Hvernig er að vera Hornstrendingur?
Láttu, fóstra, napurt um þá næða norðanélin þín,
fjörudrauga og fornar vofur hræða. Feigum villtu sýn...
Svona orti Jakobína Sigurðardóttir skáldkona um Hornstrandir þegar hún heyrði að Bandaríkjaher hyggðist breyta þar fuglabjörgum með skotæfingum í Kalda stríðinu. Þessi björg voru Jakobínu svo nærri hjarta að hún kallaði þau fóstruna sína ásamt svæðinu öllu sem björgin tilheyra. Jakobína ólst upp við allra ysta haf í Hælavík á Hornströndum þar sem ekki reyndist hægt að rækta kartöflur sökum seltu og hrakviðra og árin gátu svo sannarlega verið erfið. Oft voraði seint og sumarið sleppti því stundum jafnvel alveg að koma. Hafísinn var þá rétt úti fyrir landi eða hreinlega inni á víkunum.
Bærinn hennar Jakobínu (fædd í Hælavík 8. júlí 1918, dáin 29. janúar 1994) er eiginlega bara rústir af rústum því hafið hefur gripið nánast allt sem áður töldust hús og síðar tóftir. Á þessum stað komast engin börn lengur til manns sem geta sagst vera bæði frá Hælavík og Hornströndum. En hvaðan erum við? Hvaðan komum við? Og hverjir eru frá Hornströndum? Og hvernig er að vera Hornstrendingur? Hvar eiga þeir heima?
Guðrún Svava Guðmundsdóttir, doktorsnemi í landfræði við Háskóla Íslands, leitar þessa dagana einmitt svara við þessum spurningum og mörgum fleiri. Hún segir að þegar einstaklingar skilgreini sig í veröldinni setji þeir fortíðina, ekki ólíkt því og Jakobína gerir, í samhengi við nútímann sem fylgir þeim svo inn í framtíðina.
„Eins og spurningin, hvaðan kemur þú,“ segir Guðrún, „til dæmis ólst ég upp í Stykkishólmi, dóttir mín, sem er alin upp í Reykjavík og á Ísafirði, er einnig frá Stykkishólmi, samkvæmt henni sjálfri. Hvaðan kem ég og hvaðan er hún?“
Þetta eru sannarlega skemmtilegar pælingar og rannsóknaspurningar og eiginlega er sá sem þetta ritar ótrúlega forvitinn að fá svörin strax. En það þarf aðeins að doka við því þau munu ekki birtast fyrr en í doktorsritgerð Guðrúnar Svövu sem er í smíðum.
Í hópi íbúa í Hlöðuvík á Hornströndum voru bræðurnir Bergmundur Guðlaugsson (1918-1990) og Þórleifur Bjarnason (1908-1981) og móðir þeirra, Ingibjörg Guðnadóttir (1888-1970), sem stendur á milli þeirra. Þeir voru hálfbræður sammæðra. MYND/Ísafjarðarbær
Þrjár kynslóðir Hornstrendinga í rannsókninni
Í doktorsrannsókninni sinni skoðar Guðrún þrjár kynslóðir frá Hornströndum og notar þrjár mismunandi aðferðir sem snúa að ljósmyndum til að rannsaka hvaða þýðingu það hafi að eiga heima í veröldinni og hvernig hugmyndin um að tilheyra breytist í tíma og rúmi. „Að eiga heima er ekki aðeins tengt veraldlegum stað heldur er það byggt á flóknu kerfi upplifana. Ég skoða hvernig arfleið tengist hugtakinu að tilheyra og hvernig einstaklingar skapa sér ákveðinn stað í veröldinni sem þeir telja sinn eigin,“ segir vísindakonan.
„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á fólki og hvernig það skilgreinir sig. Hugmyndin um að tilheyra og hvaða merkingu það hefur að eiga heima í veröldinni eru þess vegna afar spennandi viðfangsefni.“
Hornstrandir eru einstakar
Þau sem fara um eyðibyggðir Hornstranda verða flest fyrir magnaðri upplifun. Þar eru mikil víðerni með svæðum sem hafa þannig áhrif að fólki finnst eins og það sé statt þar sem engin hafi áður haft iljar sínar. Náttúran er einstök, með björgum og stígum eftir brúnum þeirra sem kynslóðirnar lögðu með fótum sínum. Þarna eru ókleifir tindar og skriður og drangar, miklar og gylltar sandfjörur, ár og ósar, lækir, fossar og vötn. Og meira að segja jökull!
