Skip to main content
27. október 2022

Uglur á kvisti rannsakaðar í HÍ

Uglur á kvisti rannsakaðar í HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þótt fuglar séu býsna áberandi í íslenskri náttúru eru hér tegundir sem færri sjá en vilja, jafnvel þótt stofnar sumra þeirra fari hér hægt stækkandi. Þannig er íslenski haförnin afar sjaldséður enda alls ekki útbreidd tegund sem hefur lengi verið í mikilli útrýmingarhættu. En haferninum vegnar nú betur en lengi vel. Uglur eru einnig fuglar sem fáir sjá en tveimur uglutegundum hefur þó tekist að verpa hér í auknum mæli hin síðustu ár. Það er auðvitað rannsóknarefni að skilja hvers vegna þeim vegnar nú betur í íslenskri náttúru en það er ekki einfalt að rannsaka uglur. Þær haga sér nefnilega einhvern veginn þannig að þær forðast hreinlega að vera í sviðsljósinu. 

„Ég elska uglur og þær kveikja síendurtekið einhvern neista sem drífur mig áfram í að reyna að skilja líf þeirra. Þegar maður horfir framan í uglu þá skynjar maður strax dulúð og langar að vita meira. Laumulegir lífshættir ugla auka svo enn frekar á spennuna.“ 

Þetta segir Gunnar Þór Hallgrímsson, prófessor í dýrafræði, sem hefur helgað starfsævina vistfræðirannsóknum. Hann segir að slíkar rannsóknir hafi aldrei verið mannkyninu mikilvægari en einmitt nú þegar verulega sé farið að þrengja að tilveru okkar. 

Gunnar

Gunnar Þór Hallgrímsson við fuglarannsóknir.

„Öllum ætti að vera ljóst að samfélög manna eru undir heilbrigðum vistkerfum komin. Rannsóknir sem auka skilning á þáttum sem móta samfélög lífvera og stjórna stofnstærðum þeirra og útbreiðslu eru einn af hornsteinum sjálbærrar þróunar.“ 

Uglur sitja á kvisti og aðrar á opnum svæðum

Gunnar Þór hefur drjúgan hluta síns ferils beint sjónum að sjófuglum en afdrif þeirra eru samofin lífríkinu í hafinu sem telst til ofurauðlindar Íslendinga. Það er okkur því mikilvægt að rannsaka þær fuglategundir sem reiða sig á hafið til fæðuöflunar þar sem farsæld sjófugla er áviti á ástand sjávar. Núna vinnur Gunnar Þór hins vegar að miklum rannsóknum á uglum á Íslandi. 

Ugluungar

Er eitthvað sætara en ugluungar?

„Fyrir utan hvað uglurnar eru áhugaverðar í sjálfu sér þá finnst mér mjög áhugavert og mikilvægt að vakta rándýr sem endurspegla vel þær breytingar sem eru að eiga sér stað í íslenskum vistkerfum. Branduglan er líkleg til að endurspegla mörg af þeim opnu algengu en minnkandi búsvæðum á láglendi en eyruglan virðist á hinn bóginn bundin við hin sífellt stækkandi skógræktarsvæði,“ segir Gunnar Þór.   

Hvað takmarkar vöxtinn á uglustofnum á Íslandi?

Vísindamaðurinn segir að langtímamarkmiðið með rannsókninni sé að meta vægi þátta sem takmarka stofnstærð og útbreiðslu uglutegunda á Íslandi. „Í fyrstu lotu er sjónum beint sérstaklega að fæðu og búsvæðum. Tvær af þremur uglutegundum sem orpið hafa hérlendis eru á mörkum sinna heimsútbreiðslusvæða og við slíkar aðstæður getur verið vænlegt að meta takmarkandi þætti.“ 

brandugla

Brandugla er líkleg til að endurspegla mörg af þeim opnu algengu en minnkandi búsvæðum á láglendi, að sögn Gunnars.

