Skip to main content

Doktorsvörn í menntavísindum: Friðborg Jónsdóttir

Doktorsvörn í menntavísindum: Friðborg Jónsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
19. júní 2024 12:00 til 15:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur Aðalbyggingu

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Friðborg Jónsdóttir ver doktorsritgerð sína í menntavísindum við Deild kennslu- og menntunarfræði við Háskóla Íslands.

Vörnin fer fram miðvikudaginn 19. júní kl. 12:00 í Hátíðasal Háskóla Íslands og verður einnig streymt.

Heiti ritgerðar: Flutningur barna með fjölbreyttan tungumála og menningarbakgrunn frá leikskóla yfir í grunnskóla. Samstarfsrannsókn með kennurum.

Andmælendur: dr.Ghazala Bhatti dósent við Bath Spa University, UK og dr. Wendy Goff dósent við Swinburne University of Technology, Melbourne, Australia.

Aðalleiðbeinandi: dr. Jóhanna Einarsdóttir prófessor emeritus við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Meðleiðbeinandi: Sue Dockett prófessor emeritus við Charles Sturt Háskóla, Ástralíu.

Auk þeirra sat í doktorsnefnd dr. Hanna Ragnarsdóttir prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.     

Stjórnandi athafnar: dr. Karen Rut Gísladóttir forseti Deildar kennslu- og menntunarfræði 

Verið öll velkomin.

Viðburðurinn verður sýndur í streymi

Um  verkefnið:

Rannsóknin var unnin með tveimur leikskólakennurum og tveimur grunnskólakennurum í Reykjavík. Gagna var auk þess aflað með viðtölum við skólastjóra þátttökuskólanna tveggja og tíu sérfræðinga sem starfa á vegum sveitafélagsins að málum er tengjast menntun barna með fjölbreyttan tungumála og menningarbakgrunn. Markmið rannsóknarinnar var að skoða samfellu og samstarf á milli skólastiga og þróa í samvinnu við kennarana starfshætti sem henta til að mæta þörfum barna með fjölbreyttan tungumála og menningarbakgrunn á báðum skólastigum. Aðferðafræði rannsóknarinnar nefnist Praxeology og byggir á hefð um mennta og þátttökurannsóknir sem framkvæmdar eru í samvinnu við iðkendur og styðja þá til að skoða eigin starfshætti og taka virkan þátt í þróun þeirra og breytingum.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að þrátt fyrir formlega skólastefnu án aðgreiningar, þar sem koma á til móts við nemendur á einstaklingsgrundvelli, þá hafði bakgrunnur barnanna litil árif á kennsluhætti eða umhverfi skólanna. Niðurstöðurnar benda enn fremur til þess að próf og mælingar hafi stýrandi áhrif á kennsluhætti í grunnskólanum sem dregur athygli að mótsögnum á milli formlegra námsviðmiða og stefnu skóla án aðgreiningar. Starfshættir skólanna þegar kom að því að mynda samfellu á milli skólasstiga tóku takmarkað mið af fjölbreyttum bakgrunni barnanna og hugmyndir um samfellu virtust að einhverju leyti undir áhrifum frá bóknámsreki og orðræðu um school readiness sem felst í því að gera börnin tilbúin fyrir grunnskólann.  Hvatning skólastjóra hafði áhrif á heildar rannsóknarupplifun kennarana og þeir sem upplifðu meiri stuðning töldu sig hafa meiri ávinning af rannsókninni. Rannsóknin studdi leikskólakennarana til að þróa starfaðferðir sínar til að mæta fjölbreyttum barnahóp en tókst ekki að gera slíkt hið sama fyrir grunnskólakennarana. Niðurstöðurnar draga einnig fram nokkrar af þeim áskorunum sem geta komið upp í rannsóknarsamstarfi kennara og rannsakenda, svo sem að finna sameiginleg markmið og gagnkvæman skilning á lykilhugtökum.

Um doktorsefnið

Friðborg Jónsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1971. Hún útskrifaðist með stúdentspróf frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti árið 1993, með B.ed gráðu frá Kennaraháskóla Íslands í grunnskólakennarafræðum árið 2000 og MA gráðu frá Háskóla Íslands í uppeldis og menntunarfræðum árið 2007. Foreldrar hennar eru Jón Símon Gunnarsson og Eygló Magnúsdóttir. Eiginmaður hennar er Pétur Valgarð Pétursson og börn þeirra eru Eygló Anna Pétursóttir og Tómas Pétursson.

.

Doktorsvörn í menntavísindum: Friðborg Jónsdóttir