Doktorsvörn í viðskiptafræði - Guðrún Erla Jónsdóttir
Aðalbygging
Hátíðasalur
Þriðjudaginn 13. desember ver Guðrún Erla Jónsdóttir doktorsritgerð sína Eigendastefna: Áhrif ábyrgs eignarhalds á störf stjórna og stefnumiðaða ákvarðanatöku (Ownership Strategy: The Impact of Responsible Ownership on Board Behavior and Strategic Decision-making).
Vörnin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands kl. 14:00 og er öllum opin. Hægt er að fylgjast með streymi hér.
Leiðbeinandi Guðrúnar Erlu er dr. Þröstur Olaf Sigurjónsson, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og í doktorsnefnd sitja dr. Bjarni Snæbjörn Jónsson forstjóri DecideAct, dr. Flemming Poulfelt prófessor við Copenhagen Business School og dr. Thomas Poulsen dósent við Copenhagen Business School.
Andmælendur eru dr. Morten Huse prófessor við BI Business School í Osló og dr. Nikolas Kavadis dósent hjá Center for Corporate Governance/ACC, Copenhagen Business School í Kaupmannahöfn.
Vörninni stýrir dr. Erla S. Kristjánsdóttir, varadeildarforseti Viðskiptafræðideildar.
Um doktorsefnið
Guðrún Erla Jónsdóttir fæddist þann 24. janúar 1979. Hún lauk B.Sc. prófi í ferðamála- og viðskiptafræði frá Háskóla Íslands 2004 með viðkomu í San Diego State University. Hún stundaði framhaldsnám í Syddansk Universitet í Odense og lauk svo M.Sc.prófi í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands 2006.
Guðrún Erla hefur umtalsverða reynslu af orku- og veitustarfsemi. Hún starfaði sem framkvæmdastjóri Orkuveitu Húsavíkur frá 2008 þar til hún gekk til liðs við Orkuveitu Reykjavíkur árið 2015 þar sem hún starfar sem stefnustjóri. Þá var Guðrún Erla var fyrsta konan til að eiga sæti í stjórn samtaka orku- og veitufyrirtækja, Samorku, og var varaformaður samtakanna frá 2016-2019. Árið 2018 tók hún sæti formanns stjórnar Veitna, stærsta orku- og veitufyrirtækis á Íslandi. Guðrún Erla hefur lagt stund á rannsóknir samhliða störfum sínum frá árinu 2017, haldið fjölda fyrirlestra og gefið út greinar og bókarkafla á þeim tíma, sem snúa að stjórnarháttum og stefnutengdu hlutverki stjórna.
Ágrip
Vaxandi umfjöllun hefur verið síðastliðin ár um góða stjórnarhætti. Tilgangur þeirra er að stuðla að því að fyrirtæki séu starfrækt með faglegum og gagnsæjum hætti þannig að almennt traust geti ríkt á stjórnun og starfsemi þeirra. Rannsóknir á atburðarrás fjármálahrunsins 2008 sýndu að á stundum var farið á svig við góða stjórnarhætti og traust í garð fyrirtækja minnkaði umtalsvert. Kom í ljós að tækifæri var fyrir fleiri lausnir en þær sem áður höfðu verið aðgengilegar sem bætt geta stjórnarhætti. Lausnir sem gætu afstýrt hagsmunaárekstri milli eigenda og stjórnenda sem og áherslu á skammtímaárangur, á kostnað sjálfbærs árangurs. Þegar ósamræmi skapast milli aðgerða stjórnenda og væntinga eða vilja eigenda, minnkar traust, fjárhagslegur árangur og velferð þeirra. Doktorsrannsókn Guðrúnar Erlu skoðar það hvort og með hvaða hætti eigendastefna hefur áhrif á stjórnarhætti; eigendahlutverk, störf stjórna og stefnumiðaða ákvarðanatöku.
Rannsóknin byggir á tilviksathugun á eigendastefnu Orkuveitu Reykjavíkur þar sem kafað er í viðfangsefnið og það skoðað frá sjónarhóli og upplifun hagaðila. Rannsóknin byggir undir fræðilega undirstöðu ábyrgs eignarhalds og eigendastefnu sem lítið hefur verið skrifað um. Rannsóknin leiðir í ljós að eigendastefna er áhrifarík lausn innan stjórnarhátta. Eigendastefna stuðlar að sameiginlegri langtímaskuldbindingu eigenda við fyrirtækið, á sama tíma og hún lágmarkar hagsmunaárekstra og stuðlar að auknu trausti milli eigendanna sjálfra, sem og eigenda, stjórnar og stjórnenda sem starfa í umboði eigendanna. Á sama tíma hefur eigendastefna jákvæð áhrif á störf stjórnar og stjórnunar og gerir stefnumótandi ákvarðanatöku auðveldari og skilvirkari. Þessi jákvæða tenging stuðlar að samstilltum aðgerðum sem birtast í skýrri og sjálfbærri nálgun sem leiðir til jákvæðs ávinnings.
Doktorsvörn í viðskiptafræði - Guðrún Erla Jónsdóttir