Viðhorf hagaðila í málefnum hafsins til verndarsvæða í sjó
Opnað hefur verið fyrir spurningakönnun til að kanna viðhorf hagaðila í sjávarútvegi og tengdum greinum til verndarsvæða í sjó. Könnunin er liður í því að kortleggja þessi viðhorf og þekkingu hagaðila til svæðisbundinnar stýringar og verndar hafsvæða. Spurningakönnunin fjallar að miklu leyti um gildandi reglugerðir innan fiskveiðistjórnunarkerfisins og tengingu þeirra við vernd og stýringu líffræðilegra auðlinda. Könnunin er opin öllum sem láta sig hafið og nýtingu þess varða.
Verndun hafsvæða 30 fyrir 30
Fimmtánda ráðstefna aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni fór fram í desember 2022. Á ráðstefnunni var samþykkt ný stefna til ársins 2030 með það að meginmarkmiði að stöðva hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og stuðla að verndun, endurheimt og sjálfbærri nýtingu líffræðilegra auðlinda. Stefnan er margþætt en hún saman stendur af tuttugu og þremur markmiðum sem taka til ólíka þátta. Þriðja markmið stefnunnar hefur þó hlotið mesta athygli en það er hið svokallaða „30 fyrir 30 markmið“. 30 fyrir 30 er grípandi hugmynd sem snýst í grundvallaratriðum um að 30% af bæði haf og landsvæðum verði komin undir virka vernd og stýringu fyrir árið 2030.
Verndarsvæðin þurfa ekki að vera lokuð fyrir allri nýtingu en stýring þeirra þarf að hafa ótvíræðan ávinning fyrir vernd eða endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni. Þannig er hægt að kanna gildi annarra verndar- eða stjórnunaraðgerða t.d. svæðisbundinna aðgerða við fiskveiðistjórnun. Ísland hefur meðal annara þjóða samþykkt þessa stefnu og íslensk stjórnvöld eru að kanna mögulegar útfærslur. Reynslan sýnir að virk þátttaka hagaðila bætir útfærslu verndar- og stjórnunaraðgerða og eykur sátt. Hagsmunir ólíkra nýtingaraðila fara þó ekki alltaf vel saman, hvort sem nýtingin er til atvinnustarfsemi eða tómstunda. Það er því nauðsynlegt að skoða afstöðu fjölbreyttra hópa hagaðila í málefnum hafsins.
Svæðisbundnar verndaraðgerðir í íslenskri lögsögu hafa oft beinst að fiskungviði
Óskað er eftir þátttöku í spurningakönnun
Allir eru hvattir til að taka þátt í þessari könnun og koma sjónarmiðum sínum á framfæri óháð hlutverki þeirra innan sjávarútvegs, nýtingu sjávar eða vernd hafsvæða. Könnunin er nafnlaus og geta umsjónarmenn hennar ekki tengt einstaklinga við svör. Það er ósk aðstandanda þessarar könnunar að hún verði liður í því að bæta þessa vinnu á Íslandi og hlutlaus vettvangur fyrir fjölbreytta hagaðila til að koma viðhorfum sínum á framfæri. Niðurstöður könnunarinnar verða gerðar aðgengilegar öllum þegar úrvinnslu er lokið en einnig er gert ráð fyrir að birta niðurstöður rannsóknarinnar í vísindagreinum. Hægt er að hafa samband við ábyrgðarmann könnunarinnar ef einhverjar spurningar vakna. Ábyrgðarmaður er Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum (tölvupóstur: gaol@hi.is, sími: 898 9037). Aðrir þátttakendur í verkefninu eru frá Háskólasetri Vestfjarða og Hafrannsóknastofnun.
Með því að smella á hlekkinn má svara könnuninni.
Málstofa á Sjávarútvegsráðstefnunni 2. nóvember
Af sama tilefni verður haldin málstofan, 30 fyrir 30 - áhrif á sjávarútveg, á Sjávarútvegsráðstefnunni í Hörpu 2. nóvember 2023. Á málstofunni mun fjölbreyttur hópur sérfræðinga gefa stuttar kynningar um málefni sem tengjast verndarsvæðum í hafinu. Þar munu meðal annars verða kynningar frá stýrihóp sem matvælaráðherra skipaði fyrr á árinu um verndun hafsvæða í íslenskri lögsögu. Þá munu fulltrúar hagaðila í sjávarútveg gera grein fyrir sinni afstöðu. Að kynningum loknum verða pallborðsumræður þar sem öllum gestum gefst tækifærir til að spyrja fyrirlesara og koma skoðunum sínum á framfæri.