Skip to main content

Doktorsvörn í sagnfræði: Guðrún Harðardóttir

Doktorsvörn í sagnfræði: Guðrún Harðardóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
20. september 2023 13:00 til 15:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Miðvikudaginn 20. september 2023 fer fram doktorsvörn við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði Háskóla Íslands. Þá ver Guðrún Harðardóttir doktorsritgerð sína í sagnfræði, Images in seals of chapters and bishops in the medieval dioceses of Norway and Iceland. Vörnin fer fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00. (Smellið hér til að fylgjast með vörninni í streymi).

Andmælendur við vörnina verða Elizabeth New, dósent í sagnfræði við Aberystwyth háskólann í Wales, og Øystein Ekroll, dósent við Nidaros domkirkes restaureringsarbeider (NDR).

Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn Sverris Jakobssonar, prófessors í sagnfræði við Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd Haki Antonsson, prófessor við UCL háskólann í London, Erla Hohler, fyrrverandi prófessor við háskólann í Osló, sem lést árið 2019 og Julian Gardner, prófessor emeritus við Warwick háskólann í Bretlandi.

Eyja Margrét Jóhönnu Brynjarsdóttir, varadeildarforseti Deildar heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði, stjórnar athöfninni.

Um rannsóknina

Ritgerðin fjallar um myndefni í innsiglum dómkirkna, klaustra og biskupa í norsku og íslensku biskupsdæmunum eins og þau voru á miðöldum er þau heyrðu undir erkibiskupsdæmið í Niðarósi. Viðfangsefnið er tvíþætt, annars vegar að ná fram yfirliti um innsiglin frá þessum biskupsdæmum sem þá heyrðu undir erkibiskupsdæmið í Niðarósi. Hins vegar að fjalla sérstaklega um kirkjumyndir og byggingarhluta í innsiglum dómkirkna, klaustra og biskupa. Lykilþáttur var að skoða sérstaklega kirkjubyggingar og byggingarhluta í kapítulainnsiglum og myndirnar eru túlkaðar út frá hugmyndaheimi miðalda. Sérstök áhersla var lögð á að meta þessi atriði í íslensku innsiglunum í ljósi þess að engar miðaldakirkjur hafa varðveist hér á landi. Myndefni þeirra hefur því einstakt heimildagildi. Niðurstöður ritgerðarinnar eru marglaga en draga einkum fram menningartengsl á Norður-Atlantshafssvæðinu.

Um doktorsefnið

Guðrún Harðardóttir lauk MA prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands og starfaði við Þjóðminjasafn Íslands um árabil, einkum húsasafn og myndasafn. Hún sinnir nú hlutastarfi við Listasafn Einars Jónssonar ásamt því að vinna að yfirlitsriti um íslenskar miðaldakirkjur.

Guðrún Harðardóttir.

Doktorsvörn í sagnfræði: Guðrún Harðardóttir