Doktorsvörn í landfræði - Susanne Claudia Möckel
Aðalbygging
Hátíðarsalur
Doktorsefni: Susanne Claudia Möckel
Heiti ritgerðar: Kolefnisbinding í mómýrum í síbreytilegu umhverfi – lífræn efni í mójörð undir áhrifum eldvirkni (Carbon Storage in Peatlands within an Ever-changing Environment – Soil Organic Matter Dynamics in the Context of Active Volcanism)
Andmælendur: Dr. Angela Gallego-Sala, prófessor við University of Exeter, Bretlandi
Dr. Jóhann Þórsson, sérfræðingur hjá Landgræðslunni
Leiðbeinandi: Dr. Guðrún Gísladóttir, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ
Einnig í doktorsnefnd:
Dr. Egill Erlendsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ
Dr. Rattan Lal, prófessor við School of Environment and Natural Resources, Ohio State University
Doktorsvörn stýrir: Dr. Snæbjörn Pálsson, prófessor og deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar HÍ
Ágrip
Á undanförnum árum hefur vitund almennings um hlýnun loftslags aukist. Í tengslum við það hefur verndun og endurheimt mýra til þess að auka bindingu kolefnis notið vaxandi meðbyrs. Mýrar, eða nánar tiltekið mómýrar, geyma allt að 30% kolefnis í jarðvegi á heimsvísu og eru því mikilvægur hlekkur í kolefnishringrás. Helstu áhrifaþættir kolefnisuppsöfnunar í mójörð (lífrænn jarðvegur mómýra) eru að jafnaði vatnsbúskapur, gróðurfarseinkenni og efnasamsetning kolefnis. Steinefni sem eru mikilvægir þættir uppsöfnunar og stöðugleika kolefnis í steinefnajarðvegi, eru venjulega ekki talin móta bindingu kolefnis í mójörð. Nýlegar rannsóknir benda þó til þess að steinefni í formi gjósku og annarra gosefna hafi áhrif á ferli kolefnis í mómýrum á eldvirkum svæðum. Vindborin gosefni hafa því áhrif á mójörð á Íslandi enda er eldvirkni þar með því mesta sem gerist í heiminum. Auk þess eru á landinu óvenju mikil foksvæði þar sem saman fer samspil sterkra vinda og óvenju mikilla auðna sem gjarnan eru þaktar fokefnum af eldfjallauppruna. Markmið þessa doktorsverkefnis var að rannsaka ferli kolefnis í íslenskri mójörð undir mismiklum áhrifum vindborinna steinefna. Niðurstöður rannsóknarinnar benda sterklega til þess að samspil gróðurfarseinkenna, efnasamsetningar kolefnis og steinefna í jarðvegi móti ferli kolefnis í íslenskum mómýrum. Jákvæð fylgni á milli steinefna á borð við allófan og ferrihýdrít og ákveðinna hópa kolefnis er sérstaklega athyglisverð. Einnig eiga sér stað áberandi breytingar á efnasamsetningu og stöðugleika kolefnis samhliða því að þykk gjóskulög leggjast yfir mómýrar. Mikilvægt er að taka tillit til áhrifa steinefna á ferli kolefnis í mómýrum á eldvirkum svæðum þegar spáð er fyrir um afleiðingar umhverfisbreytinga á borð við loftslagsbreytingar og framræslu á hringrás kolefnis í þessum vistkerfum.
Um doktorsefnið
Susanne er fædd árið 1987 og ólst upp í Erlangen í Þýskalandi þar sem hún lauk stúdentsprófi árið 2006. Susanne flutti til Íslands árið 2009 og lauk bakkalárgráðu í landfræði frá Háskóla Íslands árið 2014 og meistaragráðu í landfræði frá sama skóla árið 2016. Sambýlismaður Susanne er Jóhannes Weber.
Susanne Claudia Möckel