Það er kannski ekki mjög skynsamlegt að spyrja vísindamann sem hefur brennandi áhuga á fuglum um kveikjuna að rannsókninni á uglum. Gunnar Þór hefur reyndar mikinn áhuga á öllu sem snýr að dýrafræði en frá því hann var barn hafa fuglar verið í sérstöku uppáhaldi. „Það má því segja að áhugi á rannsóknum hafi sprottið út frá almennum áhuga á fuglum fremur en að áhugi á fuglum hafi komið í gegnum rannsóknirnar.“

Og hann tekur spurningunni ekki fálega um kveikjuna og svarar því til að áhuginn á að rannsaka uglur hafi komið hægt og bítandi. „Eftir að hafa verið lengi viðloðandi rannsóknir á t.d. sjófuglum og fjörufuglum þá sér maður vel að þótt hentugt sé að skoða tegundirnar sjálfar þá getur verið vandkvæðum bundið að meta lykilþætti sem tengjast þeim eins og t.d. fæðuframboð. Með því að fara að rannsaka uglur þá sá ég fyrir mér að flækjustigið varðandi fæðuna yrði minna, þ.e. að fáar tegundir væru lykilfæða og að tiltölulega einfalt yrði að vakta fæðuframboðið.“  

„Gildi þessarar rannsóknar á uglum fyrir vísindin sýnist mér að sé gróflega tvíþætt. Annars vegar er það út frá verndarlíffræði og snýr að því að afla grundvallarþekkingar á þeim tegundum sem eru til rannsóknar til að geta spáð fyrir um afdrif þeirra og gert ráðstafanir og hjálpað þeim ef stofnar þeirra eru á undanhaldi. Hins vegar getur skilningur á takmarkandi þáttum sem móta stofnana gefið mikilvægar upplýsingar um ástand og virkni vistkerfa, bæði hugmyndafræðilega og með beinum hætti.“

Hvað éta uglur á Íslandi?

En þá kemur næsta spurning. Hvað éta þá uglur á Íslandi?

„Báðar tegundir, eyrugla og brandugla, sækja í hagamýs en fúlsa ekki við fuglum þegar tækifæri gefst. Hjá eyruglunni sjáum við greinileg jákvæð tengsl á milli þess hve mikið af músum er í fæðunni og því hversu vel þeim gengur í varpi og því má segja að mýsnar séu lykilfæða. Ekki er ljóst hversu miklu máli mýs skipta fyrir branduglur en vísbendingar eru um að smáfuglar séu stærri hluti af fæðu þeirra hérlendis en í nágrannalöndunum þar sem samkeppni við aðra ránfugla er meiri. Við höfum væntingar um að skilja betur þátt samkeppni í að móta samfélög dýra með því að nota uglurnar sem módeltegundir.“

ugluungar

Mýs eru lykilfæða ugla eins og sjá má í þessu hreiðri.

Gunnar Þór segir að fyrstu niðurstöður varðandi búsvæðaval bendi til að eyruglur séu takmarkaðar af framboði á hentugu búsvæði en branduglur virðist ekki takmarkaðar af framboði búsvæða og nýti sér raunar mun fjölbreytilegri búsvæði en vísindamennirnir bjuggumst við í upphafi. „Branduglurnar virðast einnig vera rótlausar og hika ekki við að yfirgefa dvalarstaði sína og leita á nýjar slóðir ef harðnar á dalnum.“

Fuglar eru tengdir við ljóð og lífríki og árstíðirnar

Margir Íslendingar dást að fuglum og tengja þá við ljóð og lífríki og árstíðir. Fuglar eru einhvers konar tákn þess umhverfis þar sem þeir lifa og sumir tákna eitthvað stærra og meira. Uglan er t.d. tákn visku, innsæis, sjálfstæði í hugsun og þess að halda athyglinni vakandi.  Til marks um þetta heitir innri vefur Háskóla Íslands - og nokkurra annara háskóla á Íslandi - Ugla. 

eyrugla

Góðan daginn, gæti þessi ungi verið að segja.

Gunnar Þór segir að rannsóknir séu brýnar.  „Vandaðar rannsóknir auka nefnilega þekkingu okkar og skilning og geta þannig eflt möguleika mannkyns til að lifa farsællega.“  

Eyrugla