Doktorsvörn í menntavísindum: Fríða Bjarney Jónsdóttir
Aðalbygging
Hátíðarsalur Háskóla Íslands
Fríða Bjarney Jónsdóttir ver doktorsritgerð sína í menntavísindum við Deild kennslu- og menntunarfræði við Háskóla Íslands.
Vörnin fer fram föstudaginn 22. september kl. 13.00 í Hátíðarsal Háskóla Íslands og verður einni streymt.
Heiti ritgerðar: Veitum röddum vængi: Leikskóli sem inngildandi námsrými til samskipta og skilnings.
Andmælendur: Dr. Christina Hedman og dr. Piet Van
Avermaet.
Aðalleiðbeinandi: Dr. Hanna Ragnarsdóttir prófessor við
Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Meðleiðbeinandi: Dr. Lars Anders Kulbrandstad prófessor emeritus við Inland Norway University of Applied Sciences, Noregi.
Doktorsnefnd: Auk þeirra sátu í doktorsnefnd dr. Jóhanna Einarsdóttir prófessor emerita við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Jim Cummins prófessor
emeritus við Háskólann í Toronto, Kanada.
Um verkefnið:
Doktorsverkefnið byggir á eigindlegri rannsókn sem unnin var á árstímabili í einum leikskóla. Markmiðið var að öðlast dýpri skilning á því hvernig hægt er að skapa inngildandi og réttlátt námsrými í leikskóla þar sem stutt er við málþroska og læsi fjöltyngdra barna, sjálfsmynd þeirra og samstarf við foreldra. Leitast var við að varpa heildtækri sýn á þá fjölmörgu þætti umhverfis, samfélags, tungumála og menningar sem hafa áhrif á nám og þroska fjöltyngdra barna og lögð áhersla á að draga fram árangursríka starfshætti.
Niðurstöður sýna að þróun og skipulag námsrýma fyrir fjöltyngd börn í leikskólanum var langtíma viðfangsefni í stöðugri mótun þar sem yfirmarkmiðið var að breyta starfsaðferðum til að mæta betur vaxandi fjölbreytileika. Með þátttöku starfsþróun og lærdómssamfélagi leikskólans innleiddu kennarar og ígrunduðu aðferðir sem miðuðu að því að efla fjölmenningarlegt leikskólastarf. Kennararnir báru mikla virðingu fyrir fjölbreytileikanum í hópnum og höfðu skapað menningu um samskipti í leikskólanum þar sem þeir litu á það sem sitt hlutverk að hafa frumkvæði að samskiptum við börn og foreldra. Stuðningur við mál og læsi, ásamt vinnu með íslenskan orðaforða, bæði í skipulögðum og frjálsum stundum, var rauður þráður í daglegu starfi leikskólans. Þá studdu kennarar við fjölbreytt heimatungumál barnanna með margvíslegum aðferðum, nýttu aðferðir sem hvöttu til lesturs og læsis og litu á samvinnu við foreldra sem mikilvægan grundvallarþátt í að skapa árangursrík námsrými fyrir fjöltyngd börn.
Þrátt fyrir að í verkefninu sé varpað ljósi á árangursríkar aðferðir stóðu stjórnendur og kennarar frammi fyrir fjölmörgum áskorunum s.s. eins og skorti á kennurum með viðeigandi menntun, fordómum og neikvæðri umræðu hjá ákveðnum hópum, vöntun á viðeigandi matstækjum og tíma til að vinna nægilega vel með niðurstöður þeirra. Þá var það mikil áskorun að festa árangursríkar aðferðir í sessi og innleiða þær með kerfisbundnum hætti í allt starf leikskólans.
Niðurstöður gefa til kynna mikilvægi þess að byggja á fjölbreyttri tungumála- og menningarflóru fjöltyngdra barna í leikskólastarfi og þróa samstarf við foreldra. Því til viðbótar veitir rannsóknin dýpri skilning á því mikilvæga hlutverki kennara að skapa aðstæður fyrir stuðning við samskipti, mál og læsi í öllum daglegum viðfangsefnum, bæði frjálsum og skipulögðum. Með hliðsjón af niðurstöðum rannsóknarinnar og fræðilegum grunni hennar eru settar fram tillögur sem tengjast starfsþróun kennara, menntun kennaraefna, frekari rannsóknum, stefnumótun og starfsaðferðum leikskóla. Sem slík leggur rannsóknin sitt af mörkum til þess að vinna gegn þeirri mismunun sem hefur verið viðvarandi í umræðu og framkvæmd menntunar fyrir fjöltyngd börn hérlendis sem erlendis.
Um doktorsefnið
Fríða Bjarney Jónsdóttir er menntaður leikskólakennari og lauk meistaraprófi í menntunarfræðum með áherslu á fjölmenningu frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands árið 2011. Hún starfaði um tólf ára skeið í leikskólanum Lækjaborg og stýrði meðal annars þróunarverkefninu „Lækjaborg fjölmenningarlegur leikskóli“. Að því loknu hóf hún störf sem leikskólaráðgjafi og árið 2008 tók hún við starfi sem verkefnastjóri fjölmenningar í leikskólum Reykjavíkur. Hjá Reykjavíkurborg hefur hún tekið þátt í stefnumótun um málaflokkinn bæði innan borgar og utan, þróað námsefni og handbækur fyrir fjölmenningarlegt leikskólastarf og sinnt starfsþróun. Frá árinu 2018 hefur Fríða stýrt Nýsköpunarmiðju menntamála hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkur. Hún hefur unnið að doktorsnáminu með hléum frá árinu 2014, tekið þátt í erlendum og innlendum rannsóknum og komið að kennslu á Menntavísindasviði HÍ. Fríða er gift Jóni Karli Helgasyni prófessor í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands. Þau eiga þrjú börn, Martein Sindra, Katrínu Helenu og Valgerði Birnu.
.