Það er ægifagurt á Hornströndum eins og þau sem gengið hafa um þessar slóðir þekkja. MYND/Jón Örn Guðbjartsson
Hornstrandir eru friðland þar sem áhrif mannsins á lífríkið eru eins lítil og nokkur er kostur. Það hefur verið þannig á mjög mörgum stöðum á Hornströndum í bráðum hálfa öld, eða frá því svæðið var friðað árið 1975. Þarna eru staðir sem hafa verið óbyggðir mönnum allt frá landnámi og þá líklega alltaf, eins og Sópandi í Lónafirði, sem hefur sennilega svipað yfirbragð núna og blasti við þeim sem fyrst námu hér land. Kannski erum við öll í margs konar skilningi að koma heim þegar við stígum á land víða á Hornströndum, sjáum í raun hvernig Ísland var gagnvart formæðrum okkar og feðrum.
„Hvernig fundu landnámsmenn heima eða stað í veröldinni sem þeir kölluðu sinn, sem var eftir sem áður fjarri upprunalegu heimkynnunum,“ spyr Guðrún og hún er að leita að svörunum. „Það er einmitt það sem Hornstendingar þurftu að gera, að skapa sér ný heimkynni fjarri uppruna sínum. Hvenær tilheyrum við stað, hópi fólks eða samfélagi? Hvað þarf til?“
Á Hornströndum var hafið uppspretta lífsins, mannlífsins, en hafið var líka það afl sem sópaði burtu mannslífum eins og hendi væri veifað. Þar eru yfirgefnar byggðir og uppgerð hús og leifar af húsum og tóftir sem bera vitni um magnaða sögu, en líka endalok. Sumt, eða jafnvel allt þetta gefur Hornstrendingum mynd af því hvað það er að tilheyra og vera heima eða eiga heima.
Eyðilandið Hornstrandir
Þegar Hornstrandir fóru í eyði, snemma á sjötta áratugi síðustu aldar, týndist fólkið víða um land, sumir fóru suður en nokkrar fjölskyldur hófu nýtt líf í Bolungarvík, sem er næsti byggðarkjarni landfræðilega við Hornstrandir. Fólkið flutti frá Hesteyri og víkunum fyrir norðan árið 1952 og Grunnavík í Jökulfjörðum var yfirgefin árið 1962. Þó var áfram mannlíf í Aðalvík allt fram til 1963 þegar Bandaríkjaher hafði þar herstöð á Straumnesfjalli. Þá bjuggu fáeinir Íslendingar í Aðalvík sem unnu fyrir herinn. Það líf var þó allt annað en það sem Íslendingarnir þoldu öldum saman á Hornströndum þar sem sjálfbærnin var höfð að leiðarljósi þótt það hugtak hafi vissulega ekki verið til á þeim tíma.
„Koma breska hersins á Hornstrandir, sem kom þangað á undan þeim ameríska, var helsta ástæða þess að unga fólkið fór að vinna sér inn pening fjarri heimabyggð. Það var áður óþekkt á svæðinu. Viðmælendur mínir tala gjarnan um Bretana og eiga þá við breska setuliðið sem var með mannvirki á Darranum í Aðalvík. Svo voru aðrir sem fluttu vegna ónæðis af stríðsrekstrinum, heræfingum, sem fóru fram á Hornströndum, en þó ekki alveg í burtu heldur oft á milli staða innan svæðisins. Endalok byggðarinnar fólust í raun í því að unga fólkið fór og það varð ekki endurnýjun á vinnuafli,“ segir Guðrún.
„Einnig gæti rannsóknin ýtt undir umræðu um mikilvægi þess að viðhalda samfélögum um allt land og varpað fram nýjum flötum til að skoða það mál. Til dæmis hvort ástæða sé til auka styrki frá stjórnvöldum til að gera einstaklingum kleift að vera sjálfbærir í því landslagi þar sem þeir kjósa að búa,“ segir Guðrún.
