Gæði algjört leiðarljós í þróun nýrra fjarnámsleiða við HÍ
„Kennsluþróun er eilífðarverkefni, sífellt koma fram nýjar rannsóknir og leiðir enda samfélagið í sífelldri og örri þróun og nám og kennsla þurfa að fylgja með,“ segir Hólmfríður Árnadóttir, sem tók nýverið við starfi verkefnisstýru fjarnáms við Háskóla Íslands. Hún vinnur m.a. að því að fylgja eftir stefnu skólans um að efla rafræna kennsluhætti en í því felst m.a. að fjölga þeim námsleiðum sem eru í boði í fjarnámi. Áherslan verður þar á skýr gæðaviðmið og öflugt þróunarstarf í góðu samstarfi við fólk innan og utan skólans, að sögn Steinunnar Gestsdóttur, aðstoðarrektors kennslu og þróunar.
Í stefnu Háskóla Íslands, HÍ26, er skýr áhersla á sífellda þróun kennsluhátta og námsframboðs með gæði í forgrunni og notkun stafrænnar tækni til að efla kennsluhætti, auka samskipti og mæta ólíkum þörfum nemenda, meðal annars tilliti til búsetu og fötlunar. „Fjarnám hefur verið mikið í umræðunni síðustu ár og þá sérstaklega út frá byggðajafnrétti. Það hefur marga kosti, það eykur möguleika fólks á landsbyggðunum til að mennta sig og eins þeirra sem eiga erfitt með að fara milli staða eða eru á annan hátt bundnir heimili sökum veikinda, örorku eða fötlunar,“ segir Hólmfríður.
Þá getur fjarnám dregið úr ferðalögum, mengun og slysahættu og er því á vissan hátt umhverfisvænt og tímasparandi. „Með fjarnámi er líka hægt að ná til breiðari nemendahóps,“ bætir Steinunn við og undirstrikar að mikilvægt sé að nemendur í fjarnámi upplifi sig sem hluta af háskólasamfélaginu. „Háskóli Íslands er í farabroddi hvað varðar fjölbreyttar leiðir til náms á háskólastigi. Ég vil meina að við bjóðum upp á skemmtilegasta háskólasamfélag landsins. Til viðbótar vinnur Háskóli Íslands markvisst að því að koma til móts við fjölbreyttar þarfir nemenda – allt frá því að bjóða öflugt framboð í endur- og símenntun, fagháskólanám fyrir nemendur sem ekki uppfylla hefbundin skilyrði, nám fyrir nemendur með þroskahömlun eða hvað varðar sérstakan stuðning fyrir nemendur með innflytjendabakgrunn sem hafa hug á að stunda háskólanám. Á síðustu árum höfum við haft augun kirfilega á fjarnámi og verið að byggja upp tækniinnviði, sérfræðiþekkingu og auka stuðning við kennara og deildir til að geta þróað fjarnám eins og það gerist best.“
Þrátt fyrir að löng hefð sé fyrir fjarnámi við Háskóla Íslands segir Hólmfríður að COVID-19-faraldurinn hafi opnað augu fleiri kennara og nemenda fyrir ýmsum jákvæðum hliðum þess konar náms. „Þótt margt af því fjarnámi sem þá varð til, sem kallað hefur verið neyðarfjarnám,sé ekki endilega gæðanám út frá skilgreiningum um kennslufræði fjarnáms þá varð umfjöllun um tæki og tól og kennslufræði sífellt meiri og margir sáu bæði kosti og möguleika fjarnáms,“ segir Hólmfríður. Hún bætir við að fjarnám geti verið leið til að efla námsleiðir sem eiga undir högg að sækja og um leið til að mæta þörfum samfélags sem er í örri og sífelldri þróun.
Hátt í 600 námskeið nú þegar í boði í fjarnámi
Kennslumiðstöð HÍ hefur í mörg ár stutt við þau sem vilja taka upp fjarnám í kennslu við skólann en ætlunin er að sækja enn frekar fram á þessu sviði þar sem skýr áhersla verður á gæðaviðmið við þróun fjarnáms, uppbyggingu innviða fyrir slíkt nám og ekki síst fjölgun námsleiða í fjarnámi með öflugum stuðningi við deildir sem vilja feta þá leið.
Hólmfríður, sem kom til starfa við HÍ í haust, segir að við kortlagningu fjarnáms við skólann hafi komið henni ánægjulega á óvart að fjölbreyttar námsleiðir bjóði nú þegar upp á fjarnám sem hafi verið til löngu fyrir tíma neyðarfjarnáms í kórónuveirufaraldrinum. „Nú þegar eru hátt í 600 námskeið boði í fjarnámi við skólann,“ bendir hún á og bætir við að á Menntavísindasviði skólans sé t.d. afar löng hefð fyrir fjarnámsleiðum.
