Auður Aðalsteinsdóttir ráðin í starf forstöðumanns nýs Rannsóknaseturs HÍ í Þingeyjarsveit
Auður Aðalsteinsdóttir, doktor í bókmenntafræði, hefur verið ráðin forstöðumaður nýs Rannsóknaseturs Háskóla Íslands í Þingeyjarsveit. Setrinu er einkum ætlað að sinna rannsóknum á sviði umhverfishugvísinda og er aðsetur þess í Gíg á Skútustöðum við Mývatn. Starf forstöðumanns Rannsóknaseturs HÍ í Þingeyjarsveit var auglýst sl. sumar og bárust fimm umsóknir. Að loknu dómnefndar- og valnefndarferli var Auður ráðin í starfið og hefur hún þegar hafið störf að hluta en kemur í 100% starf frá og með 1. maí nk.
Auður lauk doktorsprófi í almennri bókmenntafræði frá HÍ 2016. Árið 1999 lauk hún meistaranámi í almennri bókmenntafræði frá HÍ en námið fór að hluta fram við Université de Rouen í Frakklandi, og sama ár hagnýtri fjölmiðlun frá HÍ. Auður var við Háskóla Íslands um tólf ára skeið og hefur leiðbeint BA-nemum, auk þess sem hún hefur verið andmælandi við tvær doktorsvarnir og situr í doktorsnefnd nemanda í almennri bókmenntafræði. Auður hefur starfað við ritstjórn, m.a. hjá Háskólaútgáfunni og eigin útgáfufyrirtæki. Hún hafði umsjón með þættinum Bók vikunnar á Rás 1 um fimm ára skeið og starfaði á fréttastofu RÚV 2018–2019.
Undanfarin tvö ár hefur Auður starfað sem nýdoktor við ROCS, Rannsóknasetur Vigdísar Finnbogadóttur og Margrétar II. Danadrottningar um haf, loftslag og samfélag. Sneru rannsóknir hennar þar að birtingarmyndum ógnarinnar af völdum loftslagshamfara í íslenskum samtímabókmenntum og listum. Afraksturinn mun birtast í bókinni Hamfarir í bókmenntum og listum sem kemur út í desember á vegum Háskólaútgáfunnar. Sú bók verður hin fyrsta í ritröðinni Huldurit og gefin út í samvinnu við umhverfishugvísindasetrið Huldu.
Rannsóknasvið Auðar hefur einkum verið bókmenntasaga, ritdómar og fagurfræði og nútímabókmenntir. Á síðustu árum hefur hún einbeitt sér að umhverfishugvísindum og m.a. skrifað kafla um íslenskar bókmenntir og vistfemínisma í bókina The Routledge Handbook of Ecofeminism and Literature sem kom út í fyrra. Framundan er frekari útgáfa greina og bókarkafla á innlendum og erlendum vettvangi á sviði umhverfishugvísinda, og má þar nefna tvo kafla í greinasafn um brautryðjendur á sviði vistfemínisma sem kemur út á næsta ári og bók um hafið í íslenskum samtímabókmenntum. Einnig má nefna að í samstarfi við Katarinu Leppanen, prófessor við Gautaborgarháskóla, vinnur hún að greinasafni um viðbrögð við umhverfiskrísum samtímans í norrænum bókmenntun og listum en stefnt er á að ljúka því á næsta ári.
Innan Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands eru starfrækt 11 sjálfstæð rannsóknasetur víða um land. Markmið stofnunarinnar er m.a. að skapa aðstöðu til rannsókna á landsbyggðinni og vera vettvangur samstarfsverkefna háskólans við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga á landsbyggðinni. Rannsóknir eru meginviðfangsefni rannsóknasetranna og eru viðfangsefnin fjölbreytt og tengjast nærumhverfi setranna með einhverjum hætti. Rannsóknasetur HÍ í Þingeyjarsveit á í samstarfi við Svartárkot menningu – náttúru og saman standa þau að HULDU náttúruhugvísindasetri sem einnig verður staðsett á Skútustöðum.