Uppgötvaði undur Hornstranda í viðtölum
Hornstrandir vöktu fyrst áhuga Guðrúnar þegar hún var að vinna meistaraverkefnið sitt í Háskóla Íslands: Fjölskylduljósmyndir. Birtingarmynd einstaklinga í umhverfi sínu. Það hagaði þannig til að verkefnið sitt vann hún einmitt í Bolungarvík og í samtölum sem hún átti þar við fólk var ítrekað talað um Hornstrendinga.
„Viðmælendur mínir tiltóku hvort þeir væru frá Hornströndum eða hvort að þessi eða hinn væri þaðan. Þarna og þá hófst áhugi minn á Hornströndum og fólkinu sem þar hafði búið. Ég áttaði mig fljótlega á því að fólkinu, sem hafði búið þar og flust þaðan, fór óðum fækkandi, þar sem svæðið fór í eyði um miðja síðustu öld. Því setti ég mér það markmið að ná viðtölum við sem flesta einstaklinga sem gátu sagt frá upplifun sinni af því að hafa átt heima á Hornströndum, flutt þaðan og eignast heima á nýjum stað. Einnig hafði ég áhuga á að skoða, hvað svo?“
Fortíðin sveipuð ákveðnum ljóma
Guðrún er að safna gögnum en óhætt er að fullyrða að hún sé á vissan hátt landkönnuður í doktorsnáminu sínu. Hún er ekki að nema landið eins og það er núna heldur eins og það var. Við erum á brún þess að glata fortíðinni því það hefur ekki verið mikið skrifað um lífið á Hornströndum. Verkefnið er því brýnt þar sem það varpar ljósi á hvernig við tengjum okkur við fortíðina og hver við erum og það fær fólk til að segja sögur sem hafa líklega hvorki verið sagðar áður né skráðar.
„Svo virðist sem fortíðin verði oft sveipuð ákveðnum ljóma,“ segir Guðrún. „Þegar fjallað er um arfleifð eða sögulega atburði er alltaf valið hvað skuli muna og hverju skuli gleyma. Fortíðin verður að nútíð þegar hennar er minnst. Að tilheyra landslagi er líka fólgið í fjarlægð frá staðnum, samfélaginu, þar sem einstaklingar endurskapa umhverfið sitt annað hvort í veraldlegum skilningi eða andlegum.“
„Arfleifð er ekki eitthvað sem við bara fjöllum um og er í fortíðinni,“ segir Guðrún, „heldur þróast hún í tíma og rúmi.“ MYND/Jón Örn Guðbjartsson
Guðrún segir að fjarlægðin frá staðnum og landslagi skapi líka nánd og sé því einnig hluti að því að tilheyra.
„Það er nú þannig að lengi fram eftir aldri, fannst mér að ég hafi verið meirihluta ævinnar á Hornströndum, en það er nú ekki alveg þannig... enda er ég að verða 64 ára gamall og ég var þarna í ellefu ár og er því búinn að vera í 53 ár annarstaðar, en minningarnar eru afskaplega sterkar. Þær móta mann mikið.“
(Brot úr viðtali Guðrúnar)
Guðrún safnar sögum í samtölunum við viðmælendur sem hún leitar uppi víða um land. Það eru margar sögur til af því hvernig fólk yfirgaf Jökulfirði og Hornstandir eins og Horstrendingurinn hér að framan gerði, svæði þar sem fólk hafði búið öldum saman af því að lífið var ekki lengur sjálfbært, að sögn Guðrúnar.
Ein sagan segir af fundi sem haldinn var að kvöldlagi á Hesteyri í Sléttuhreppi þar sem íbúarnir greiddu atkvæði um að flytja eða vera um kyrrt. Atkvæðin féllu eins og sagan vitnar um. Sá sem þetta skrifar hefur heyrt af því að fólk hafi skilið eftir hluta af eigum sínum í húsunum þegar þau voru yfirgefin þar sem ekki var unnt að taka allt með yfir djúpið. Þarna blasti svo margt undarlegt við þegar ferðafólk kom löngu síðar og leit inn í mannlaus húsin. Jafnvel kaffifantar sem voru eins og yfirgefnir í skyndi á eldhúsbekk með förum eftir varir eigendanna, svona eins og þeir væru enn að bíða eftir að varirnar skiluðu sér aftur. Það undarlega við þetta allt saman er þó þversögnin að sumir skildu mikið eftir á meðan aðrir fluttu jafnvel húsin með sér.
