Skip to main content

Doktorsvörn í mannfræði - Sigríður Sunna Ebenesersdóttir

Doktorsvörn í mannfræði - Sigríður Sunna Ebenesersdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
25. maí 2023 14:00 til 16:00
Hvar 

Fyrirlestrarsal Íslenskrar erfðagreininingar

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Fimmtudaginn 25. maí ver Sigríður Sunna Ebenesersdóttir doktorsritgerð sína í mannfræði við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið Erfðasaga hópa í Norður-Atlantshafi metin út frá erfðamengjum úr fornum og núlifandi einstaklingum (Investigating the history of human populations in the North Atlantic using ancient and modern genomes). Vörnin fer fram í fyrirlestrarsal Íslenskrar erfðagreiningar kl. 14:00 og er öllum opin.

Doktorsrannsókn Sunnu var unnin í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu. Leiðbeinandi er dr. Agnar Helgason, mannerfðafræðingur hjá Íslenskri erfðagreiningu og prófessor við
Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands. Auk Agnars sátu í doktorsnefnd dr. Tom Gilbert, prófessor í Section for Hologenomics við the GLOBE Institute, Kaupmannahafnarháskóla og dr. Sæbjörn Pálsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.

Andmælendur eru dr. Stephan Schiffels, W2 verkefnastjóri við Max Planck Institute for Evolutionary Anthropology (MPI-EVA) in Leipzig, Þýskalandi og dr. Jón Hallsteinn Hallsson, prófessor í erfðafræði við Landbúnaðarháskóla Íslands og aðjúnkt við Læknadeild Háskóla Íslands.

Vörninni stýrir dr. Stefán Hrafn Jónsson, prófessor í félagsfræði og forseti Félagsvísindasviðs.

Um doktorsefnið
Sunna er fædd í Reykjavík árið 1982. Hún lauk BA-prófi í mannfræði frá Háskóla Íslands árið 2007 og MA-prófi í líffræðilegri mannfræði frá sama skóla árið 2010. Meistararannsókn Sunnu var unnin í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu. Eftir MA-gráðuna starfaði hún sem rannsakandi við the Laboratory of Archeo-Anthropology molecular/Ancient DNA at the International School of Advanced Studies í Camerino á Ítalíu. Meðfram doktorsnáminu hefur hún starfað sem rannsakandi hjá Íslenskri erfðagreiningu og sem stundakennari í líffræðilegri mannfræði við Háskóla Íslands.

Ágrip
Doktorsritgerðin lýsir rannsóknum sem byggja á arfgerðagögnum úr fornum líkamsleifum á Íslandi og Noregi, ásamt arfgerðum úr núlifandi íbúum Íslands, Bretlandseyja og Skandinavíu.

Rannsóknirnar sem mynda kjarna þessarar ritgerðar meta umfang breytinga í erfðamengi fólks í Norður-Atlantshafi af völdum genaflökts auk þess að leiða í ljós hvernig erfðamengi þessara hópa hefur mótast af fólksflutningum og faröldrum. Með því að raðgreina heil erfðamengi úr einstaklingum frá fyrstu kynslóðum Íslandsbyggðar og bera þær saman við arfgerðir úr núlifandi einstaklingum var hægt að meta beint uppruna einstaklinga frá landnámsöld.

Niðurstöður okkar benda til þess að vegna genaflökts hafi Íslendingar tapað stórum hluta af þeim erfðabreytileika sem kom til Íslands með forfeðrum þeirra. Enn fremur eru vísbendingar um að við upphaf Íslandsbyggðar hafi fólk af keltneskum uppruna eignast færri börn en fólk af norrænum uppruna, sem hefur leitt til þess að norrænn uppruni Íslendinga hefur aukist frá landnámsöld til dagsins í dag. Í annarri rannsókninni er kannað hvaða áhrif svartidauði hafði á erfðabreytileika íbúa Þrándheims í Noregi. Niðurstöður benda til þess að fyrir svartadauða hafi töluvert meira verið um fólk af breskum ættum í Þrándheimi en eftir plágu. Ekki sé ljóst hvers vegna, en e.t.v. er það vegna þess að efnahagslegt og pólitískt mikilvægi Þrándheima var minna eftir pláguna. Þar að auki benda niðurstöður okkar til þess að vegna skekkju í að staðsetja stutta raðgreinda DNA-búta úr fornum sýnum á viðmiðunarerfðamengi mannsins sé vandmeðfarið að greina áhrif náttúrvals eða gera annars konar beinan samanburð milli arfgerða fornra einstaklinga. Þessi skekkja er nokkuð sem skoða þarf ítarlegar ef ætlunin er að framkvæma slíkar rannsóknir. Í þriðju rannsókninni var erfðabreytileiki núlifandi Norðmanna kannaður. Þar kom meðal annars í ljós að erfðamengi íbúa syðstu fylkja Noregs eru frábrugðin restinni af Noregi sökum genaflökts.

Fimmtudaginn 25. maí ver Sigríður Sunna Ebenesersdóttir doktorsritgerð sína í mannfræði við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands.

Doktorsvörn í líffræðilegri mannfræði - Sigríður Sunna Ebenesersdóttir