslegar og pólitískar heildir flytjast milli kynslóða og viðhalda sér gegnum staðbundnar frásagnir og iðkanir. Útgangspunktur verkefnisins er samfélagið á Líbanon-fjalli (þar sem Nassar ólst upp) og á þeim grunni er varpað ljósi á umbreytingar á staðbundnum tengslum sem eiga sér stað vegna nútímavæðingar og nýlenduhyggju. Jafnframt er leitast við að endurhugsa frásagnir um alþjóðlega samstöðu í gegnum þær samtvinnuðu birtingarmyndir kúgunar sem leggja grunn að og viðhalda núverandi heimsskipan. Heimspekilegur hugtakagrunnur rannsóknarinnar er sóttur til afnýlendufræða, hinsegin fræða og femínískra fræða og unnið er með staðbundnar frásagnir og sögur þjóða jafnt sem heimspekilegar réttlætingar á skrifræðisstjórnun og einstaklingsvæddri framleiðslu í vestrænni hefð. Í rannsókninni er skoðað hvernig staðbundnar og reglubundnar iðkanir og merkingarkerfi falla að hugtakakvíum á borð við kynþátt, kyngervi og kynvitund. Litið er á þessi efni – frá sjónarhorni sambandsins milli þekkingar og lífsviðurværis – sem ferli þar sem lokað er fyrir þekkingarleiðir með því að laga staðbundnar forsendur að skrifræðishugmyndum og grafa þannig undan möguleikunum á að afla sér lífsviðurværis öðruvísi en með einstaklingsbundnum framleiðsluháttum. Fræðileg og heimspekileg aðferð verkefnisins er útfærð í ritgerðinni sjálfri og birtist m.a. í myndlýsingum og dæmisögum. Tilgangurinn er að draga upp útlínur annarra mögulegra þekkingarforma og sýna þannig fram á möguleika til að beita annars konar aðferðum til að komast af og leita merkingar saman.

Claude Nassar er með BA-próf í grafískri hönnun frá Notre Dame-Louaize háskólanum í Líbanon og MA-próf frá námsbraut í ólínulegri frásögn við Konunglegu listaakademíuna í Haag. Hann starfar við listsköpun og rannsóknir þar sem tungumál og hljóðræn sköpun skarast. 

Doktorsverkefni Katrínar Lísu van der Linde Mikaelsdóttur fjallar um þróun og áhrif norskra málaeinkenna, svokallaðra „norvagisma“, í íslenskum handritum og frumbréfum frá fjórtándu öld og fram að siðaskiptum. Við rannsóknina er beitt aðferðum bæði ályktunartölfræði og félagslegra málvísinda. Rannsóknin bendir til að þessi norsku einkenni hafi einkum verið algeng í trúarlegum, lagalegum og stjórnsýslulegum skrifum sem aftur bendir til þess að þau hafi haft hlutverki að gegna sem stílmerki í formlegum skrifum. Í rannsókninni er rýnt í áhrif plágunnar miklu 1402–1404 sem hafði í för með sér ört dvínandi norsk máláhrif, líkast til vegna mikils mannfalls meðal klerklærðra manna, og jók til muna hlutdeild veraldlegrar yfirstéttar í handritagerð. Því er haldið fram að eftir málsambýli í upphafi tímabilsins hafi innra gildismat fengið aukið vægi og stuðlað að sérhæfðari notkun norskra máleinkenna í íslenskum stjórnsýsluskrifum. Niðurstöður þessarar rannsóknar gefa því alveg nýja innsýn í virkni málbreytinga í málsambýli og munu gagnast í frekari rannsóknum í sögulegum félagsmálvísindum og handritafræðum.

Katrín Lísa van der Linde Mikaelsdóttir lauk BA-prófi í þýskum og skandinavískum fræðum frá Háskólanum í Göttingen í Þýskalandi og MA-prófi í íslenskum miðaldafræðum frá Háskóla Íslands. Hún hefur verið stundakennari við Háskóla Íslands og birt fræðigreinar um málbreytingar í íslensku máli á síðmiðöldum.

Doktorsverkefni Nuriu Frías Jiménez fjallar um orðastæður í íslensku og spænsku og er hagnýt samanburðarrannsókn, en Nuria vinnur verkefnið undir handleiðslu tveggja leiðbeinenda og mun ljúka tvöfaldri doktorsgráðu (joint degree) frá Háskóla Íslands og frá Háskólanum í Sevilla á Spáni. Orðastæður eru orðasambönd sem getur reynst erfitt að læra og tileinka sér í tungumálanámi. Tilgangur rannsóknarinnar er m.a. sá að greina hvað orðastæður í spænsku og íslensku eiga sameiginlegt og hvað ekki en slíkur samanburður hefur ekki verið gerður áður í þessum tungumálum. Niðurstöður rannsóknarinnar munu nýtast í nýja íslensk-spænska orðabók sem er í smíðum (LEXÍA-SP) á vegum Árnastofnunar og Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Jafnframt munu þær nýtast í gerð kennsluefnis fyrir spænskunemendur á Íslandi.

Nuria Frías Jiménez er með BA-gráðu annars vegar í spænsku og hins vegar ensku frá Universitat Autònoma de Barcelona og tvöfalda MA-gráðu í kennslu spænsku sem erlends máls frá Universidad de Deusto í Bilbao og Háskóla Íslands. Samhliða doktorsnáminu hefur hún starfað sem stundakennari í spænsku við Mála- og menningardeild frá árinu 2016. Hún hefur tekið þátt í ýmsum rannsóknarverkefnum, innlendum sem erlendum, og birt greinar í virtum tímaritum á Spáni og víðar.

Um sjóðinn

Menntasjóður Hugvísindasviðs Háskóla Íslands var stofnaður árið 2018 og byggist á safni sjóða sem tengjast fræðigreinum innan sviðsins. Markmið sjóðsins að styðja við doktorsnám á sviðinu og þá einkum doktorsnema sem eru á lokastigum náms. Sjóðirnir sem mynda Menntasjóðinn eru Det Danske Selskabs Studenterlegat (1943), Forlagsboghandler, Dr. Phil. h.c. Ejnar Munkgaards Stiftelse til Fordel for Det filosofiske Fakultet ved Islands Universitet i Reykjavik (1938), Minningarsjóður dr. Rögnvalds Péturssonar (1960), Minningarsjóður norskra stúdenta (1948), Norðmannsgjöf (1961) og Sögusjóður stúdenta (1930). 

Samkvæmt stofnskrá sjóðsins er stjórn hans skipuð forsetum deilda Hugvísindasviðs (Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, Íslensku- og menningardeildar, Mála- og menningardeildar og Deildar heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði), en sviðsforseti er formaður stjórnar. 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.