„Það er nú taug til þessa hrepps sem búið er að leggja niður, Sléttuhrepps, þá segir maður Sléttuhreppur hin forni. Hann er horfinn nema úr huga manns, nú er þetta Ísafjarðarbær.“
(Brot úr viðtali Guðrúnar).
Saga er til af því að þegar hjónin á Reyrhóli á Hesteyri, þau Sölvi Betúelsson (fæddur á Hesteyri, 30. janúar 1893, dáinn 13. ágúst 1984), og Sigrún Bjarnadóttir (fædd í Aðalvík 22. september 1905, dáin 2. maí 2001), fluttu frá Hesteyri, síðust allra. Þau tóku með sér báðar kýrnar og komu sér og þeim fyrir í Bolungarvík. Nytin af kúnum varð að sögn ekki svipur hjá sjón frá því sem áður var. Næsta vor fóru þau hjónin sumarlangt heim á Reyrhól með aðra kúna. Að Sigrúnar sögn fagnaði kýrin heimkomunni með endalausum halalyftingum og rassaköstum og nytin þaut upp um leið og hún kom aftur heim. Kannski líður okkur svolítið þannig þegar við komum heim eins kúnni þeirra Sölva og Rúnu.
Það er dálítið sérstakt að þótt Sölvi hafi fæðst á Hesteyri og búið þar drjúgan part af lífinu, átt þar heima, þá er hann sagður úr Höfn í Hornvíkinni. Þetta er vafalítið eitt af því sem Guðrún mun huga að í rannsókninni sinni.
„Arfleifð er ekki eitthvað sem við bara fjöllum um og er í fortíðinni,“ segir Guðrún, „heldur þróast hún í tíma og rúmi. Arfleifð er því bæði það sem var, er og verður. Því tel ég að mikilvægt sé að draga lærdóm af reynslu fólks sem bjó á Hornströndum, þar sem sjálfbærir lifnaðarhættir fjöruðu smá saman út, þangað til fólk pakkaði saman og flutti frá heimilum sínum.“
Í doktorsrannsókninni sinni skoðar Guðrún þrjár kynslóðir frá Hornströndum og notar þrjár mismunandi aðferðir sem snúa að ljósmyndum til að rannsaka hvaða þýðingu það hafi að eiga heima í veröldinni og hvernig hugmyndin um að tilheyra breytist í tíma og rúmi. MYND/Kristinn Ingvarsson
Ný þekking sem verður almenn og aðgengileg
„Með því að skeyta saman sjónrænum aðferðum á gagnrýninn hátt þá vonast ég til að skapist grundvöllur fyrir aukinni notkun þeirra í rannsóknum,“ segir vísindakonan þegar hún er spurð um hvað sé nýtt í afðerðarfræðinni í verkefninu og hverju það nýja geti skilað.
„Einnig gæti rannsóknin ýtt undir umræðu um mikilvægi þess að viðalda samfélögum um allt land og varpað fram nýjum flötum til að skoða það mál. Til dæmis hvort ástæða sé til auka styrki frá stjórnvöldum til að gera einstaklingum kleift að vera sjálfbærir í því landslagi þar sem þeir kjósa að búa,“ segir Guðrún. Aðspurð um tengingu í rannsókninni við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna svarar Guðrún játandi.
„Já, klárlega þar sem samfélögin á Hornströndum voru sjálfbær allt þar til undir lokin. Það sýnir okkur svart á hvítu hversu mikilvægt það er að samfélög séu sjálfbær svo þau lifi af og geti blómstrað.“
Leiðbeinendur Guðrúnar í verkefninu eru þau Katrín Anna Lund, prófessor í land- og ferðamálafræði við HÍ, Edda Ruth Hlín Waage, dósent í land- og ferðamálafræði við HÍ, og Arnar Árnason, dósent í mannfræði við Háskólann í Aberdeen.