Verðlaunaðar fyrir framúrskarandi lokaverkefni í félagsfræði
Tveir nýútskrifaðir nemendur frá Háskóla Íslands, þær Ragnhildur Inga Magnúsdóttir og Arnbjörg Jónsdóttir, hlutu viðurkenningu fyrir framúrskarandi lokaritgerðir í grunn- og meistaranámi á hinum árlega Félagsfræðidegi sem fram fór í Veröld – húsi Vigdísar 2. desember. Lokaverkefni þeirra snerta umfjöllun fjölmiðla um kynferðisbrot og félagsleg tengsl flóttafólks á Íslandi.
Félagsfræðingafélag Íslands stóð fyrir dagskrá í tilefni dagsins og að þessu sinni var sjónum beint að félagslegum afleiðingum styrjalda og ójöfnuði þjóða. Lykilerindi flutti Sigríður Víðis Jónsdóttir sem nýverið gaf út bókina Vegabréf: Íslenskt sem hefur hlotið mikla athygli og lof.
Við þetta tækifæri veitti félagið jafnframt verðlaun fyrir framúrskarandi lokaritgerðir í grunn- og meistaranámi í félagsfræði og sem fyrr segir komu þau í hlut Ragnhildar Ingu Magnúsdóttur og Arnbjargar Jónsdóttur.
Ritgerð Ragnhildar Ingu Magnúsdóttur var valin framúrskarandi ritgerð á BA-stigi en hún ber yfirskriftina „Viðhald eða ögrun orðræðunnar? Birtingarmynd umfjöllunar um kynferðisbrot“. Markmið ritgerðarinnar var að greina þá orðræðu sem fjölmiðlar nota í umfjöllun sinni um kynferðisofbeldi og m.a. kanna hvort fjölmiðlar styðjist við eða ögri ríkjandi hugmyndum og orðræðu samfélagsins. Niðurstöður greiningarinnar leiddu í ljós að greinileg átök eru til staðar þegar kemur að tilteknum þáttum orðræðunnar um kynferðisofbeldi, en að samþykkt ríki um aðra þætti hennar.
Leiðbeinandi Ragnhildar Ingu var Arnar Eggert Thoroddsen, aðjunkt í félagsfræði við HÍ.
Ritgerð Arnbjargar Jónsdóttur var valin framúrskarandi ritgerð á meistarastigi en hún ber heitið „Þannig þekki ég svona margt fólk hérna: Áhrif félagslegra tengsla á reynslu og lífskjör flóttafólks á Íslandi“. Markmið rannsóknarinnar var að greina frá reynslu flóttafólks af því að setjast að á Íslandi, m.a. til að bæta stefnumótun málaflokksins og þjónustuna, en sérstök áhersla var á félagslegt tengslanet þessa hóps hér á landi. Arnbjörg ræddi bæði við hóp flóttafólks og sérfræðinga sem starfa við málaflokkinn í rannsókninni. Niðurstöður hennar sýna m.a. að flóttafólk býr að margvíslegum og dýnamískum félagslegum tengslum í íslensku samfélagi en að auka þarf aðgengi flóttafólks á Íslandi að starfsfólki og fagaðilum sem koma að þjónustu og móttöku flóttafólks.
Leiðbeinandi Arnbjargar var Kjartan Sveinsson, aðjunkt í félagsfræði við HÍ.