Hún tekur jafnframt fram að í kjölfar könnunar um áhuga á að bjóða upp á aukið fjarnám, sem gerð var innan ólíkra fræðasviða skólans nýverið, sé nú ætlunin að þróa fleiri heilar námsleiðir með tilliti til fjarnáms. „Einhverjar fara af stað næsta haust og eru jafnvel nú þegar í einhverju formi fjarnáms en verða endurskoðaðar og þróaðar enn frekar út frá kennslufræði fjarnáms samhliða því að eitt og eitt námskeið til viðbótar á viðkomandi deild fer í fjarnám,“ segir Hólmfríður og bætir við að fleiri fjarnámsleiðir bætist við á næstu misserum og árum.
Fjarnám getur farið fram með ýmsum hætti en tvær meginleiðirnar eru:
- Hefðbundin fjarnám (e. Distance Learning) sem fer að mestu fram á netinu en þó með staðlotum og/eða netfundum sem eru háð stað.
- Netnám (e. Online Learning) sem er fjarnám sem fer alfarið fram á netinu án þess að viðveru sé krafist af nemendum en hefur þó upphaf og endi innan tiltekins ramma líkt og hefðbundið nám.
Heilar námsleiðir helgaðar fjarnámi
Fjórar námsleiðanna sem nú eru í þróun eru diplómanámsleiðir á Hugvísindasviði, í frönsku, í þýsku og spænsku. „Það er virkilega spennandi að geta í framtíðinni boðið upp á tungumálanám fyrir öll um allt land, tækifæri fyrir þau sem vilja vinna hjá sendiráðum eða nýta tungumál erlendis og svo er til dæmis kjörið fyrir kennara að bæta við sig tungumálanámi og fá þannig möguleika til að kenna það í vali sem dæmi,“ segir Hólmfríður.
Innan félagsvísinda er jafnframt ætlunin á næstunni að endurskoða tvær námsleiðir í fjarnámi, m.a. í upplýsingafræði og félagsfræði. Hólmfríður bendir enn fremur á að safnafræði hafi verið í boði í fjarnámi verið í árafjöld. „Hugmyndin er að hugsa þetta heildrænt og að heil námsleið sé undir sem er töluverð vinna sem margir koma að. Við viljum gera þetta vel og tryggja að það fjarnám sem hér verði sé gæðafjarnám. Það er virkilegur hugur í fólki og vilji til góðra verka svo þetta eru spennandi tímar,“ segir hún.
„Við ætlum að efla okkar sérfræðiþekkingu enn frekar, auka samstarf við innlenda og erlenda háskóla til að efla gæði fjarnáms og framboð. En við ætlum að vanda okkur og vera í takt við fræði og fagfólk sem hafa sýnt fram á árangur og raunhæfar leiðir,“ bætir Steinunn við.
Sjálf er Hólmfríður líkt og nemendur Háskólans að læra ýmislegt nýtt í þessu ferli en hún viðar m.a. að sér frekari þekkingu í kennslufræði fjarnáms. „Kennslufræði er vissulega mitt sérsvið en við bættist þetta tvist af samþættingu við tækni og þess að með fjarveru kennara þarf annað að koma í staðinn til að halda virkni og áhuga nemenda á námsefninu og þeim verkefnum sem því tilheyra,” segir Hólmfríður sem stundar fjarnám í hönnun fjarnáms hjá Oxford-háskóla í Brelandi.
Mikill áhugi innan skólans á fjarnámi
Vinna að endurskoðun fjarnáms fer enn fremur fram í samstarfi við erlenda sérfræðinga sem hafa rannsakað og kennt í fjarnámi. Meðal þess sem þeir munu bjóða upp á eru vinnustofur fyrir lykilaðila á öllum sviðum skólans um hönnun fjarnáms.
„Þetta hefur verið einstaklega skemmtilegur tími og mér hefur verið vel tekið enda vil ég meina að það sé mikill áhugi innan HÍ á fjarnámi og að efla þá færni innan skólans enda HÍ stærsti skóli landsins með mesta námsframboðið og mikilvægt að hér megi finna fjölbreyttar leiðir til náms,“ segir Hólmfríður og bætir við að áhersla verði lögð á að kynna vel fyrir verðandi nemendum þá möguleika sem standa til boða í fjarnámi.
En væri hægt væri að bjóða upp á allar námsleiðir í fjarnámi? „Stórt er spurt! Veistu já mögulega, fjarnám með öflugum staðlotum þar sem verklegt nám færi fram þegar svo þyrfti en annars með góðum fjarfundum og eða alveg í netnámi. En stefnan er ekki að fara þangað enda Háskóli Íslands öflugur staðnámsskóli og alls ekki ætlunin að draga úr því. Stefnan er að einhverjar námsleiðir á öllum sviðum skólans verði í fjarnámi, þar sem gæði, fræði og fagmennska eru í fyrirrúmi,“ segir Steinunn.