Forsprakki Stækkaðu framtíðina í heimsókn í HÍ
Nick Chambers, forsprakki verkefnisins „Stækkaðu framtíðina“ sem Háskóli Íslands leiðir hér á landi, heimsótti Ísland í vikunni og átti ásamt sendiherra Bretlands og fulltrúum Háskólans fundi með fjölda hagsmunaaðila í íslenska menntakerfinu og stjórnmálum með það fyrir augum að styðja við og styrkja þróun verkefnisins hér á landi.
Verkefnið, sem er að breskri fyrirmynd, er unnið í nánu samstarfi við Breska sendiráðið á Íslandi og „Inspiring the future“ sem er fyrirmynd verkefnisins í Bretlandi. Markmið þess að opna augu barna og ungmenna fyrir þeim tækifærum sem framtíðin hefur upp á að bjóða og auka þannig áhuga þeirra á námi auk þess að ýta undir að þau sjái tilgang með náminu. Það er gert með því að tengja alls konar fólk af vinnumarkaði við skólastofur landsins þar sem það segir nemendum frá starfi sínu og menntun.
Nick Chambers, breski sendiherrann Bryony Mathews og Ragna Skinner, verkefnisstjóri Stækkaðu framtíðina og starfmaður NýMenntar á Menntavísindasviði HÍ, funduðu með Jóni Atla Benediktssyni, rektor HÍ, og sviðsforsetum Menntavísindasviðs og Verk- og náttúruvísindasviðs, þeim Kolbrúnu Pálsdóttur og Sigurði M. Garðarssyni, í vikunni og ræddu þá fjölmörgu möguleika sem verkefnið hefur að bjóða upp á í framtíðinni. Með þátttöku fræðasamfélagsins í verkefninu og með því að leggja sérstaka áherslu á vísindi og STEM-greinar hefur verkefnið möguleika á að glæða áhuga barna og ungmenna á vísindum og fræðum og efla þessar greinar hér á landi til framtíðar. Einnig hefur verkefnið fjölbreytta möguleika til rannsókna en það byggist á 12 ára reynslu og rannsóknum í Bretlandi.
Stjörnu-Sævar heimsótti Landakotsskóla ásamt fulltrúum Stækkaðu framtíðina þar sem hann sagði m.a. frá sínum störfum og ýmsu öðru forvitnilegu. MYND/Kristinn Ingvarsson
Þau Nick, Bryony og Ragna kíktu einnig í heimsókn í Landakotsskóla ásamt vísindamiðlaranum snjalla Stjörnu-Sævari sem heillaði börn í 5. Bekk með frásögnum af störfum sínum ásamt því að veita þeim innsýn í vitneskju sína um allt milli himins og jarðar. Einnig kynnti breska sendiráðið barnabók Bryony Mathew sem fjallar um spennandi, ólík og fjölbreytt störf í framtíðinni með sérstaka áherslu á inngildingu og fjölbreytileika. Bókin veitir krökkunum m.a. innblástur með því að segja þeim að þau hafi næga tíma til að læra nýja hluti, rétt eins og fullorðið fólk. Ef þeim finnist eitthvað of erfitt eða ef þeim gangi ekki nógu vel þá sé gott að minna sig á orðin ENN ÞÁ, og segja: „Ég get þetta ekki….ENN ÞÁ“, eða „Ég skil þetta ekki…ENN ÞÁ“.
Nick, Bryony og Rögnu var einnig vel tekið í Mennta- og barnamálaráðuneytinu, á Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar og hjá Kennarasambandi Íslands sem allt eru samstarfsaðilar í verkefninu. Stefnt er að veglegri opnun þess í haust þegar skólarnir hefjast aftur eftir sumarfrí.
Háskóli Íslands hvetur öll til að skrá sig sem sjálfboðaliða í Stækkaðu framtíðina, aðeins klukkustund af þínum tíma gæti breytt framtíð næstu kynslóðar!